Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:
Við eyðum miklum tíma á netinu og þar eru börn og ungmenni engin undantekning. Þau nota netið í tengslum við skólastarf, tómstundir og samskipti við vini. Margt bendir til þess að með lokunum í heimsfaraldri hafi netnotkun aukist gífurlega.
Rannsóknir sýna að aukin netnotkun getur ýtt undir ofbeldishegðun hjá strákum og kvíða og þunglyndi hjá stelpum. Heilt yfir hefur tæknin bætt líf okkar en huga verður að neikvæðum áhrifum ef við gætum ekki að netöryggi barna og ungmenna.
Margt hefur áunnist í netöryggismálum og Ísland mælist nú í hæsta flokki. Við getum verið stolt af þessum árangri, sem er uppskera vinnu sem við hófum í upphafi kjörtímabils þegar við kynntum aðgerðaáætlun í netöryggi. Þar var m.a. lögð sérstök áhersla á netöryggi barna og ungmenna, en aðgerðirnar lúta helst að forvarnastarfi og að auka vernd barna og ungmenna fyrir glæpum á netinu ásamt hvatningu til ungs fólks til að mennta sig á sviði netöryggis.
Þegar kemur að öryggi íbúa þarf að huga að mörgu. Eitt er netöryggi, hvort sem það snýr að svikum, dreifingu á ofbeldisfullu efni, barnaklámi og öðru efni sem getur skaðað bæði börn og fullorðna. Tækninni fleygir hratt fram og í því felast mörg tækifæri til að bæta líf okkar, menntun, viðskipti, afþreyingu og þannig mætti áfram telja. Gervigreindin er að verða hluti af daglegu lífi okkar, sem er vissulega jákvætt og felur í sér frekari tækifæri. Á sama tíma verður ekki horft framhjá því að börn og unglingar eru að einhverju leyti berskjölduð fyrir þeim ógnum sem þar leynast.
Stjórnvöld hafa stigið mikilvæg skref í því að auka netöryggi og er því verkefni hvergi nærri lokið. Við þurfum sameiginlegt átak með foreldrum, skólum og öðrum sem starfa með börnum og ungmennum ef við ætlum að tryggja öryggi þeirra. Skilin á milli þess sem er raunverulegt og hvað ekki, hvað telst heilbrigt og hvað ekki og önnur lífsstílstengd skilaboð verða ekki mótuð á skrifborðum opinberra aðila. Þetta er nýr veruleiki og við þurfum öll að takast á við hann.
Það er engin leið að banna börnum að nýta tæknina. Við værum í raun að taka af þeim tækifæri með því að hjálpa þeim ekki að nýta sér hana til frekari framþróunar. Sjálfsagt er þó að gera harðari kröfur þegar kemur að skólastofunni og hvaða tækni er nýtt á forsendum árangurs í menntakerfinu.
Tæknin og gervigreindin geta gert okkur klárari og hæfari, öruggari og heilbrigðari, sparað samfélaginu fjármuni og um leið aðstoðað okkur við að leggja grunn að lífskjarasókn til framtíðarinnar. Öryggið skiptir máli og þá er mikilvægt að við aukum fræðslu og stuðlum að því að netheimurinn verði líka öruggur.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 25. september 2024.