Umhverfisvernd eða ofurþétting í Grafarvogi?
'}}

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Frá árinu 2021 hefur verið unnið að tillögu um friðlýsingu Grafarvogs í samvinnu Reykjavíkurborgar og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Markmið friðlýsingarinnar er að vernda mikilvægar fjöruvistgerðir og búsvæði fugla. Grafarvogur er vinsælt útivistarsvæði og fá svæði eru eins aðgengileg fyrir fuglaskoðun og aðra náttúruupplifun.

Friðlýsingin er afar stórt skipulagsmál, sem varðar fjölmarga íbúa í austurhluta borgarinnar. Stærsta álitaefnið er hversu stórt svæði skuli friðlýsa.

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra hefur lagt til að verndarmörkin fylgi göngustíg við norðanverðan Grafarvog en að það nái jafnframt inn á skógræktarsvæðið við Funaborg. Þaðan fylgi mörkin göngustíg í átt að Stórhöfða og síðan lóðamörkum til og með Stórhöfða 45. Þaðan liggi mörkin með Stórhöfða að Grafarlæk, meðfram læknum (50-100 metra) og síðan með göngustíg.

Lífríki Grafarvogs

Tillaga ráðuneytisins um að víkka mörkin upp að göngustíg, sem liggur í kringum voginn er skynsamleg að því er fram kemur í umsögn Náttúrufræðistofnunar um málið. Að mati stofnunarinnar er Grafarlækur mikilvægur fyrir lífríki Grafarvogs því hann er stærsta inntak ferskvatns í voginn og skapar þar aðstæður, sem eru mikilvægar fyrir lífríki, ekki síst fuglalíf. Með slíkri útvíkkun svæðisins mun það ná yfir jökulmenjar og menningarminjar í innanverðinum Grafarvogi, sem eykur gildi þess í þágu fræðslu og útivistar.

Erindi ráðuneytisins var tekið fyrir í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur í desember sl. Þar samþykktu fulltrúar Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata, Viðreisnar og VG að leggjast gegn tillögu ráðuneytisins um verndarmörk friðlýsingarsvæðisins. Vilja þeir að verndarsvæðið sé mun minna en ráðuneytið leggur til og að mörkin fylgi einungis flæðarmálinu.

Tillaga um íbúasamráð felld

Við afgreiðslu málsins í umhverfis- og skipulagsráði lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að tillaga ráðuneytisins um útvíkkun verndarmarkanna yrði kynnt fyrir Íbúaráði Grafarvogs og Íbúasamtökum Grafarvogs. Yrði þessum aðilum þannig gefinn kostur á að skila umsögn um málið áður en ráðið tæki endanlega afstöðu til þess. Samráðstillögunni var hins vegar umsvifalaust hafnað af fulltrúum meirihlutans. Segir það sína sögu um afstöðu vinstri meirihlutans til íbúasamráðs að hann hafi ekki viljað kalla fram álit íbúa til þessu stóra skipulagsmáli, sem snertir alla Grafarvogsbúa og þó víðar væri leitað.

Í kjölfar þessarar afgreiðslu var málið þó tekið upp í Íbúaráði Grafarvogs. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Íbúasamtaka Grafarvogs og foreldrafélaga í Grafarvogi lögðu til að íbúaráðið styddi tillögu ráðuneytisins um stækkun verndarsvæðisins. Tillagan var samþykkt á fundi ráðsins í júní og hlaut þar stuðning allra viðstaddra nema fulltrúa Framsóknarflokksins, sem sat hjá.

Málinu skotið til borgarstjórnar

Auk skýrrar afstöðu íbúaráðsins og Íbúasamtaka Grafarvogs hafa fjölmargir íbúar í hverfinu tjáð sig um málið og er ljóst að yfirgnæfandi meirihluti þeirra styður tillögu ráðherra um útvíkkun verndarsvæðisins. Það er því rík ástæða til að Reykjavíkurborg endurskoði verndarmörkin og útvíkki þau í samræmi við almennan vilja Grafarvogsbúa.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa nú lagt tillögu um málið fyrir borgarstjórn. Hún felur í sér að borgarstjórn fallist á tillögu umhverfisráðherra um mörk hins friðlýsta svæðis þannig að verndarmörkin verði eins og lýst er hér að ofan. Ljóst er að mikil ánægja yrði með slíka samþykkt meðal íbúa í Grafarvogi og aðliggjandi hverfa, sem þekkja svæðið og vilja njóta þess áfram. Slík samþykkt er ekki síst aðkallandi í ljósi þess að nú stendur yfir skipulagsvinna vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar í Keldnalandi. Með samþykkt tillögunnar gæfi borgarstjórn skýr skilaboð um að umhverfisvernd verði höfð að leiðarljósi við skipulag svæðisins í stað ofurþéttingar byggðar.

Greinin birtistí Morgunblaðinu 1. október 2024.