Rannsókn sóttvarnaaðgerða
'}}

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Óli Björn Kárason alþingismaður ritaði athyglisverða grein um sóttvarnalög og sóttvarnaaðgerðir hér í blaðið í gær. Þar benti hann á að heilbrigðisráðherra hefði boðað frumvarp um ný sóttvarnalög sem lagt yrði fram á næstu dögum. Þessa lagasetningu telur Óli Björn nauðsynlega og framför frá gildandi lögum. En hann nefnir líka að verið sé að byrja á vitlausum enda: „Við eigum eftir að gera upp covid-tímann og svara mjög áleitnum spurningum um sóttvarnaaðgerðir sem gripið var til. Flestar snúa þær að því með hvaða hætti borgaraleg réttindi voru varin, hvaða lagaheimildir voru að baki takmörkunum sem gripið var til og með hvaða hætti farið var eftir meginreglum stjórnarskrár og réttarríkisins.“

Þá segir hann að fyrir þinginu liggi þingsályktunartillaga sex þingmanna Sjálfstæðisflokksins um skipun nefndar þriggja óháðra sérfræðinga til að greina sóttvarnaaðgerðir stjórnvalda. Tilgangurinn sé að draga lærdóm af kórónuveirufaraldrinum, ekki síst hvað varðar þær aðgerðir sem gripið var til og voru til þess fallnar að skerða frelsi og ferðir almennings.

Nú ætti að vera hæfilega langt liðið frá þessum atburðum til að hægt sé að skoða þessa atburði og aðgerðir af yfirvegun. Mikilvægt er að það sé gert áður en fennir yfir vitneskjuna og til að forðast að endurtaka þau mistök sem kunna að hafa verið gerð, enda veit enginn hvenær næsti faraldur skýtur upp kollinum.

Morgunblaðið, 19. september.