Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lagt til að undirbúningi vegna endurgerðar gatnamóta Reykjanesbrautar og Bústaðavegar verði hraðað í því skyni að auka þar umferðaröryggi, bæta umferðarflæði og draga úr mengun. Með flýtingunni verði stefnt að því að framkvæmdum verði lokið við gatnamótin árið 2026 í stað 2030 eins og nú er miðað við samkvæmt uppfærslu svonefnds samgöngusáttmála.
Tillaga Sjálfstæðisflokksins um málið var tekin fyrir í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur í síðustu viku en vísað frá af fulltrúum meirihluta Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar. Frávísunin er í samræmi við þá stefnu meirihlutans að tefja fyrir samgöngubótum í borginni eins og kostur er og koma jafnvel í veg fyrir þær.
Pólitísk þrákelkni
Óviðunandi ástand ríkir í umferðarmálum Reykjavíkur vegna langvarandi vanrækslu við uppbyggingu samgöngumannvirkja. Endurgerð umræddra gatnamóta er eitt margra dæma um brýna samgönguframkvæmd, sem frestað hefur verið áratugum saman vegna pólitískrar þrákelkni.
Einhverjar mestu umferðartafir í Reykjavík verða við gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegar. Gatnamótin eru jafnframt þriðju hættulegustu gatnamót landsins en þar urðu 102 óhöpp, þar af fjórtán slys með meiðslum, á árunum 2019-2023 samkvæmt upplýsingum Samgöngustofu.
Vegagerðin hefur lengi talið að brýn þörf sé á mislægri lausn við þessi gatnamót. Tafir síðdegis eru mjög miklar og hætta á óhöppum og slysum því mun meiri en ella. Tafirnar bitna hvað verst á íbúum Breiðholts eins og íbúasamtök þar hafa ítrekað bent á.
Áratugir eru síðan undirbúningur hófst vegna endurgerðar gatnamóta Reykjanesbrautar og Bústaðavegar. Mislæg lausn var þar lengi á skipulagi og unnið að málinu í samvinnu Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar. Tímamót urðu í málinu árið 2011 þegar þáverandi vinstri meirihluti í borgarstjórn samdi við þáverandi vinstri stjórn Samfylkingar og VG um að stöðva allar meiri háttar samgöngubætur á stofnbrautum í Reykjavík í heilan áratug. Þessari stöðvun var fylgt eftir með því að fella öll áform um mislæg gatnamót af aðalskipulagi, þar á meðal þessi.
Ástæðulausar tafir
Margir vonuðu að þessi kyrrstaða hefði verið rofin með svonefndum samgöngusáttmála ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu árið 2019. Í sáttmálanum voru gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegar sett í sérstakan forgang og kveðið á um að endurgerð þeirra skyldi ljúka árið 2021. Hún hefur þó ekki enn orðið að veruleika vegna andstöðu vinstri meirihlutans í borgarstjórn.
Með nýuppfærðum ,,samgöngusáttmála“ á að tefja verkið enn frekar en samkvæmt honum mun því ekki ljúka fyrr en árið 2030. Slík töf er ástæðulaus og til mikillar óþurftar þar sem hún framlengir óviðunandi ástand á þessum gatnamótum um mörg ár til viðbótar.
Miklar framfarir hafa orðið í hönnun mislægra gatnamóta á undanförnum áratugum. Víða í Evrópu má finna slík mannvirki, sem lítið fer fyrir á yfirborði, þar sem þau eru að mestu niðurgrafin og gjarnan í stuttum stokkum. Þau gegna samt því hlutverki vel að auka umferðaröryggi, greiða fyrir umferð og draga úr mengun.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa einnig lagt til að skoðað verði í samráði við Vegagerðina að loka vinstri beygjum á álagstímum til reynslu, inn á og út af Reykjanesbraut við Bústaðaveg, fyrir almennri bílaumferð, að strætisvögnum undanskildum. Þeirri tillögu hefur verið vísað til skoðunar í borgarkerfinu.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. október 2024.