Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:
Það er komin óþreyja í marga hægrimenn á Íslandi. Sumum finnst Sjálfstæðisflokkurinn ekki tala máli þeirra, öðrum þykir flokkurinn of kerfislegur. Svo eru þeir sem eru á því að þær málamiðlanir sem hafa verið gerðar í ríkisstjórn séu of margar og of dýrkeyptar – og einhverjir telja þetta allt eiga við.
Sumir telja vænlegast fyrir hægrimenn á Íslandi að bjóða fram undir öðrum merkjum eða með öðrum flokkum en Sjálfstæðisflokknum. Sama fólk kallar eftir því að slíkt framboð leiði einstaklingar sem hafi „gert eitthvað“ og séu með reynslu utan stjórnmálanna.
Það er ákall um breytingar. Hvert og eitt okkar sem höfum valist til trúnaðarstarfa fyrir Sjálfstæðisflokkinn verður að íhuga stöðu sína. Ég er engin undantekning þar á.
Ég var mjög ung þegar ég fór í gegnum mjög erfiða og persónulega reynslu sem leiddi til þess að málefni samfélagsins fönguðu hug minn allan. Ég skammast mín ekki fyrir það. Þessi reynsla hefur ekki bara verið ómetanleg fyrir mig til að skilja stjórnmál og stjórnsýslu heldur hefur hún veitt mér dýpri skilning á öllum krókum og kimum samfélagsins. Gert mig næmari fyrir ólíkum aðstæðum fólks.
Í þau átta ár sem ég hef setið á þingi og síðar í ríkisstjórn hef ég tekið þátt í ákvörðunum sem varða hundruð milljarða – alltaf með það fyrir augum að sjá og finna út úr því hvernig hægt er að nýta skattpeninga betur. Ég hef orðið fyrir hráka einstaklings sem ég mætti á gangstétt og hatrið skein úr augnaráðinu. Ég hef yfirgefið veitingastað vegna konu sem veittist svo harkalega að mér að ég óttaðist um öryggi mitt. Ég hef brotnað saman þegar lygar um persónu mína fara á flug. Ég hef myndað bandalög þvert á hugmyndafræðilega sannfæringu til að ná fram einhverjum árangri í þágu þeirra hugmynda sem ég trúi á. Þrátt fyrir málamiðlanir hef ég þó aldrei misst sjónar á þeim hugsjónum sem eru drifkraftur minn í stjórnmálum.
Forstjórar og stjórnendur fyrirtækja axla mikla ábyrgð, fyrst og síðast gagnvart hluthöfum en einnig starfsmönnum. Við sem höfum valið stjórnmál sem starfsvettvang þurfum að standa reikningsskil gagnvart hverjum og einum borgara allan sólarhringinn, allan ársins hring. Hvert einasta barn, unglingur, foreldri og eldri borgari getur kallað okkur til ábyrgðar vegna verka okkar eða athafnaleysis. Í hvert sinn sem eitthvað fer úrskeiðis skynjum við þunga ábyrgð okkar. Þegar árangur næst og líf almennings verður betra erum við minnt á það hvers vegna við ákváðum að fara í stjórnmál.
Burðarás í íslenskum stjórnmálum
Ég vil sjá breytingar á Sjálfstæðisflokknum þar sem byggt er á traustum grunni um frelsi einstaklingsins. Við þurfum að fylgja eftir hugsjónum okkar um frjáls viðskipti, lægri skatta, einstaklingsfrelsi og minna ríkisvald – en allt eru þetta þættir sem núverandi og fyrrverandi stuðningsmenn flokksins kalla eftir. Við þurfum að vera óhrædd við að ráðast í kerfisbreytingar, ekki breytinganna vegna heldur til að bæta líf einstaklinga og starfsemi fyrirtækja – gera lífið einfaldara og lífskjör allra betri. Ég er stolt af þeim breytingum sem ég hef ráðist í á stjórnkerfinu, háskólum, útlendingamálum, heilbrigðismálum og nýsköpun svo fátt eitt sé nefnt en verkefninu er þó hvergi nær lokið.
Innan Sjálfstæðisflokksins hefur alltaf verið rými fyrir alls konar fólk. Fólk með reynslu úr öllum áttum, ekki síst úr atvinnulífinu. Nú er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að þeir einstaklingar leggi flokknum lið með því að bjóða sig fram fyrir næstu þingkosningar. Mikilvægt er að forystufólk flokksins komi úr öllum áttum – líka úr pólitík – enda hefur flokkurinn ekki síður þörf fyrir fólk sem hefur valið að helga líf sitt samfélaginu og flokksstarfinu af heilum hug, jafnt í meðbyr sem í mótvindi.
Við eigum að gera betur. Við sem látum okkur annt um framtíð flokksins eigum að taka höndum saman í þágu þeirra hugsjóna sem sameina okkur. Ég brenn fyrir sameiginlegu verkefni okkar; að gera Sjálfstæðisflokkinn aftur að þeim burðarási í íslenskum stjórnmálum sem hann á að vera og verður að vera. Þannig náum við árangri fyrir Ísland.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 26. september 2024.