Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra:
Það eru margar áskoranir í íslensku samfélagi þessa dagana og það er margt sem brennur á íslensku þjóðinni. Válegir atburðir síðustu daga og vikna beina sjónum okkar að börnum okkar og fjölskyldu og minna okkur á mikilvægi þess að hlúa vel að fjölskyldunni í okkar samfélagi. Treysta þann grundvöll sem okkar lýðræðislega samfélag er reist á, menningu okkar og gildi.
Einhverjum kann að finnast vera áhlaup á þau gildi og á okkar samfélag. Við þurfum að vera vakandi fyrir því og þora og vilja taka samtalið af yfirvegun og byggt á staðreyndum.
Í einhverjum tilvikum er sjónum beint að innflytjendum og þá sér í lagi umsækjendum um alþjóðlega vernd. Sú umræða getur orðið tilfinningarík og klofið samfélagið í herðar niður. Þar sem fólk fylkir sér um einn tiltekinn einstakling eða fjölskyldu án þess að ræða málin í breiðara samhengi.
Ég legg áherslu á að við náum tökum á málaflokki sem hefur farið úr böndunum. Þar sem kostnaður hefur orðið gríðarlegur og áraun á okkar innviði og okkar samfélag er meiri en við höfum upplifað í seinni tíð. Ég er að horfa á stóru myndina. Ég er að gæta hagsmuna íslenskrar þjóðar.
En það er ekki sama hvernig við gerum það og það skiptir mig máli að við sýnum hvert öðru virðingu og þá ekki síst þeim sem hingað koma í von um betra líf. Það er gríðarlega mikilvægt að draga úr skautun í íslensku samfélagi um málefni útlendinga enda snúast þau í grunninn um fólk. Það þarf að nálgast umræðuna af nærgætni.
Þær ákvarðanir sem hér eru teknar eða þær reglur sem hafa verið settar eru ekki byggðar á hatri. Þær eru einmitt byggðar á grunngildum okkar og tryggja að við getum tekið á móti þeim einstaklingum sem eru í neyð. Það er hins vegar þannig að ekki allir sem hingað koma eru í neyð og ekki allir fá vernd. Það geta verið margar ástæður fyrir því en í grunninn byggist regluverk okkar og framkvæmd á alþjóðlegum skuldbindingum og á reglum nágrannaríkja okkar, þó með nokkrum undanþágum sem eru til skoðunar.
Þegar við lítum á stóru myndina er þó ljóst að við erum að ná ótrúlegum árangri í málefnum verndarkerfisins þar sem við höfum tekið stór umbótaskref. Skref sem ætlað er að auka skilvirkni í kerfinu og draga úr kostnaði.
Ein af stóru áskorunum okkar er að stytta málsmeðferðartíma og tryggja að unnt sé að afgreiða mál einstaklinga sem hingað leita hratt og örugglega. Það er mannúðlegt og til hagsbóta fyrir þau sem bíða úrlausnar. Við höfum styrkt okkar stofnanir til að ná tökum á þessari stöðu sem og breytt regluverki. Má vænta að enn frekari árangur af því sjáist á nýju ári.
Fordæmalaus fjöldi umsókna um alþjóðlega vernd er að minnka umtalsvert og hefur umsóknum um vernd í heild fækkað um 55% á milli ára. Mjög margir þeirra sem sækja um vernd fá synjun um vernd og hafa því ekki heimild til dvalar á Íslandi. Það hefur reynst erfitt fyrir okkur sem og aðrar Evrópuþjóðir að flytja þá einstaklinga sem svo háttar til um til heimaríkis eða viðtökuríkis. Við höfum hins vegar náð gríðarlegum árangri síðustu misseri með markvissum aðgerðum og höfum fjölgað brottflutningum þeirra sem hafa fengið synjun um vernd eða dvelja hér ólöglega um 70% á milli ára. Þar höfum við lagt megináherslu á sjálfviljuga heimför. Þá höfum við lagt aukna áherslu á löggæslueftirlit á landamærunum og við höfum snúið við yfir 600 manns á landamærunum á Keflavíkurflugvelli það sem af er ári. Það er jafnmikill fjöldi og 13 samanlögð árin á undan.
Ég hef allan minn tíma í ráðuneytinu lagt ofurkapp á að ná stjórn á málaflokknum og koma honum í jafnvægi. Það er að gerast.
Mín afstaða í útlendingamálum hefur ekki snúist um það hvort tilteknir einstaklingar fái vernd eða verði að fara úr landi. Mín barátta snýst um það að ná jafnvægi í málaflokki hælisleitenda og landamæra með það fyrir augum að standa vörð um verndarkerfið og taka vel á móti þeim sem hér fá vernd og setjast að í íslensku samfélagi. Einstaklingar og fjölskyldur sem síðar munu aðlagast, auðga og taka þátt í íslensku samfélagi.
Markmiðið er að búa hér til betra og skilvirkara verndarkerfi sem byggist á grunngildum okkar, þar sem við hlúum að mannúðlegu og réttlátu samfélagi. Við höfum tekið stór skref í þá átt.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 23. september 2024.