Teitur Björn Einarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins:
Undanfarna áratugi hafa árlegar launahækkanir og verðbólga hér á landi verið meiri en annars staðar á Norðurlöndum og vaxtastig hærra. Það er löngu tímabært að allir aðilar hagstjórnar og vinnumarkaðar dragi lærdóm af dýrkeyptri og síendurtekinni reynslu sem fylgir því að hækka laun umfram getu atvinnulífsins. Afleiðingin er aukin verðbólga, hærri vextir og skert samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja á alþjóðlegum mörkuðum. Það er því afar brýnt að samstaða náist um breytt vinnubrögð við gerð kjarasamninga.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er því lofað að efla embætti ríkissáttasemjara, m.a. í þeim tilgangi að auka fyrirsjáanleika og bæta verklag við gerð kjarasamninga. Þrátt fyrir þau fögru fyrirheit er raunin sú að embætti ríkissáttasemjara er mun veikara í dag en ætla mætti.
Eina raunverulega valdheimild ríkissáttasemjara samkvæmt lögum er framlagning miðlunartillögu til lausnar vinnudeilu, sem aðilum vinnumarkaðsins er skylt að bera undir félagsmenn sína í atkvæðagreiðslu. Frá því að embætti ríkissáttasemjara var stofnað árið 1980 hafa á fjórða tug miðlunartillagna verið lagðar fram og einungis ein slík verið felld í atkvæðagreiðslu það sem af er öldinni.
Snemma árs 2023 kom hins vegar í ljós að miðlunartillögur embættisins eru í reynd bitlaust verkfæri. Verkfæri sem aðilar vinnumarkaðarins geta hunsað að vild með því að neita að framkvæma atkvæðagreiðslu um tillöguna, líkt og stéttarfélagið Efling gerði með eftirminnilegum hætti í deilu sinni við Samtök atvinnulífsins.
Allir sem til þekkja eru sammála um að staðan eins og hún er í dag – að aðilar vinnumarkaðarins geti vanrækt lögbundnar skyldur sínar án nokkurra afleiðinga – sé óboðleg og gera þurfi bragarbót á. Þrátt fyrir hina augljósu ágalla á vinnumarkaðslöggjöfinni hefur félags- og vinnumarkaðsráðherra ekki lagt fram frumvarp til breytingar á lögum til að bæta úr ástandinu.
Því hefur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins lagt fram frumvarp um stöðu og valdheimildir ríkissáttasemjara og var mælt fyrir því á Alþingi á dögunum. Frumvarpið kveður á um að eftir að miðlunartillaga er lögð fram er aðilum vinnumarkaðarins óheimilt að beita verkföllum eða verkbönnum þar til greidd hafa verið atkvæði um tillöguna. Er með því tryggt að lögin virki í reynd og forysta samningsaðila geti ekki lengur svipt félagsmenn sína réttinum til að taka afstöðu til miðlunartillagna ríkissáttasemjara.
Það er okkur sjálfstæðismönnum hjartans mál að stuðla að bættum samskiptum og vinnubrögðum á vinnumarkaði, sem og annars staðar, en það liggur í augum uppi að vinnubrögð á vinnumarkaði verða tæpast til fyrirmyndar ef atvinnurekendur og stéttarfélög geta virt lög að vettugi eftir eigin hentisemi. Verði frumvarp okkar sjálfstæðismanna að lögum yrði stigið stórt skref í átt að heilbrigðari vinnumarkaði.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 26. september 2024.