Bjarni ræddi ógnir samtímans við aðalritara SÞ
'}}

„Það var heiður og ánægja að ávarpa leiðtogafund Sameinuðu þjóðanna fyrir Íslands hönd í gær. Ég lagði sérstaka áherslu á heilbrigði hafsins og virðingu fyrir landamærum ríkja, algjör grundvallarmál fyrir okkur Íslendinga,“ segir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra á facebook-síðu sinni í dag.

Hann segir að á þinginu hafi „Sáttmáli framtíðarinnar“ verið samþykktur eftir langar viðræður.

„Það var mikilvægur áfangi í að að treysta böndin í alþjóðlegri samvinnu, sem hefur átt undir högg að sækja undanfarið,“ segir hann.

Þá átti Bjarni góðan fund með Antonio Guterres, aðalritara Sameinuðu þjóðanna.

„Við ræddum af hreinskilni um ógnir samtímans, m.a. stríðsátök þar sem alþjóðalög eru virt að vettugi. Ísland á allt sitt undir því að slíkar leikreglur séu virtar. Við megum aldrei sofna á verðinum eða líta svo á að við séum ónæm fyrir þróun heimsmálanna. Miklu máli skiptir í þessu samhengi að Sameinuðu þjóðirnar séu traustur vettvangur til lausnar deilumála og samstarfs ólíkra ríkja,“ segir Bjarni.