Tryggjum frið og öryggi borgara í landinu
'}}

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Skipulögð brotastarfsemi á Íslandi hefur aukist gríðarlega undanfarin ár og samkvæmt greiningardeild ríkislögreglustjóra telst áhætta hennar vegna mjög mikil hér á landi. Brotastarfsemin hefur hreinlega grafið um sig í íslensku samfélagi og hér starfa glæpahópar sem tengjast ákveðnum þjóðarbrotum frá Mið-Austurlöndum og Suðaustur-Evrópu. Skipulögð brotastarfsemi ógnar öryggi íslensks samfélags. Alvarlegt ofbeldi í tengslum við skipulagða brotastarfsemi grefur markvisst undan öryggi í samfélögum og við höfum sannarlega ekki farið varhluta af þeirri þróun hér á landi.

Íslenskum ríkisborgararétti fylgja víðtæk réttindi og skyldur. Að sækja um og fá íslenskan ríkisborgararétt þarf að fela í sér skuldbindingu um að farið sé eftir meginreglum og gildum íslensks samfélags. Ísland hefur verið í fararbroddi í langflestum samanburði við önnur lönd, m.a. að vera eitt öruggasta land í heimi og með mesta kynjajafnrétti heims. Þeir útlendingar sem ógna slíkri stöðu eiga litla samleið með íslensku samfélagi.

Í fjölmörgum nágrannalöndum okkar er að finna heimildir til að svipta einstaklinga ríkisfangi þegar þeir hafa gerst brotlegir við tilteknar greinar hegningarlaga, einkum þær sem varða landráð, hryðjuverk og vernd æðstu stjórnar ríkisins. Sömuleiðis er að finna heimild til að afturkalla ákvörðun um veitingu ríkisfangs ef umsækjandi veitir rangar eða villandi upplýsingar um mikilvæg málsatvik þegar sótt er um ríkisfang.

Ég hef nú lagt fram frumvarp í meðflutningi fleiri þingmanna Sjálfstæðisflokksins um sviptingu ríkisfangs einstaklinga á þessum grunni. Annars vegar þegar umsækjandi um ríkisfang hefur gefið rangar upplýsingar eða leynt atriðum gegn betri vitund. Og hins vegar ef íslenskur ríkisborgari, sem öðlast hefur ríkisborgararétt samkvæmt lögum, gerist sekur um brot á ákvæðum almennra hegningarlaga sem varðað geta 16 ára fangelsi.

Finna má sambærileg ákvæði í löggjöf hinna Norðurlandaríkjanna. Það er óeðlileg niðurstaða að okkar mati að ríkisborgari sem veitir rangar eða villandi upplýsingar um mikilvæg málsatvik við umsókn haldi ríkisborgararétti sínum. Þá eru ákvæði er varða alvarleg brot þeirra sem hér hafa öðlast ríkisfang, sem eru mikilvæg til að stemma stigu við hátterni þeirra útlendinga sem hingað koma og ógna mikilvægum hagsmunum íslenska ríkisins eða fremja önnur mjög alvarleg afbrot. Þeir sem fremja slík afbrot hafa enda fyrirgert réttindum sem íslensk stjórnvöld hafa áður veitt.

Það er grunnskylda stjórnvalda að tryggja frið og öryggi borgara í landinu. Við teljum að með þessum skrefum stígum við, líkt og nágrannaþjóðir okkar, mikilvæg skref til þess.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. október 2024