Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu til á fundi borgarstjórnar sl. þriðjudag að Reykjavíkurborg léti af fjármögnun og annarri þátttöku vegna hugsanlegs flugvallar í Hvassahrauni. Tillagan var felld með atkvæðum meirihluta Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar.
Stýrihópur um mögulega staðsetningu flugvallar í Hvassahrauni (Afstapahrauni) hefur skilað af sér skýrslu. Hópurinn kemst ekki að óyggjandi niðurstöðu en vill halda áfram að skoða málið. Samþykktir hafa verið reikningar fyrir 181 milljón króna vegna vinnu hópsins.
Athygli vekur að aðeins er fjallað um náttúruvá vegna jarðhræringa og eldgosa á þremur blaðsíðum í skýrslunni. Skýrsluhöfundar taka fram að hættumat vegna eldgosa og jarðskjálfta fyrir Hvassahraun byggist á stöðu þekkingar áður en eldvirkni gerði vart við sig á Reykjanesskaga á ný. Er með miklum ólíkindum að í skýrslunni skuli ekki vera tekið mið af þeim miklu eldsumbrotum og níu eldgosum, sem orðið hafa á svæðinu frá árinu 2021.
Fráleitt flugvallarstæði
Fjölmargir jarðvísindamenn mæla gegn því að ráðist verði í lagningu nýs flugvallar í Hvassahrauni. Telja þeir að staðir utan Reykjanesskaga henti mun betur í því skyni. Það er staðreynd að nýtt eldsumbrotatímabil er hafið á svæðinu, sem staðið getur áratugum og jafnvel öldum saman.
Í yfirstandandi hrinu hefur þegar gosið í tveimur kerfum: Fagradalsfjalli og Eldvörpum-Svartsengi. Eldvirkni í fleiri kerfum er líkleg, þ.e. í Krýsuvíkurkerfinu, Brennisteinsfjöllum (Bláfjöllum) og Hengli. Slíkt kallar á endurmat við allt skipulag og innviðauppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesskaga til framtíðar. Á það ekki síst við um íbúabyggð, vegi og flugvelli.
Hugmyndir um flugvöll í Hvassahrauni eru fráleitar vegna jarðhræringa og eldgosahættu eins og jarðvísindamenn hafa lengi bent á. Mjög heimskulegt væri að leggja flugvöll svo nálægt virku eldsumbrotasvæði. Þótt ekki gysi á sjálfum flugvellinum, gætu eldsumbrot í nágrenni hans haft margvísleg neikvæð áhrif á starfsemina. Til dæmis vegna gasmengunar, reykjarkófs og öskufalls.
Skattfé sóað
Það er því óverjandi að ríkið og Reykjavíkurborg haldi áfram að sóa hundruðum milljónum króna til frekari rannsókna og framkvæmda við flugvöll í Hvassahrauni. Stöðva á fjáraustur í slíkt gæluverkefni, sem virðist helst hafa þann tilgang að friða andstæðinga Reykjavíkurflugvallar.
Kostnaður við innanlandsflugvöll í Hvassahrauni yrði ekki undir fimmtíu milljörðum króna. Alþjóðaflugvöllur þar myndi kosta a.m.k. 396 milljarða króna að núvirði samkvæmt kostnaðarmati samgönguráðuneytisins frá 2019.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir það hvorki raunhæft né skynsamlegt að setja hundruð milljarða króna í nýjan flugvöll í Hvassahrauni. Mun skynsamlegra sé að styrkja þá fjóra alþjóðlegu flugvelli, sem nú þegar eru í rekstri á landinu.
Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra segir ekki koma til grein að setja fjármuni í byggingu flugvallar í Hvassahrauni vegna hættu á náttúruvá. Segist hann hvorki myndu setja sína eigin peninga né fjármuni almennings í slíkt verkefni.
Meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar í borgarstjórn kýs hins vegar að afneita staðreyndum og berja höfðinu við steininn. Hann vill halda óraunhæfri hugmynd um flugvöll í Hvassahrauni til streitu og kasta fjármunum skattgreiðenda á glæ í því skyni. Markmið meirihlutans er augljóslega að flæma flugvallarstarfsemi úr Reykjavík með öllum ráðum.
Mikilvægi Reykjavíkurflugvallar
Mikilvægi Reykjavíkurflugvallar hefur aukist með tíðum eldsumbrotum á Reykjanesskaga. Þess vegna ber að tryggja starfsemi flugvallarins og sjá til þess að hann geti áfram gegnt margþættu hlutverki sínu í þágu innanlandsflugs, sjúkraflugs og björgunarflugs. Síðast en ekki síst ber að viðurkenna mikilvægi hans sem varaflugvallar Keflavíkurflugvallar.