Illgirni í skjóli þvingunar
'}}

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Aðgerðasinn­ar meðal starfs­manna Rík­is­út­varps­ins eru sann­færðir um að leyfi­legt sé að beita öll­um brögðum til að koma höggi á Sjálf­stæðis­flokk­inn og Bjarna Bene­dikts­son for­sæt­is­ráðherra. Virðing við lát­inn mann eða fjöl­skyldu hans skipt­ir engu í huga fólks sem tel­ur eðli­legt að mis­nota stöðu sína í hug­mynda­fræðilegri bar­áttu. Að ýta und­ir sundr­ungu og ala á tor­tryggni í garð ein­stak­linga og fyr­ir­tækja er nauðsyn­leg til að grafa und­an borg­ara­leg­um gild­um sem ís­lenskt sam­fé­lag bygg­ist á.

Frétt Rík­is­út­varps­ins um and­lát Bene­dikts Sveins­son­ar, föður Bjarna, sem birt­ist á vef rík­is­miðils­ins síðastliðinn fimmtu­dags­morg­un og var les­in upp í há­deg­is­frétt­um sama dag, átti ekk­ert skylt við fag­leg vinnu­brögð, virðingu eða hlut­lægni. Hún var ræt­in og ill­kvitt­in. Þegar per­sónu­leg óbeit á stjórn­mála­mönn­um og stjórn­mála­flokk­um nær yf­ir­hönd­inni verður lág­kúr­an mest.

Í 3. gr. laga um Rík­is­út­varpið er meðal ann­ars fjallað um starfs­hætti Rík­is­út­varps­ins og því gert skylt:

„1. Vera til fyr­ir­mynd­ar um gæði og fag­leg vinnu­brögð.

2. Ábyrgj­ast að sann­girni og hlut­lægni sé gætt í frá­sögn, túlk­un og dag­skrár­gerð, leitað sé upp­lýs­inga frá báðum eða öll­um aðilum og sjón­ar­mið þeirra kynnt sem jafn­ast.

3. Sann­reyna að heim­ild­ir séu rétt­ar og að sann­girni sé gætt í fram­setn­ingu og efnis­tök­um.

4. Virða friðhelgi einka­lífs­ins í frétt­um og dag­skrárefni nema lýðræðis­hlut­verk Rík­is­út­varps­ins og upp­lýs­inga­rétt­ur al­menn­ings krefj­ist ann­ars.“

Lög­in þver­brot­in

Hér skal það full­yrt að frétta­stofa rík­is­ins braut gegn flest­um skyld­um sín­um sam­kvæmt of­an­greind­um töluliðum þegar greint var frá and­láti Bene­dikts. Frétta­stof­an var ekki til fyr­ir­mynd­ar um fag­leg vinnu­brögð og gætti hvorki sann­girni né hlut­lægni. Í engu var skeytt um friðhelgi einka­lífs þeirra sem um sárt áttu að binda vegna and­láts heiðurs­manns sem lík­lega rétti fleir­um hjálp­ar­hönd en all­ir starfs­menn frétta­stofu rík­is­ins hafa eða munu gera á sinni ævi.

Frétta­stof­unni er um megn að fylgja ein­föld­um laga­fyr­ir­mæl­um og því á ekki að koma á óvart að siðaregl­ur, sem út­varps­stjóri setti 13. júní 2022, hafi verið sett­ar til hliðar. Í 1. gr. siðaregln­anna seg­ir að þær séu viðmið um hátt­erni starfs­fólks Rík­is­út­varps­ins og því hátíðlega lýst yfir að til­gang­ur­inn sé „að efla fag­leg vinnu­brögð og auka traust á starf­semi Rík­is­út­varps­ins“. Í 3. gr. er lögð áhersla á að Rík­is­út­varpið skuli „rækja fjöl­breytt hlut­verk sitt af fag­mennsku, metnaði, heiðarleika og virðingu“. Um heil­indi seg­ir meðal ann­ars í 4. gr.: „Starfs­fólk Rík­is­út­varps­ins ræk­ir störf sín af ábyrgð, heil­ind­um og heiðarleika.“

