Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra:
Á sunnudag tilkynnti ég að ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna væri komið að leiðarlokum. Eftir samtöl við formenn samstarfsflokka okkar um stöðu ríkisstjórnarinnar undanfarna daga var það mat mitt að frekara samstarf myndi ekki skila árangri.
Þegar við endurnýjuðum samstarfið undir forystu Sjálfstæðisflokksins í vor voru markmiðin skýr og við náðum fljótt talsverðum árangri. Verðbólga í dag er sú minnsta í þrjú ár og vextir eru teknir að lækka. Með breyttum útlendingalögum og styrkari löggæslu höfum við gjörbreytt stöðunni á landamærum Íslands, þar sem hælisumsóknum hefur fækkað um meira en helming. Í orkumálum hefur mörgum hindrunum sömuleiðis verið rutt úr vegi. Nýsköpun blómstrar, tækifærin eru fleiri og hagsældin meiri. Það er, þrátt fyrir allt, óvíða betra að búa en á Íslandi.
Lýðveldið er reist á grunni framsýni og kjarks
Í hátíðarræðu á Austurvelli þann 17. júní, á 80 ára afmæli lýðveldisins, minntist ég þess hvernig kynslóðirnar sem á undan komu lögðu grunn að framúrskarandi samfélagi nútímans. Sá grunnur var ekki lagður með því að lifa á afrekum fortíðar, heldur með framsýni, kjarki og baráttu fyrir stöðugum framförum á öllum sviðum.
Það er skylda okkar að leggja grunn að enn betra Íslandi fyrir þá sem á eftir koma, en það verður ekki gert með kyrrstöðu. Stöðnun og stöðugleiki eru sitt hvor hluturinn. Vinnufriður er til einskis ef vinnan sjálf mun engum árangri skila. Ríkisstjórn verður að geta sammælst um trausta forystu í stærstu málum hvers tíma. Málamiðlanir hafa ávallt verið eðlilegur hluti þess að sitja við stjórnvölinn en fyrir því eru takmörk í hve miklum mæli má miðla málum.
Í bréfi til sjálfstæðismanna í gær greindi ég samflokksfólki mínu frá því að ég væri að bregðast sjálfum mér, flokksmönnum og landsmönnum öllum með því að þykjast geta leitt stjórnina áfram þegar við næðum ekki niðurstöðu um þau mál sem skipta fólk mestu. Þar með stóð ekki eftir annar kostur en að leggja framhaldið í dóm kjósenda, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn mun tala fyrir þeirri stefnu sem skilað hefur íslensku samfélagi mestum árangri í áranna rás.
Horfum björtum augum til framtíðar
Ísland er land óþrjótandi tækifæra. Við erum stórhuga þjóð, rík að auðlindum, hugmyndum og hæfileikaríku fólki. Það er full ástæða til að horfa björtum augum til komandi ára.
Tryggja þarf áframhaldandi aðhald í ríkisfjármálum til að verðbólga og vextir haldi áfram að lækka. Styrkja þarf landamærin enn frekar. Stórauka þarf græna orkuframleiðslu. Setja þarf skýran ramma um nýjar og vaxandi greinar, þar sem atvinna og afkoma heilu samfélaganna er undir. Við höfum tækifæri til að stórauka verðmætasköpun og hagsæld í landinu, látum þau ekki úr greipum ganga. Auka þarf frelsi fólks í leik og starfi og hverfa frá þeirri hugsanavillu að ríkisstarfsmenn einir geti veitt tiltekna þjónustu eða afgreitt löglegar neysluvörur. Áfram mætti lengi telja.
Fram undan er hörð og snörp kosningabarátta. Valkostirnir eru skýrir. Annars vegar vinstri stjórn, stóraukin útgjöld, meiri ríkisafskipti, hærri skattar og aukin skuldsetning. Hins vegar öflugur Sjálfstæðisflokkur sem getur leitt þjóðina inn í nýja tíma framfara og bættra lífskjara með frelsi einstaklingsins og athafnafrelsi að leiðarljósi. Næstu vikur legg ég störf okkar, stefnu og framtíðarsýn í dóm kjósenda og mun þar berjast af krafti, landi og þjóð til heilla.