Móttökuskóla fyrir börn af erlendum uppruna
'}}

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Hef­ur þú staðið fyr­ir fram­an 25 ung­linga í þeim til­gangi að kenna þeim stærðfræði? Verið í grunn­skóla í Reykja­vík og þegar þau horfðu á þig með stór spurn­ing­ar­merki í aug­un­um áttaðir þú þig á því að fæst þess­ara barna töluðu ís­lensku? Eft­ir dá­lítið grúsk komst þú að því að þrjú þeirra voru ný­kom­in úr flótta­manna­búðum með litla skóla­göngu að baki og að alls voru töluð sex tungu­mál í þess­um litla bekk.

Veru­leiki grunn­skóla­barna og grunn­skóla­kenn­ara er alls kon­ar. Sög­urn­ar eru ótrú­leg­ar en það litla sem við raun­veru­lega vit­um um stöðu þessa mik­il­væga skóla­stigs er að þar hef­ur hallað veru­lega und­an fæti síðastliðin ár.

Tæp 30% nem­enda í ís­lensk­um grunn­skól­um hafa er­lend­an bak­grunn og ljóst að slík fjölg­un í óbreyttu kerfi hef­ur áhrif á gæði náms og ár­ang­ur nem­enda. Kenn­ar­ar hafa reynt að mæta þess­um áskor­un­um með fjöl­breytt­um leiðum en benda á að álagið sem þessu fylg­ir haldi aft­ur af hefðbundnu skóla­starfi og vilja aðrar lausn­ir.

Árang­ur ís­lenskra nem­enda í PISA er verri en nokkru sinni áður og ár­ang­ur­inn er und­ir meðallagi OECD og Norður­land­anna í öll­um þátt­um. Helm­ing­ur drengja út­skrif­ast úr grunn­skóla án þess að hafa náð grunn­færni í læsi.

Vand­inn er margþætt­ur og erfitt er að benda á eina töfra­lausn en þrátt fyr­ir það er ég sann­færð um að ein ákvörðun – ein stór breyt­ing – gæti skipt sköp­um og haft mik­il og já­kvæð áhrif fyr­ir allt skólastarf. Hún er sú að við Íslend­ing­ar setj­um upp al­menni­lega og vel skipu­lagða mót­töku­skóla fyr­ir börn af er­lend­um upp­runa.

Mót­töku­skóli er ekki ný hug­mynd og slík­an skóla má t.d. finna í Nor­egi. Skól­inn væri fyrsta skref fyr­ir börn af er­lend­um upp­runa sem eru að fóta sig í ís­lensku sam­fé­lagi og lögð væri áhersla á sam­ræmda tungu­mála­kennslu og hæfni­mat. Sér­hæft úrræði þannig að þau séu bet­ur und­ir­bú­in þegar þau síðan fara inn í al­menna grunn­skóla. Slík­ar til­lög­ur hafa verið lagðar fram af Bryn­dísi Har­alds­dótt­ur og fleiri þing­mönn­um Sjálf­stæðis­flokks­ins.

Með því að taka slíka ákvörðun mæt­um við bet­ur nem­end­um sem eru að fóta sig í nýju skólaum­hverfi og þurfa aukna aðstoð og tungu­mála­kennslu. Í óbreyttu kerfi tapa all­ir – ekki aðeins börn og ung­menni af er­lend­um upp­runa held­ur líka aðrir nem­end­ur, kenn­ar­ar og starfs­fólk sem reyn­ir að mæta þörf­um hvers og eins nem­anda án nægi­legs stuðnings. Árang­ur skipt­ir sam­fé­lagið öllu máli.

Kerfið þarf að virka fyr­ir alla – og sér­stak­lega fyr­ir þann hóp barna sem á und­ir högg að sækja í ís­lensku mennta­kerfi. Mennta­kerfið okk­ar á að tryggja jöfn tæki­færi. Óbreytt staða trygg­ir ekki þau tæki­færi fyr­ir alla.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 23. október 2024.