Á yfirstandandi kjörtímabili hefur fjölmargt áunnist í orkumálum undir forystu Sjálfstæðisflokksins.
Með grænbók um stöðu í orkumálum var umræðunni um orkumál verulega breytt til hins betra. Grænbókin dró skýrt fram að tvöfalda þyrfti raforkuframleiðslu á Íslandi til að standa undir framtíðarvexti og orkuskiptum.
Fyrsta rammaáætlunin í níu ár
Alþingi samþykkti rammaáætlun í fyrsta sinn í níu ár. Með því voru 1.300 MW sett í nýtingarflokk rammaáætlunar. Aldrei fyrr hefur verkefnastjórn rammaáætlunar unnið jafn hratt. Fjórði áfangi rammaáætlunar er tilbúinn og liggur hjá ríkisstjórn. Í honum er gert ráð fyrir 260 MW til viðbótar í nýtingu. Þá er fimmti áfangi rammaáætlunar jafnframt í samráðsgátt nú þegar og er þar gert ráð fyrir 130 MW að auki í nýtingarflokk.
Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku og loftslagsráðherra kom í gegnum Alþingi lögum um aflaukningu eldri virkjana sem þýðir að stækkanir á virkjunum þurfa ekki lengur að fara í gegnum rammaáætlun. Vegna þessara nýju laga er nú áformað að stækka eldri virkjanir um 260 MW sem er rúmlega samanlagt afl Sigöldustöðvar og Vatnsfellstöðvar.
Jafnframt samþykkti Alþingi varmadælulögin sem auðvelda einstaklingum og fyrirtækjum að spara orku.
Fyrsta jarðhitaátak aldarinnar skilað árangri
Ráðist var í fyrsta jarðhitaleitarátak aldarinnar sem hefur þegar skilað árangri í öflun heits vatns m.a. á Ísafirði, Blönduósi, í Árborg, Patreksfirði, Skagafirði og Uppsveitum Árnessýslu. Þá var ráðist í umfangsmikla jarðhitaleit á Reykjanesi þar sem fundist hefur nægt heitt vatn til að halda öllum húsum á svæðinu frostfríum ef innviðir á Reykjanesi bresta. Boranir eru framundan á Ólafsfirði, Húsavík, Vopnafirði og í Skaftárhreppi.
Orkuveitan hefur tilkynnt um borun eftir heitu vatni á allt að 35 rannsóknar- og vatnstökuholum á næstu fjórum árum.
Gríðarleg fjárfesting framundan í raforkukerfinu
Landsnet ohf. hyggst nú fara í stærsta flutnings- og kerfisframkvæmdaátak sögunnar. Fjárfest verður fyrir 88 milljarða þar sem Suðurnesjalína 2, Blöndulína 2 og Holtavörðulína 1-3 eru í forgangi. Þá tókst jafnframt að tryggja öll tilskilin leyfi vegna framkvæmda við Suðurnesjalínu 2 sem lengi hafa staðið þrætur um.
Landsvirkjun hefur á árinu 2024 þegar boðið út verkefni fyrir 100 milljarða króna. Stærsta framkvæmdatímabil fyrirtækisins á eftir Kárahnjúkavirkjun er nú að hefjast.
Lagningu tveggja strengja til Vestmannaeyja hefur verið flýtt og staðfest.
Flutningskerfi raforku var styrkt með nýrri Hólasandslínu 3. Afhendingaröryggi raforku hefur aukist um 300-500 MW á síðustu árum.
Þá var kyrrstaða rofin milli sveitarfélagsins Ölfuss og Orkuveitunnar með samningi um aukna raforkuframleiðslu innan sveitarfélagsins.
Stofnunum fækkað og regluverk einfaldað
Stofnunum umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins hefur verið fækkað sem er grunnforsenda fyrir einföldun leyfisveitinga og stofnanir hafa verið færðar á landsbyggðina. Ráðuneytið hefur jafnframt unnið að mikilvægum einföldunarmálum vegna leyfisveitinga, frumvörp verið samþykkt á Alþingi og fleiri slík í burðarliðnum.
Skýrsla um gullhúðun á EES-frumvörpum var unnin í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu að beiðni Diljár Mistar Einardóttur þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Á haustiþingi 2024 verður lagt fram frumvarp um „afhúðun“ EES-laga.
Einfaldara og betra sjóðakerfi
Loftslags- og orkusjóður voru sameinaðir til að spara umsýslukostnað og efla skilvirkni styrkveitinga. Þá hefur orkusjóður verið margefldur á síðustu tveimur árum. Sjóðurinn styður við orkuskiptaverkefni sem eru að meirihluta fjármögnuð af einkaaðilum.
Orkusjóður hefur styrkt myndarlega við uppbyggingu hleðsluinnviða um land allt. Á næstu misserum verður hraðhleðslustöð á 100 km fresti um land allt.
Frumvarp sem heimilar fyrirtækjum og heimilum að selja raforku inn á kerfið verður lagt fram haustið 2024.
Frumvarp þar sem heimilum, litlum og meðalstórum fyrirtækjum verður veitt vernd fyrir verðsveiflum á raforkumarkaði verður lagt fram aftur á haustþingi 2024.
Unnið hefur verið frumvarp sem lagt verður fram á haustþingi 2024 þar sem stofnunum verður heimilað að innheimta gjald fyrir vinnslu á leyfum. Er það hluti af einföldun og aukinni skilvirkni leyfisveitingaferla.
Starfshópur skilaði tillögum um réttari hlut sveitarfélaga í tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga af orkumannvirkjum og eru tillögur hópsins nú þegar í vinnslu hjá ríkisstjórninni.
Gerður var tvíhliða samningur milli Íslands og Bandaríkjanna um samstarf í orkumálum sem skapar gríðarleg tækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf.
Stefna Sjálfstæðisflokksins skilar árangri
Undir forystu Sjálfstæðisflokksins í orkumálum á síðustu árum hefur náðst umtalsverður árangur sem mun bæta hag heimila og fyrirtækja og stórefla framboð raforku á Íslandi á næstu árum. Áralöng kyrrstaða hefur verið rofin og orkufyrirtæki hafa nú framtíðarsýn og bætt umhverfi til að vinna að nauðsynlegri orkuöflun. Vinna við rammaáætlanir hafa aldrei gengið betur og búið er að einfalda stjórnkerfi og leyfisveitingaferli til muna. Stórátak hefur verið gert í leit að heitu vatni til húshitunar, hið fyrsta á þessari öld, sem þegar hefur borið umtalsverðan árangur og styrkir byggð og búsetuskilyrði fólks víða um land.