Óli Björn Kárason alþingismaður:
Aðgerðasinnar meðal starfsmanna Ríkisútvarpsins eru sannfærðir um að leyfilegt sé að beita öllum brögðum til að koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn og Bjarna Benediktsson forsætisráðherra. Virðing við látinn mann eða fjölskyldu hans skiptir engu í huga fólks sem telur eðlilegt að misnota stöðu sína í hugmyndafræðilegri baráttu. Að ýta undir sundrungu og ala á tortryggni í garð einstaklinga og fyrirtækja er nauðsynleg til að grafa undan borgaralegum gildum sem íslenskt samfélag byggist á.
Frétt Ríkisútvarpsins um andlát Benedikts Sveinssonar, föður Bjarna, sem birtist á vef ríkismiðilsins síðastliðinn fimmtudagsmorgun og var lesin upp í hádegisfréttum sama dag, átti ekkert skylt við fagleg vinnubrögð, virðingu eða hlutlægni. Hún var rætin og illkvittin. Þegar persónuleg óbeit á stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum nær yfirhöndinni verður lágkúran mest.
Í 3. gr. laga um Ríkisútvarpið er meðal annars fjallað um starfshætti Ríkisútvarpsins og því gert skylt:
„1. Vera til fyrirmyndar um gæði og fagleg vinnubrögð.
2. Ábyrgjast að sanngirni og hlutlægni sé gætt í frásögn, túlkun og dagskrárgerð, leitað sé upplýsinga frá báðum eða öllum aðilum og sjónarmið þeirra kynnt sem jafnast.
3. Sannreyna að heimildir séu réttar og að sanngirni sé gætt í framsetningu og efnistökum.
4. Virða friðhelgi einkalífsins í fréttum og dagskrárefni nema lýðræðishlutverk Ríkisútvarpsins og upplýsingaréttur almennings krefjist annars.“
Lögin þverbrotin
Hér skal það fullyrt að fréttastofa ríkisins braut gegn flestum skyldum sínum samkvæmt ofangreindum töluliðum þegar greint var frá andláti Benedikts. Fréttastofan var ekki til fyrirmyndar um fagleg vinnubrögð og gætti hvorki sanngirni né hlutlægni. Í engu var skeytt um friðhelgi einkalífs þeirra sem um sárt áttu að binda vegna andláts heiðursmanns sem líklega rétti fleirum hjálparhönd en allir starfsmenn fréttastofu ríkisins hafa eða munu gera á sinni ævi.
Fréttastofunni er um megn að fylgja einföldum lagafyrirmælum og því á ekki að koma á óvart að siðareglur, sem útvarpsstjóri setti 13. júní 2022, hafi verið settar til hliðar. Í 1. gr. siðareglnanna segir að þær séu viðmið um hátterni starfsfólks Ríkisútvarpsins og því hátíðlega lýst yfir að tilgangurinn sé „að efla fagleg vinnubrögð og auka traust á starfsemi Ríkisútvarpsins“. Í 3. gr. er lögð áhersla á að Ríkisútvarpið skuli „rækja fjölbreytt hlutverk sitt af fagmennsku, metnaði, heiðarleika og virðingu“. Um heilindi segir meðal annars í 4. gr.: „Starfsfólk Ríkisútvarpsins rækir störf sín af ábyrgð, heilindum og heiðarleika.“
Umrædd frétt er ekki eina dæmið um hvernig hugmyndafræði aðgerðasinna hefur eitrað starf ríkismiðilsins. Sem betur fer hafa ekki allir starfsmenn stofnunarinnar orðið eitrinu að bráð. Innan veggja Ríkisútvarpsins eru starfandi dugandi og heiðarlegir fréttamenn og hugmyndaríkt dagskrárgerðarfólk. Aðgerðasinnarnir kasta hins vegar rýrð á það sem vel er gert. Á því bera engir aðrir ábyrgð en æðstu stjórnendur Ríkisútvarpsins.
Án agavalds
Ríkisútvarpið er ekki venjulegur fjölmiðill. Það lýtur ekki agavaldi áskrifenda, lesenda, áhorfenda og hlustenda. Við þurfum öll að standa skil á útvarpsgjaldi – „áskrift“ að ríkismiðli er óháð því hvort við nýtum þjónustuna sem er í boði eða ekki. Þetta þvingaða viðskiptasamband nær til allra einstaklinga 16 til 70 ára og til allra lögaðila (fyrir utan dánarbú, þrotabú og lögaðila sem sérstaklega eru undanþegnir skattskyldu).
Í skjóli lögþvingunar og án agavalds virðist hugmyndafræði aðgerðasinna hægt og bítandi hafa náð yfirhöndinni á ríkismiðlinum. Andlátsfréttin er aðeins síðasta dæmið um hvernig hlutleysi og faglegum vinnubrögðum er fórnað í pólitískum tilgangi. Yfirstjórn Ríkisútvarpsins situr með hendur í skauti – virðist fyrir löngu búin að sætta sig við vinnubrögðin enda þess fullviss að vinir ríkismiðilsins á Alþingi muni alltaf tryggja að stofnunin hafi nóg að bíta og brenna.
Á tíu árum, 2014 til 2023, lögðu skattgreiðendur nær 55 milljarða króna á föstu verðlagi í rekstur Ríkisútvarpsins sem aflaði sér einnig um 29 milljarða í tekjur af samkeppnisrekstri og þá fyrst og síðast með sölu auglýsinga. Ríkisútvarpið hafði því á þessum tíu árum um 84 milljarða króna úr að moða. Á síðasta ári hafði Ríkisútvarpið liðlega 8,7 milljarða í heildartekjur.
Aðgerðasinnarnir í Efstaleiti hugsa sér gott til glóðarinnar. Þeir reikna með að fá 130 milljarða í „baráttuna“ á næstu fimmtán árum!
Fréttaflutningur Ríkisútvarpsins um andlát sómamanns sem markaði djúp spor í atvinnusögu þjóðarinnar og var í forystu þeirra sem mótuðu eitt glæsilegasta sveitarfélag landsins er merki um ódrengskap sem fær að þrífast í skjóli lögþvingunar sem skattgreiðendur þurfa að sæta, til að fjármagna ríkisrekstur á fjölmiðlamarkaði. Fjölmiðill sem lýtur engu agavaldi og telur sig eiga öruggt skjól meðal meirihluta þingmanna gengur óhikað gegn eigin siðareglum og þverbrýtur lög sem um starfsemi hans gilda. Slíkur fjölmiðill getur ekki haldið því fram að hann sinni „fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu“.
Er ekki kominn tími til fyrir skattgreiðendur að segja: hingað og ekki lengra?
Greinin birtist í Morgunblaðinu 25. september 2024.