Diljá Mist Einarsdóttir formaður utanríkismálanefndar Alþingis:
Ýmsir kirkjunnar þjónar stíga reglulega inn í umræðuna um málefni líðandi stundar. Fólk hefur jafnvel þurft að sitja undir pólitískum áróðri í sunnudagsmessum. Fólk sem sækir kirkjur til að iðka trú sína á heilögum stað og á að njóta til þess þjónustu sömu þjóna. Ég er þeirrar skoðunar að prestar og aðrir fyrirsvarsmenn kirkjunnar eigi að forðast að stíga inn í pólitísk deilumál og þrætur og taka afstöðu í þeim. Slíkt er enda til þess fallið að skapa sundrung meðal fylgismanna kirkjunnar og fjarlægð frá þeim sem deila ekki skoðunum eða sýn með viðkomandi. Auk þess bendi ég á að kirkjan hefur í nógu að snúast að bera út boðskap kristninnar og þar er af nógu að taka; heilar 1.500 blaðsíður og þúsundir versa.
Og talandi um boðskap kristninnar og hlutverk kirkjunnar. Nú styttist í aðventuna – biðina eftir jólunum – og við jólabörn erum löngu farin að telja niður. Við eigum auðvitað ævaforna sögu hér af jólum, tengda vetrarsólstöðum, en síðar féllu þau að fæðingarhátíð Jesú Krists. Jól eru því rótgróin í íslenskri menningu, menningu sem hefur mótast að mestu leyti af kristinni trú.
Boðskapur kristinnar trúar eru grunngildi samfélags okkar: kærleikur, fyrirgefning, miskunnsemi og mannvirðing. Þetta eru gildi og boðskapur sem eiga sannarlega erindi í íslensku samfélagi um þessar mundir. Ef kirkjunnar þjóna vantar innblástur, gætu þeir rifjað upp guðspjöllin og fjölmargar dæmisögur Biblíunnar til þess að koma erindinu á framfæri.
Á svipuðum nótum langar mig til að hvetja þjóðkirkjuna til að galopna aftur dyr sínar fyrir jólaheimsóknum barna á skólatíma. Heimsóknum sem er rík hefð fyrir og við höfum hér flest fengið að njóta gegnum árin. Sannarlega hafa ekki allar sóknir hagað störfum sínum með þeim hætti að aflýsa heimsóknum, en skilaboð þeirra sem það hafa gert þykja mér miður.
Einhverjum hefur þótt kirkjan vera að valda deilum eða togstreitu með því að bjóða íslenskum skólabörnum í heimsókn samkvæmt langri og fallegri hefð. Það er auðvitað fráleit eftirgjöf gagnvart óumburðarlyndi örfárra. Auk þess er það þá í það minnsta verðugra verkefni og samrýmist betur verkefnum kirkjunnar en pólitísk þrætuepli hverju sinni.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. september 2024.