Aðgerðir skila árangri í málefnum hælisleitenda

„Ég hef lagt á það mikla áherslu að standa vörð um verndarkerfið og ná tökum á málaflokki hælisleitenda, með áherslu á fækkun umsókna, styttri málsmeðferðartíma og aukinn árangur í brottflutningi þeirra sem ekki hafa leyfi til dvalar í landinu. Það er að ganga eftir og ljóst að aðgerðir stjórnvalda eru að skila árangri,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra sem í dag birti upplýsingar á heimasíðu ráðuneytisins um árangur í málefnum hælisleitenda – sjá hér.

Undir forystu Sjálfstæðisflokksins hefur gríðarlegum árangri verið náð í málefnum hælisleitenda.

Eitt af markmiðum ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar var að tryggja landamæri Íslands, koma böndum á kostnað vegna hælisleitenda og endurskoða útlendingalöggjöfina með það fyrir augum að fella úr gildi íslenskar sérreglur.

Breytingar á útlendingalögum sem dómsmálaráðherra lagði fram og Alþingi samþykkti s.l. vor var m.a. ætlað að tryggja brottflutning þeirra sem hafa fengið synjun um vernd, auka skilvirkni og stuðla að styttri málsmeðferðartíma.

Umsækjendum fækkað úr 2.547 árið 2023 í 535 nú í ár

Það sem af eru þessu ári hafa 535 umsóknir borist um alþjóðlega vernd. Á síðasta ári voru umsóknir um 2.547 og árið 2022 voru þær 2.178. Í þessum tölum eru umsóknir frá Úkraínufólki ekki taldar með, en þeim hefur jafnframt farið fækkandi.

Aukinn árangur í brottflutningi

Það sem af er þessu ári hafa 1.165 einstaklingar farið frá landinu, ýmist í sjálfviljugri heimför eða þvingaðri. Það er um 70% aukning frá fyrra ári, sé miðað við allt árið 2023. Brottflutningur hefur aukist verulega eftir því sem líður á árið og er langt umfram það sem var árið áður. Þetta er í samræmi við markmið ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar um aukinn árangur í brottflutningi þeirra sem hafa fengið synjun um vernd.

Mun fleirum snúið við strax í Keflavík

Það sem af er ári hafa frávísunarmál verið alls 622. Þau voru 439 árið 203 og einungis 121 árið 2022. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum frá 19. september sl. og frétt RÚV 28. ágúst 2024. Aukning í frávísunum á alþjóðaflugvellinum í Keflavík á milli áranna 2022 og 2024 er 514%.