Berglind Ósk Guðmundsdóttir alþingismaður:
Við Íslendingar eigum afreksfólk í blönduðum bardagaíþróttum og hnefaleikum sem ekki er heimilt að keppa í sínu sporti hérlendis. Landsþekktur er MMA-kappinn Gunnar Nelson, sem hefur náð framúrskarandi árangri á heimsvísu, en honum er ekki heimilt að keppa í heimalandi sínu.
Óumdeilt er að grundvallarmunur er á bardagaíþróttum og öðrum tegundum íþrótta, enda hafa hnefaleikar og blandaðar bardagaíþróttir þann tilgang og markmið að keppendur veiti hver öðrum högg eða spörk og meðal annars í höfuð. En iðkendum er auðvitað fullljóst hverjar hætturnar eru og vert er að nefna að aðrar íþróttir eru auðvitað ekki með öllu hættulausar.
Gömul viðhorf enn í lögum
Fortakslaust bann er við atvinnumennsku í þessum íþróttagreinum.
Með lögum nr. 92/1956 voru hnefaleikar bannaðir og varðar brot gegn ákvæðum laganna sektum. Með lögum nr. 9/2002 voru áhugamannahnefaleikar heimilaðir og hefur sportið því vaxið ár frá ári. Hundruð barna og ungmenna æfa hnefaleika og blandaðar bardagaíþróttir og vitað er hversu mikilvægt það er að hafa fyrirmyndir í íþrótt sinni til að setja markið hátt.
Skerðing á atvinnufrelsi
Jafnframt ber að hafa í huga að í banni við bardagaíþróttum felst einnig skerðing á atvinnufrelsi fólks sem nýtur verndar 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar og óheimilt er að takmarka það frelsi með lögum nema almannahagsmunir krefjist þess. Í ljósi þess að flest vestræn ríki heimila bardagaíþróttir, m.a. Danmörk og Svíþjóð, er vandséð að almannahagsmunir á Íslandi krefjist þess að þær séu bannaðar á meðan slíkir almannahagsmunir virðast almennt ekki fyrirfinnast í öðrum ríkjum. Nú er það svo að við erum samanburðarhæf við ríki eins og Norður-Kóreu og Íran með þessu fortakslausa banni.
Í fyrirspurnatíma á Alþingi vorið 2023 hvatti ég ráðherra til að ganga í málið og hef ég í þrígang lagt fram frumvarp á þinginu byggt á norrænni fyrirmynd um löggjöf um bardagaíþróttir. Miðar lögleiðingin fyrst og fremst að því að tryggja öryggi keppenda og að heimila okkar frábæra afreksíþróttafólki að keppa í íþróttagrein sinni hérlendis. Það er löngu tímabært að skrefið verði tekið.
Hvað stoppar breytingar?
Nú hafa vinir okkar í Framsóknarflokknum einnig lagt fram sambærilegt frumvarp, sem gengur þó skemmra, það tekur ekki á öryggi keppenda og heldur enn afreksíþróttafólki í öðrum bardagaíþróttum, eins og MMA, utan laganna. Það sem er þó áhugaverðast við frumvarp þeirra er að ráðherra íþróttamála er einmitt í þeirra flokki. Hvað ætli sé að stoppa löngu tímabærar breytingar?
Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. september 2024.