Borgarstjóranum Einari Þorsteinssyni svelgdist að líkindum á morgunkaffinu í vikunni þegar nýleg talning Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar leiddi í ljós að nú eru aðeins 877 íbúðir á framkvæmdastigi í Reykjavík. Íbúðum í byggingu hérlendis fækkar um 16,8% þrátt fyrir vaxandi húsnæðisþörf. Staðan er alvarleg.
30% árangur
Í liðnum kosningum lofaði Einar kjósendum sínum uppbyggingu 3.000 íbúða árlega í Reykjavík. Rauntölur HMS sýna að hann nær einungis 30% af markmiði sínu. Ekkert bendir til þess að árangur hans muni fara batnandi það sem eftir lifir kjörtímabils – enda kannski ekki við öðru að búast þegar menn stökkva beint úr spyrilsstólnum í Efstaleiti í borgarstjórastólinn við Tjarnargötu.
Auðvitað eru ytri aðstæður borgarstjóranum mótdregnar eins og öðrum. Vaxtastig og verðbólga reynast vissulega enginn liðsauki en lóðaskortur borgarinnar hefur jafnframt töluverð áhrif.
Útvíkkum vaxtarmörkin
Meirihlutinn í Reykjavík hefur sýnt fádæma þröngsýni hvað varðar vaxtarmörk höfuðborgarsvæðisins. Ríflegur áratugur er liðinn frá þeirri vinnu sem skilgreining vaxtarmarkanna byggir á. Frá þeim tíma hafa forsendur gjörbreyst, mannfjöldinn hefur aukist langt umfram spár og húsnæðisþarfir fjölskyldna breytast í sífellu. Nú er ljóst að skilgreind uppbyggingarsvæði munu ekki nægja svo að standa megi undir fyrirliggjandi húsnæðisþörf.
Húsnæðisstefna Reykjavíkurborgar er hrunin. Þó að mikilvægt sé að þétta byggð mun þéttingarstefnan aldrei nægja svo að byggja megi nægt húsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Við þurfum að brjóta nýtt land, útvíkka vaxtarmörkin og horfa enn lengra til framtíðar. Það er skylda okkar gagnvart fólkinu í landinu.
Við sjálfstæðismenn teljum nauðsynlegt að vaxa meira og ráðast í kröftuga húsnæðisuppbyggingu um alla borg. Við viljum skipuleggja ný hverfi samhliða því að þétta byggð innan hverfa sem hafa til þess svigrúm, í sátt við íbúa og umhverfi. Við viljum einfalda stjórnsýsluna, stytta afgreiðslufresti og skapa umhverfi sem er vinveitt hvers kyns framtaki. Við viljum endurskoða aðalskipulag og tryggja fjölbreytt lóðaframboð – því þótt borgin beri ekki ein ábyrgð á húsnæðisvandanum getur hún sannarlega lagt sitt af mörkum.
Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. september 2024.

