Auka þarf öryggi óvarinna vegfarenda
'}}

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa flutt fjölmargar tillögur á undanförum árum um aukið umferðaröryggi óvarinna vegfarenda, þ.e. gangandi og hjólandi. Sumar þeirra hafa náð fram að ganga. Aðrar hafa verið felldar eða vísað inn í rangala borgarkerfisins af meirihluta Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar.

Á síðasta ári flutti ég tillögu á vettvangi borgarstjórnar um að ráðist yrði í víðtækar úrbætur á stýringu umferðarljósa í borginni í því skyni að auka umferðaröryggi, bæta umferðarflæði og draga úr mengun.

Snjallstýring skilar miklum árangri

Hægt er að nýta tölvutæknina miklu betur en nú er gert til að ná þessum markmiðum.
Stórauka þarf öryggi óvarinna vegfarenda í Reykjavík með markvissri innleiðingu snjalltækni á sem flestum gangbrautarljósum. Í borginni er nú að langmestu leyti notast við ósveigjanlegt klukkukerfi, sem ekki er hægt að segja að byggist á snjalltækni. Hinn óvarði vegfarandi fær þannig ákveðið margar sekúndur til að komast yfir gangbrautina, alveg óháð hraða. Á meðan það tekur suma vegfarendur nokkrar sekúndur að komast yfir götuna, tekur það aðra miklu lengri tíma.

Ráðast þarf í snjallvæðingu gangbrautarljósa af krafti sem víðast í borginni eins og borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lagt til. Þannig væri hægt að sjá til þess að óvarðir vegfarendur fengju forgang og kæmust örugglega yfir gangbrautina en ættu það ekki undir ósveigjanlegri sekúnduklukku.

Snjallvædd gangbrautarljós eru með hreyfiskynjara, sem greina gangandi og hjólandi vegfarendur, sem nálgast viðkomandi gangbraut. Búnaðurinn veitir þeim forgang og virkjar öfluga götulýsingu, sem vekur athygli ökumanna á hinum óvarða vegfaranda. Það er t.d. hægt að gera með blikkandi ljósi á viðkomandi gangbraut og/eða ljósaskilti við hana. Gangbrautin er þannig sérstaklega upplýst á meðan farið er yfir hana til að vekja athygli ökumanna.

Snjallvæðing umferðarljósa hefur nú þegar sannað sig víða erlendis í því skyni að auka öryggi í umferðinni og þá ekki síst óvarinna vegfarenda. Slík fjárfesting borgar sig fljótt með fækkun slysa og greiðari umferð.

Úrbætur hafa tafist

Íbúar í nýjasta hluta Vogahverfis hafa margoft bent á að ekki hafi verið hugað nægilega að öruggum tengingum við aðra hluta hverfisins fyrir óvarða vegfarendur. Óviðunandi tafir hafa orðið á smíði göngubrúar yfir Sæbraut.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavík í febrúar 2023 var samþykkt að ráðast í breytingar á gatnamótum Sæbrautar og Kleppsmýrarvegar. Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykktum ekki breytingarnar, m.a. vegna þess að við töldum að ganga þyrfti lengra í þá átt að tryggja öryggi gangandi vegfarenda á gatnamótunum.

Í október 2023 lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að breytingarnar á umræddum gatnamótum yrðu endurskoðaðar þar sem þær hefðu gefið slæma raun. Gatnamótin önnuðu þá engan veginn mikilli umferð frá atvinnuhverfinu sunnan Sæbrautar né ört vaxandi íbúabyggð þar. Lögðum við m.a. til að öryggi skólabarna og annarra gangandi vegfarenda á leið yfir Sæbraut yrði aukið, t.d. með hnappastýrðu og/eða snjallstýrðu gangbrautarljósi.

Fulltrúar meirihlutans felldu tillöguna þrátt fyrir að hún fæli í sér að gripið yrði til víðtækari aðgerða í þágu umferðaröryggis óvarinna vegfarenda á gatnamótunum en þegar hafði verið gert.

Þessi tillöguflutningur Sjálfstæðisflokksins var rifjaður upp í fjölmiðlum í síðustu viku í kjölfar banaslyss sem varð á umræddum gatnamótum.

Í ljósi forsögu málsins, vekur furðu að formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur hafi kosið að stíga fram og saka borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um tvískinnung í þessu alvarlega máli.

Staðfesta í stað tvískinnungs

Hið rétta er að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokkskins hafa hvorki leikið tveim skjöldum í málinu né skipt um skoðun varðandi það. Við samþykktum ekki þær breytingar, sem ráðist var í á gatnamótunum á síðasta ári, m.a. vegna þess að við töldum að ganga þyrfti lengra í þágu umferðaröryggis óvarinna vegfarenda. Síðan lögðum við fram tillögu, sem fól beinlínis í sér að lengra yrði gengið í þessu skyni með snjallvæðingu gangbrautanna. Það er ljótur leikur að saka þá borgarfulltrúa um tvískinnung, sem vilja ganga lengra í umferðaröryggismálum, en meirihlutinn kýs að gera.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru enn þeirrar skoðunar að snjallvæða þurfi umrædd gatnamót til að auka umferðaröryggi þar og munu flytja sérstaka tillögu um það á næsta fundi borgarstjórnar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 12. október 2024.