Fáum við fleiri bragga?
'}}

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Mörg mannvirki Reykjavíkurborgar eru of dýr, bæði í byggingu og rekstri. Á sama tíma hefur viðhald flestra skóla borgarinnar verið vanrækt. Samkvæmt skýrslu frá árinu 2023 er þörf á meiri háttar viðhaldi í 83% af skóla- og frístundabyggingum borgarinnar eða 113 af 136. Þá var talið að uppsöfnuð viðhaldsskuld þessara bygginga næmi um þrjátíu milljörðum króna.

Tölurnar bera vitni um kolranga forgangsröðun í viðhalds- og byggingarmálum. Viðhald er vanrækt á meðan áhersla er lögð á dýrar nýbyggingar sem borgarstjóra finnst gaman að vígja.

Verðlaunasamkeppni virðist tíðum hafa þær afleiðingar að kostnaður við smíði og rekstur opinberra bygginga hleypur upp úr öllu valdi. Oft virðast arkitektar líta á slík verkefni sem tækifæri til að reisa sjálfum sér framúrstefnulegt minnismerki. Hagkvæmni skipti þá ekki máli, hvorki byggingarkostnaður hússins né rekstrarkostnaður þess til framtíðar.

Til þess eru vítin að varast þau

Bragginn í Nauthólsvík og Brákarborg við Kleppsveg hafa afhjúpað mikla veikleika í stjórnun Reykjavíkurborgar og algeran skort á eðlilegu kostnaðaraðhaldi. Áætlaður kostnaður margfaldaðist og mörg hundruð milljónum var sóað.

Bruðlinu virðist ekki ætla að linna miðað við ýmsar byggingar, sem eru á teikniborðinu. Sú spurning vaknar hvort vinstri meirihlutinn í borgarstjórn hafi ekkert lært af mistökum undanfarinna ára.

Bygging undir tjaldi

Fyrst skal nefndur fyrirhugaður Miðborgarleikskóli við Njálsgötu. Ljóst er að sú bygging verður mjög dýr miðað við fyrirliggjandi teikningar og líklega einnig óhentug. Flestir hljóta t.d. að sjá að tveggja hæða leikvöllur með háum steinsteyptum tröppum á milli, hentar ekki leikskólastarfsemi.

Ýtarleg útboðslýsing virðist hreinlega hafa það markmið að hleypa kostnaði við verkefnið upp úr öllu valdi. Krafa er t.d. gerð um að á framkvæmdatíma reisi verktaki sérstaka tjaldyfirbyggingu yfir alla bygginguna, sem halda skuli bæði úrkomu og vindum. Tjaldið á að vera í yfirstærð svo hægt sé að vinna við einstaka byggingarhluta utan frá en jafnframt eiga hífingar að fara fram með byggingarkrana innan tjaldsins. Til að kóróna vitleysuna er gerð krafa um að tjaldið sé klætt með hvítu segli svo Reykjavíkurborg geti varpað myndum á það á verktímanum.

Þar sem Miðborgarleikskólinn á að vera tólf metrar á hæð þarf tjaldið líklega að vera tæplega tuttugu metra hátt til að hægt sé að hífa undir því. Ljóst er að slík tjaldyfirbygging verður mikil áskorun fyrir verktakann vegna veðurs og mun auk þess hækka verulega kostnað við framkvæmdina. Veit ég ekki til þess að slíkt tjald hafi áður verið reist yfir skóla í byggingu hérlendis.

Ekkert tilboð barst þegar bygging Miðborgarleikskólans var fyrst boðin út sumarið 2022. Veit ég um verktaka sem hættu við að bjóða í verkið þar sem þeir töldu of mikla áhættu felast í ýmsum sérkröfum, sem gerðar voru í útboðslýsingunni.

Útboðið var endurtekið um haustið og barst þá eitt tilboð sem var um 2,8 milljarðar króna að núvirði, eða 72% yfir kostnaðaráætlun. Tilboðinu var ekki tekið en ljóst er að umrædd leikskólabygging verður mjög dýr ef haldið verður áfram með verkið án þess að útboðslýsingu verði breytt til sparnaðar.

Svipað má segja um verðlaunatillögu vegna Skólabrúar, fyrirhugaðrar skólabyggingar á Fleyvangi í Vogabyggð, sem Einar Þorsteinsson borgarstjóri kynnti nýlega. Miðað við teikningar verður sú bygging framúrstefnuleg og líklega einnig mjög dýr í byggingu og rekstri.

Kostnaðarflipp í Grófinni

Innan borgarkerfisins er unnið af kappi að svokallaðri umbreytingu Grófarhúss í samræmi við vinningstillögu úr hönnunarsamkeppni. Grófarhús þjónar hlutverki sínu vel og er því ekki brýn þörf á umbreytingu hússins eins og vinstri meirihlutinn stefnir að. Ljóst er að framkvæmdin felur í sér mikla kostnaðaráhættu og verður varla undir tíu milljörðum króna. Furðu sætir að slíkt kostnaðarflipp sé sett í forgang á meðan margar aðrar byggingar borgarinnar liggja undir skemmdum vegna vanrækslu.

Fokdýr Fossvogsbrú

Fossvogsbrú er enn eitt mannvirkið þar sem áhersla er lögð á hönnun fremur en hagkvæmni og notagildi. Þar hafa kostnaðaráætlanir margfaldast þótt sjálf brúarsmíðin sé ekki hafin. Í upphafi átti kostnaðurinn að vera í kringum milljarð króna en miðað við nýjustu teikningar er ólíklegt að hann verði undir tíu milljörðum.

Stjórnmálamenn, sem læra ekki af mistökum fortíðar, eru dæmdir til að endurtaka þau. Of mörg dæmi eru um fordild og prjál í opinberum byggingum, sem reynast skattgreiðendum dýr. Vel er hægt að hafa slíkar byggingar vandaðar og notadrjúgar en jafnframt hagkvæmar í rekstri.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 26. september 2024.