Áleitnum spurningum er ósvarað
'}}

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Ein frumskylda ríkisvaldsins er að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að verja líf og heilsu borgaranna gegn ógnunum. Þegar óþekktur ógnvaldur – kórónuveiran – herjaði á þjóðir heims taldi ég réttlætanlegt og nauðsynlegt að stjórnvöld gripu við varna, jafnvel þótt frelsi einstaklinga væri skert tímabundið, enda væri farið að meginreglum réttarríkisins og stjórnarskrár.

Flest viljum við sjálfsagt gleyma covid-tímanum, þegar gripið var til harkalegra aðgerða og samfélagið lamað með sóttvarnaaðgerðum. Borgaraleg réttindi voru tekin úr sambandi í nafni almannaheilla. Gagnrýni á aðgerðir var þögguð niður. Því var haldið fram að í varnarbaráttu gegn hættulegri veiru væri stjórnvöldum rétt og skylt að leggja ákvæði stjórnskipunarlaga til hliðar og ýta löggjafanum út í horn.

Í nóvember 2020 lýsti ég hér á síðum Morgunblaðsins yfir efasemdum um að heilbrigðisyfirvöld hefðu haft skjól í sóttvarnalögum fyrir öllum þeim aðgerðum sem gripið var til. Borgaraleg réttindi yrðu ekki afnumin með reglugerðum eða án atbeina löggjafans. Og jafnvel þótt stjórnvöldum væri skylt að bregðast við þegar samfélaginu væri ógnað skipti mestu að farið væri að reglum réttarríkisins og stjórnarskrár. Þar sótti ég í kistu Sumptions lávarðar (Jonathan Philip Chadwick Sumption), fyrrverandi dómara við hæstarétt Bretlands, sem hefur undirstrikað mikilvægi þess að í frjálsu landi virði stjórnvöld grunnréttindi borgaranna og starfi innan þeirra valdmarka sem þeim eru mörkuð. Þessi regla sé ófrávíkjanleg.

Óttinn gegn frelsi

Óttinn er og hefur verið öflugasta vopn þeirra sem virða frelsi borgaranna lítils. Í áðurnefndri grein hélt ég því fram að forræðishyggjan nærðist á ótta: „Í skugga óttans sé þess krafist að stjórnvöld grípi til aðgerða, sem sumar geta verið gagnlegar en aðrar skaðlegar í viðleitni allra að verja líf og heilsu. Í þessum efnum sé ekki aðeins við stjórnvöld að sakast heldur ekki síður okkur sjálf. Frelsið verður fórnarlamb óttans og umburðarlyndi gagnvart ólíkum skoðunum hverfur.“

Í ágúst 2020 hélt ég því fram að takmörkun á frelsi borgaranna hefði afleiðingar sem sumar hverjar væru ófyrirséðar. Kostnaðurinn væri jafnt efnahagslegur og félagslegur, jafnvel þótt íslensk stjórnvöld hefðu í nokkru gætt meiri hófsemdar í takmörkunum en margar aðrar þjóðir. En samfélag „sem lokar á eða takmarkar til lengri tíma mannleg samskipti, slekkur ljósin og stöðvar hjól atvinnulífsins, molnar með tímanum að innan – hættir að vera samfélag frjálsra borgara“.

Eftir því sem tíminn leið varð gagnrýni mín á sóttvarnaaðgerðirnar, sem ég studdi í upphafi, harðari og sannfæring mín sterkari um að stjórnvöld hefðu gripið til skerðinga á frelsi einstaklinga sem þau hefðu ekki heimild til og mættu aldrei fá. Að nokkru sótti ég innblástur í nokkrar ljóðlínur ungrar ástralskrar skáldkonu, Erin Hanson:

Frelsið bíður þín,

í vindum skýjanna.

Og þú spyrð; en ef ég hrapa?

Ó, mín kæra,

en ef þú flýgur?

Í fjórða sinn

Heilbrigðisráðherra hefur boðað frumvarp um ný sóttvarnalög og verður það lagt fram á næstu dögum. Þetta er í fjórða sinn sem gerð er atlaga að nýrri löggjöf. Um nauðsyn lagasetningar verður ekki deilt. Frumvarpið hefur tekið töluverðum breytingum frá því að það var lagt fyrst fram í mars 2022. Flestar breytingarnar eru mjög til bóta og framför frá gildandi lögum. Hvort það tekst að afgreiða frumvarpið í þessari fjórðu tilraun leiðir tíminn í ljós.

Að nokkru er hins vegar verið að byrja á vitlausum enda. Við eigum eftir að gera upp covid-tímann og svara mjög áleitnum spurningum um sóttvarnaaðgerðir sem gripið var til. Flestar snúa þær að því með hvaða hætti borgaraleg réttindi voru varin, hvaða lagaheimildir voru að baki takmörkunum sem gripið var til og með hvaða hætti farið var eftir meginreglum stjórnarskrár og réttarríkisins.

Fyrir þinginu liggur þingsályktunartillaga sex þingmanna Sjálfstæðisflokksins um skipun nefndar til að greina sóttvarnaaðgerðir stjórnvalda. Með samþykkt tillögunnar, sem er flutt í annað sinn, er ríkisstjórninni falið að skipa nefnd þriggja óháðra sérfræðinga til að greina sóttvarnaaðgerðir stjórnvalda í heimsfaraldri kórónuveirunnar í ljósi 67., 71. og 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.

Í greinargerð með tillögunni segir að mikilvægt sé að „dreginn verði lærdómur af heimsfaraldri kórónuveirunnar á öllum sviðum, ekki síst hvað varðar þær aðgerðir sem gripið var til og voru til þess fallnar að skerða frelsi og ferðir almennings“. Lagt er til að meginverkefni nefndarinnar verði greining á lögmæti sóttvarnaaðgerða í ljósi mannréttindaákvæða stjórnarskrárinnar. Nefndinni verði m.a. falið að greina hvort sóttvarnaaðgerðir byggðar á 12. gr. sóttvarnalaga hafi staðist kröfur stjórnarskrárinnar um lögmæti slíkra aðgerða, hvort þar til bærir aðilar hafi í reynd farið með ákvörðunarvald um sóttvarnaaðgerðir í faraldrinum. Þá verði togstreita milli sóttvarnaaðgerða og stjórnarskrárvarinna mannréttinda greind nánar.

Óháð því hvort frumvarp heilbrigðisráðherra um ný sóttvarnalög nær fram að ganga á yfirstandandi þingi verður ekki hjá því komist að ráðast í úttekt á lagalegum hliðum sóttvarnaaðgerðanna. Ekki er ólíklegt að sú úttekt leiði til enn frekari breytinga á sóttvarnalögum.

Morgunblaðið, 18. september.