Ánægja með langfjölmennasta flokksráðsfund sögunnar
'}}

Metþátttaka var á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins á Hilton Reykjavík Nordica hinn 31. ágúst sl. Þannig sótti helmingur flokksráðsmanna fundinn, eða 370 manns.  Aldrei hafa fleiri sótt flokksráðsfund.

Fundurinn hófst með ræðu Bjarna Benediktssonar formanns flokksins en í kjölfarið héldu varaformaður, ritari og ráðherrar flokksins stuttar ræður. Á fundinum voru vinnustofur þar sem fram fór stefnumótun auk þess sem fundurinn vann með og afgreiddi stjórnmálaályktun sem lesa má hér. Í lok fundar var tekin upp sú nýbreytni að fundarmenn röðuðu málefnum í mikilvægisröð í símum sínum. Birtust niðurstöður kosninganna jafnóðum. Góður rómur var gerður að þessari aðferðarfræði.

Ánægja í könnun meðal flokksráðsmanna

Fundarmenn voru almennt ánægðir með fundinn. Samkvæmt könnun sem gerð var meðal þeirra eftir fundinn, og helmingur fundarmanna svöruðu, voru 62% fundargesta ánægðir með efnistök og uppbyggingu fundarins en einungis 17,5% óánægðir. Af þeim sem tóku afstöðu voru tæp 80% fundargesta ánægðir með hann. Það var ánægjulegt að sjá í könnuninni að allflestir sátu meira og minna allan fundinn.

Í könnuninni kom fram að fundargestir voru ánægðastir með opna samtalið í vinnuhópum þar sem línur voru lagðar um áherslur og stefnumál næstu missera.

Útsending var frá fundinum

Ræður formanns, varaformanns, ritara og ráðherra voru sendar beint út. Samhliða fundinum voru síðan umræðuþættir í beinni útsendingu þar sem tekin voru fyrir ýmis málefni svo sem efnahagsmál, framtíð ungs fólks, húsnæðismál, menntamál, orkumál og útlendingamál. Samkvæmt könnuninni voru allflestir þeirra sem horfðu á útsendinguna ánægðir með efnistökin í henni. Þeir sem ekki hafa gefið sér tíma til að horfa á útsendinguna eru hvattir til þess að gera það, en hana má finna hér.