Um­rædd frétt er ekki eina dæmið um hvernig hug­mynda­fræði aðgerðasinna hef­ur eitrað starf rík­is­miðils­ins. Sem bet­ur fer hafa ekki all­ir starfs­menn stofn­un­ar­inn­ar orðið eitr­inu að bráð. Inn­an veggja Rík­is­út­varps­ins eru starf­andi dug­andi og heiðarleg­ir frétta­menn og hug­mynda­ríkt dag­skrár­gerðarfólk. Aðgerðasinn­arn­ir kasta hins veg­ar rýrð á það sem vel er gert. Á því bera eng­ir aðrir ábyrgð en æðstu stjórn­end­ur Rík­is­út­varps­ins.

Án aga­valds

Rík­is­út­varpið er ekki venju­leg­ur fjöl­miðill. Það lýt­ur ekki aga­valdi áskrif­enda, les­enda, áhorf­enda og hlust­enda. Við þurf­um öll að standa skil á út­varps­gjaldi – „áskrift“ að rík­is­miðli er óháð því hvort við nýt­um þjón­ust­una sem er í boði eða ekki. Þetta þvingaða viðskipta­sam­band nær til allra ein­stak­linga 16 til 70 ára og til allra lögaðila (fyr­ir utan dán­ar­bú, þrota­bú og lögaðila sem sér­stak­lega eru und­anþegn­ir skatt­skyldu).

Í skjóli lögþving­un­ar og án aga­valds virðist hug­mynda­fræði aðgerðasinna hægt og bít­andi hafa náð yf­ir­hönd­inni á rík­is­miðlin­um. And­láts­frétt­in er aðeins síðasta dæmið um hvernig hlut­leysi og fag­leg­um vinnu­brögðum er fórnað í póli­tísk­um til­gangi. Yf­ir­stjórn Rík­is­út­varps­ins sit­ur með hend­ur í skauti – virðist fyr­ir löngu búin að sætta sig við vinnu­brögðin enda þess full­viss að vin­ir rík­is­miðils­ins á Alþingi muni alltaf tryggja að stofn­un­in hafi nóg að bíta og brenna.

Á tíu árum, 2014 til 2023, lögðu skatt­greiðend­ur nær 55 millj­arða króna á föstu verðlagi í rekst­ur Rík­is­út­varps­ins sem aflaði sér einnig um 29 millj­arða í tekj­ur af sam­keppn­is­rekstri og þá fyrst og síðast með sölu aug­lýs­inga. Rík­is­út­varpið hafði því á þess­um tíu árum um 84 millj­arða króna úr að moða. Á síðasta ári hafði Rík­is­út­varpið liðlega 8,7 millj­arða í heild­ar­tekj­ur.

Aðgerðasinn­arn­ir í Efsta­leiti hugsa sér gott til glóðar­inn­ar. Þeir reikna með að fá 130 millj­arða í „bar­átt­una“ á næstu fimmtán árum!

Frétta­flutn­ing­ur Rík­is­út­varps­ins um and­lát sóma­manns sem markaði djúp spor í at­vinnu­sögu þjóðar­inn­ar og var í for­ystu þeirra sem mótuðu eitt glæsi­leg­asta sveit­ar­fé­lag lands­ins er merki um ódreng­skap sem fær að þríf­ast í skjóli lögþving­un­ar sem skatt­greiðend­ur þurfa að sæta, til að fjár­magna rík­is­rekst­ur á fjöl­miðlamarkaði. Fjöl­miðill sem lýt­ur engu aga­valdi og tel­ur sig eiga ör­uggt skjól meðal meiri­hluta þing­manna geng­ur óhikað gegn eig­in siðaregl­um og þver­brýt­ur lög sem um starf­semi hans gilda. Slík­ur fjöl­miðill get­ur ekki haldið því fram að hann sinni „fjöl­miðlaþjón­ustu í al­mannaþágu“.

Er ekki kom­inn tími til fyr­ir skatt­greiðend­ur að segja: hingað og ekki lengra?

Greinin birtist í Morgunblaðinu 25. september 2024.