Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra tók ákvörðun í dag um að slíta stjórnarsamstarfi við Framsóknarflokkinn og Vinstri græna. Þetta tilkynnti hann í Stjórnarráðinu í dag. Mun hann á morgun leggja tillögu fyrir forseta Íslands um þingrof og alþingiskosningar í nóvember.
„Að vel ígrunduðu máli tilkynnti ég í dag að ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna væri komið að leiðarlokum,“ sagði Bjarni á facebook-síðu sinni í kvöld.
„Ég er stoltur af störfum okkar og árangri í ríkisstjórn. Verðbólga hefur ekki verið lægri í þrjú ár og vextir fara lækkandi, landamærin hafa verið treyst til muna, nýsköpun blómstrar, tækifærin eru fleiri og hagsældin meiri.
Hins vegar lít ég svo á að ég væri að bregðast sjálfum mér, flokksmönnum og landsmönnum öllum með því að þykjast geta leitt stjórnina áfram þegar við náum ekki niðurstöðu um þau mál sem skipta fólk mestu. Ég tel því ekki annan kost í stöðunni en að leggja framhaldið í dóm kjósenda, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn mun tala fyrir þeirri stefnu sem skilað hefur íslensku samfélagi mestum árangri í áranna rás.
Við vitum að tækifærin á Íslandi eru óþrjótandi. Við erum stórhuga, rík af auðlindum, hugmyndum og hæfileikaríku fólki. Það er full ástæða til að horfa björtum augum til komandi ára. Næstu vikur legg ég störf okkar, stefnu og framtíðarsýn í dóm kjósenda og mun þar berjast af krafti, landi og þjóð til heilla,“ sagði hann enn fremur.
Hér má finna upptöku af blaðamannafundi sem forsætisráðherra hélt í Stjórnarráðinu í dag.
Ljósmynd/Eyþór Árnason.