Við þurfum breytingar – ekki nýja kennitölu
'}}

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Það er kom­in óþreyja í marga hægri­menn á Íslandi. Sum­um finnst Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn ekki tala máli þeirra, öðrum þykir flokk­ur­inn of kerf­is­leg­ur. Svo eru þeir sem eru á því að þær mála­miðlan­ir sem hafa verið gerðar í rík­is­stjórn séu of marg­ar og of dýr­keypt­ar – og ein­hverj­ir telja þetta allt eiga við.

Sum­ir telja væn­leg­ast fyr­ir hægri­menn á Íslandi að bjóða fram und­ir öðrum merkj­um eða með öðrum flokk­um en Sjálf­stæðis­flokkn­um. Sama fólk kall­ar eft­ir því að slíkt fram­boð leiði ein­stak­ling­ar sem hafi „gert eitt­hvað“ og séu með reynslu utan stjórn­mál­anna.

Það er ákall um breyt­ing­ar. Hvert og eitt okk­ar sem höf­um val­ist til trúnaðarstarfa fyr­ir Sjálf­stæðis­flokk­inn verður að íhuga stöðu sína. Ég er eng­in und­an­tekn­ing þar á.

Ég var mjög ung þegar ég fór í gegn­um mjög erfiða og per­sónu­lega reynslu sem leiddi til þess að mál­efni sam­fé­lags­ins fönguðu hug minn all­an. Ég skamm­ast mín ekki fyr­ir það. Þessi reynsla hef­ur ekki bara verið ómet­an­leg fyr­ir mig til að skilja stjórn­mál og stjórn­sýslu held­ur hef­ur hún veitt mér dýpri skiln­ing á öll­um krók­um og kim­um sam­fé­lags­ins. Gert mig næm­ari fyr­ir ólík­um aðstæðum fólks.

Í þau átta ár sem ég hef setið á þingi og síðar í rík­is­stjórn hef ég tekið þátt í ákvörðunum sem varða hundruð millj­arða – alltaf með það fyr­ir aug­um að sjá og finna út úr því hvernig hægt er að nýta skatt­pen­inga bet­ur. Ég hef orðið fyr­ir hráka ein­stak­lings sem ég mætti á gang­stétt og hatrið skein úr augnaráðinu. Ég hef yf­ir­gefið veit­ingastað vegna konu sem veitt­ist svo harka­lega að mér að ég óttaðist um ör­yggi mitt. Ég hef brotnað sam­an þegar lyg­ar um per­sónu mína fara á flug. Ég hef myndað banda­lög þvert á hug­mynda­fræðilega sann­fær­ingu til að ná fram ein­hverj­um ár­angri í þágu þeirra hug­mynda sem ég trúi á. Þrátt fyr­ir mála­miðlan­ir hef ég þó aldrei misst sjón­ar á þeim hug­sjón­um sem eru drif­kraft­ur minn í stjórn­mál­um.

For­stjór­ar og stjórn­end­ur fyr­ir­tækja axla mikla ábyrgð, fyrst og síðast gagn­vart hlut­höf­um en einnig starfs­mönn­um. Við sem höf­um valið stjórn­mál sem starfs­vett­vang þurf­um að standa reikn­ings­skil gagn­vart hverj­um og ein­um borg­ara all­an sól­ar­hring­inn, all­an árs­ins hring. Hvert ein­asta barn, ung­ling­ur, for­eldri og eldri borg­ari get­ur kallað okk­ur til ábyrgðar vegna verka okk­ar eða at­hafna­leys­is. Í hvert sinn sem eitt­hvað fer úr­skeiðis skynj­um við þunga ábyrgð okk­ar. Þegar ár­ang­ur næst og líf al­menn­ings verður betra erum við minnt á það hvers vegna við ákváðum að fara í stjórn­mál.

Burðarás í ís­lensk­um stjórn­mál­um

Ég vil sjá breyt­ing­ar á Sjálf­stæðis­flokkn­um þar sem byggt er á traust­um grunni um frelsi ein­stak­lings­ins. Við þurf­um að fylgja eft­ir hug­sjón­um okk­ar um frjáls viðskipti, lægri skatta, ein­stak­lings­frelsi og minna rík­is­vald – en allt eru þetta þætt­ir sem nú­ver­andi og fyrr­ver­andi stuðnings­menn flokks­ins kalla eft­ir. Við þurf­um að vera óhrædd við að ráðast í kerf­is­breyt­ing­ar, ekki breyt­ing­anna vegna held­ur til að bæta líf ein­stak­linga og starf­semi fyr­ir­tækja – gera lífið ein­fald­ara og lífs­kjör allra betri. Ég er stolt af þeim breyt­ing­um sem ég hef ráðist í á stjórn­kerf­inu, há­skól­um, út­lend­inga­mál­um, heil­brigðismál­um og ný­sköp­un svo fátt eitt sé nefnt en verk­efn­inu er þó hvergi nær lokið.

Inn­an Sjálf­stæðis­flokks­ins hef­ur alltaf verið rými fyr­ir alls kon­ar fólk. Fólk með reynslu úr öll­um átt­um, ekki síst úr at­vinnu­líf­inu. Nú er mik­il­væg­ara en nokkru sinni fyrr að þeir ein­stak­ling­ar leggi flokkn­um lið með því að bjóða sig fram fyr­ir næstu þing­kosn­ing­ar. Mik­il­vægt er að for­ystu­fólk flokks­ins komi úr öll­um átt­um – líka úr póli­tík – enda hef­ur flokk­ur­inn ekki síður þörf fyr­ir fólk sem hef­ur valið að helga líf sitt sam­fé­lag­inu og flokks­starf­inu af heil­um hug, jafnt í meðbyr sem í mótvindi.

Við eig­um að gera bet­ur. Við sem lát­um okk­ur annt um framtíð flokks­ins eig­um að taka hönd­um sam­an í þágu þeirra hug­sjóna sem sam­eina okk­ur. Ég brenn fyr­ir sam­eig­in­legu verk­efni okk­ar; að gera Sjálf­stæðis­flokk­inn aft­ur að þeim burðarási í ís­lensk­um stjórn­mál­um sem hann á að vera og verður að vera. Þannig náum við ár­angri fyr­ir Ísland.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 26. september 2024.