Óli Björn Kárason þingmaður Sjálfstæðisflokksins:
Kæru vinir og samherjar. Ég hef tekið þá ákvörðun að sækjast ekki eftir endurkjöri sem þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi í komandi kosningum. Ákvörðunin hefur legið fyrir í nokkurn tíma en fyrr í dag gerði ég þingflokki okkar grein fyrir henni.
Það hefur verið sérstaklega ánægjulegt að njóta þess trúnaðar og trausts að vera þingmaður Sjálfstæðisflokksins á undanförnum árum. Ég þakka af heilum hug þau forréttindi. Í gegnum starf mitt sem þingmaður hef ég eignast trausta vini um allt land og þau vinabönd bresta ekki.
Í starfi mínu sem þingmaður hef ég byggt á hugmyndafræði og lífssýn sjálfstæðisstefnunnar um mannhelgi einstaklingsins – að andlegt og efnahagslegt frelsi sé frumréttur hvers og eins. Og það hefur á stundum reynt á þolrifin.
Fram undan eru mikilvægar kosningar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur átt á brattann að sækja en hefur náð vopnum sínum aftur. Gangi frambjóðendur og við sem styðjum Sjálfstæðisflokkinn til verka af sannfæringu og með sjálfstraust óttast ég ekki dóm kjósenda.
Sjálfstæðisflokkurinn er lifandi stjórnmálaafl sem ég hef oft líkt við suðupott hugmynda og hugsjóna. Við höfum umburðarlyndi fyrir ólíkum skoðunum, tökumst á en snúum alltaf bökum saman til að vinna að framgangi hugsjóna. Sjálfstæðisfólk byggir á bjartsýni, en nærist ekki á tortryggni eða öfund. Undir merkjum Sjálfstæðisflokksins er glaðst yfir velgengni, ýtt undir framtakssemi, þar sem einstaklingar fá að njóta eigin dugnaðar og útsjónarsemi. Markmiðið er að bæta lífskjörin og fjölga tækifærunum allra.
Ég mun gera mitt til að tryggja góðan árangur. Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins þurfa að fylgja hugmyndum eftir af ástríðu og sannfæringu. Sýna staðfestu í baráttunni fyrir frelsi einstaklingsins og fullveldi landsins. Þeirri baráttu legg ég lið í öflugri bakvarðarsveit Sjálfstæðismanna um allt land.
Takk fyrir mig.