Markvisst mynstur umferðartafa í Reykjavík
'}}

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Borgarfulltrúar vinstri meirihlutans í borgarstjórn hafa samþykkt uppfærslu svonefnds samgöngusáttmála. Samþykktin er í samræmi við þá stefnu meirihlutans að úrbætur í samgöngumálum Reykjavíkur skuli tafðar enn frekar en orðið er.

Úrbótum á gatnamótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar, sem átti að vera lokið árið 2021 samkvæmt samkomulagi frá 2019, er nú frestað til 2030. Þá hafa afar litlar umbætur orðið á umferðarljósastýringu, sem áttu einnig að vera forgangsmál.

Tafirnar eru ekki tilviljun heldur markvisst mynstur, sem skapað hefur verið í því skyni að tefja eða koma í veg fyrir samgönguframkvæmdir í þágu bílaumferðar í Reykjavík. Þessari stefnu hefur verið framfylgt af vinstri meirihlutum í borgarstjórn undanfarin fjórtán ár undir forystu Samfylkingarinnar.

Árið 2011 samdi vinstri meirihlutinn í Reykjavík við þáverandi ríkisstjórn Samfylkingar og VG um svokallað samgöngustopp. Það fól í sér að engar meiri háttar samgöngubætur yrðu gerðar á stofnbrautum Reykjavíkur í heilan áratug. Vinstri meirihlutinn í borgarstjórn fylgdi samgöngustoppinu eftir árið 2014 með því að taka áform um ýmsar samgöngubætur af aðalskipulagi, t.d. mislæg gatnamót á fimm stöðum í borginni. Þá hefur undirbúningur Sundabrautar markvisst verið tafinn og flæktur af sömu vinstri stjórnum.

Tafirnar kosta tugi milljarða

Vegna þessarar stefnu hafa umferðartafir á höfuðborgarsvæðinu aukist mjög undanfarin ár. Ljóst er að kostnaður einstaklinga vegna slíkra tafa er ekki undir sextíu milljörðum króna árlega. Þjóðhagslegur kostnaður er mun hærri.

Svonefndum samgöngusáttmála frá 2019 var ætlað að rjúfa þá kyrrstöðu, sem þá hafði ríkt í áratug, varðandi samgönguframkvæmdir í Reykjavík. Sérstakar framkvæmdir áttu að vera í sérstökum forgangi, t.d. bætt umferðarljósastýring og gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegar. Ekkert bólar á þessum framkvæmdum og samkvæmt nýsamþykktri uppfærslu verður þeim frestað enn frekar.

Uppfærsla samgöngusáttmálans felur í sér mikla aukningu opinberra útgjalda frá því sem áður var áætlað. Flest verkefni sáttmálans eru enn í forhönnun og má því búast við að endanlegur kostnaður verði mun hærri.

Mikil óvissa er um fjármögnun sáttmálans og virðist eiga að vísa því vandamáli til framtíðarinnar. Þó hefur komið fram að til standi að leggja háa viðbótarskatta á borgarbúa vegna hans. Ekki er ólíklegt að slík skattahækkun geti numið hundruðum þúsunda króna árlega fyrir venjulega fjölskyldu í eystri hverfum Reykjavíkur. Ljóst er að engin sátt verður um slíka hækkun.

Bráðaaðgerða er þörf

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vilja nú þegar ráðast í umfangsmiklar samgönguframkvæmdir í Reykjavík í stað áframhaldandi tafa og seinkana á grundvelli sáttmálans. Ráðast þarf strax í átak við að bæta stýringu umferðarljósa með snjalllausnum. Þá þarf að ljúka skipulagsvinnu við gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegar og ráðast í framkvæmdir þar á árinu 2025. Einnig þarf að flýta vinnu vegna Sundabrautar og Miklubrautarganga eins og kostur er.

Þá þarf að ráðast strax í eftirfarandi aðgerðir til eflingar almenningssamgangna í stað þess að bíða í mörg ár eftir óhagkvæmri borgarlínu:

1. Lagning forgangsakreina fyrir strætisvagna hefjist að nýju árið 2025.

2. Strætisvögnum verði tryggður forgangur á umferðarljósum með sérstakri stýringu.

3. Upphituðum skýlum verði komið fyrir á fjölförnum biðstöðvum og úrbætur gerðar á skiptistöðvum.

4. Endurnýjun strætisvagnaflotans verði hraðað.

5. Nýtt og notendavænt greiðslukerfi verði tekið í notkun.

6. Leiðakerfi Strætó bs. verði endurskoðað og bætt.

Aðgerðir í stað orða

Rjúfa þarf þá kyrrstöðu sem ríkir í samgöngumálum í Reykjavík. Það verður ekki gert með áframhaldandi stöðnun og töfum. Flýta þarf framkvæmdum í stað þess að seinka þeim.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. september 2024.