Bannað börnum?
'}}

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Við eyðum mikl­um tíma á net­inu og þar eru börn og ung­menni eng­in und­an­tekn­ing. Þau nota netið í tengsl­um við skólastarf, tóm­stund­ir og sam­skipti við vini. Margt bend­ir til þess að með lok­un­um í heims­far­aldri hafi net­notk­un auk­ist gíf­ur­lega.

Rann­sókn­ir sýna að auk­in net­notk­un get­ur ýtt und­ir of­beld­is­hegðun hjá strák­um og kvíða og þung­lyndi hjá stelp­um. Heilt yfir hef­ur tækn­in bætt líf okk­ar en huga verður að nei­kvæðum áhrif­um ef við gæt­um ekki að netör­yggi barna og ung­menna.

Margt hef­ur áunn­ist í netör­ygg­is­mál­um og Ísland mæl­ist nú í hæsta flokki. Við get­um verið stolt af þess­um ár­angri, sem er upp­skera vinnu sem við hóf­um í upp­hafi kjör­tíma­bils þegar við kynnt­um aðgerðaáætl­un í netör­yggi. Þar var m.a. lögð sér­stök áhersla á netör­yggi barna og ung­menna, en aðgerðirn­ar lúta helst að for­varn­a­starfi og að auka vernd barna og ung­menna fyr­ir glæp­um á net­inu ásamt hvatn­ingu til ungs fólks til að mennta sig á sviði netör­ygg­is.

Þegar kem­ur að ör­yggi íbúa þarf að huga að mörgu. Eitt er netör­yggi, hvort sem það snýr að svik­um, dreif­ingu á of­beld­is­fullu efni, barnaklámi og öðru efni sem get­ur skaðað bæði börn og full­orðna. Tækn­inni fleyg­ir hratt fram og í því fel­ast mörg tæki­færi til að bæta líf okk­ar, mennt­un, viðskipti, afþrey­ingu og þannig mætti áfram telja. Gervi­greind­in er að verða hluti af dag­legu lífi okk­ar, sem er vissu­lega já­kvætt og fel­ur í sér frek­ari tæki­færi. Á sama tíma verður ekki horft fram­hjá því að börn og ung­ling­ar eru að ein­hverju leyti ber­skjölduð fyr­ir þeim ógn­um sem þar leyn­ast.

Stjórn­völd hafa stigið mik­il­væg skref í því að auka netör­yggi og er því verk­efni hvergi nærri lokið. Við þurf­um sam­eig­in­legt átak með for­eldr­um, skól­um og öðrum sem starfa með börn­um og ung­menn­um ef við ætl­um að tryggja ör­yggi þeirra. Skil­in á milli þess sem er raun­veru­legt og hvað ekki, hvað telst heil­brigt og hvað ekki og önn­ur lífs­stíl­stengd skila­boð verða ekki mótuð á skrif­borðum op­in­berra aðila. Þetta er nýr veru­leiki og við þurf­um öll að tak­ast á við hann.

Það er eng­in leið að banna börn­um að nýta tækn­ina. Við vær­um í raun að taka af þeim tæki­færi með því að hjálpa þeim ekki að nýta sér hana til frek­ari framþró­un­ar. Sjálfsagt er þó að gera harðari kröf­ur þegar kem­ur að skóla­stof­unni og hvaða tækni er nýtt á for­send­um ár­ang­urs í mennta­kerf­inu.

Tækn­in og gervi­greind­in geta gert okk­ur klár­ari og hæf­ari, ör­ugg­ari og heil­brigðari, sparað sam­fé­lag­inu fjár­muni og um leið aðstoðað okk­ur við að leggja grunn að lífs­kjara­sókn til framtíðar­inn­ar. Öryggið skipt­ir máli og þá er mik­il­vægt að við auk­um fræðslu og stuðlum að því að net­heim­ur­inn verði líka ör­ugg­ur.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 25. september 2024.