Já, við þurfum meiri orku
'}}

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Við þurfum stöðugt að huga að því hvernig við búum fyrirtækjunum sem hér eru og þeim sem ekki enn hafa orðið til öfluga innviði þar sem umhverfi þeirra er stöðugt bætt. Það er eitt af okkar helstu verkefnum.

Ný stoð efnahagslífsins er að festa sig í sessi og er farin að skipta miklu máli fyrir lífskjör hérlendis. Útflutningstekjur hugverkaiðnaðarins jukust á síðasta ári um 21 milljarð króna, eða 15% á milli ára og var þannig eina greinin sem óx umfram verðbólgu á milli ára. Vöxturinn er stöðugur og á fimm árum hafa tekjur hennar tvöfaldast. Greinin hefur tryggt aukinn stöðugleika og skapað fjölmörg verðmæt störf í fjölbreyttu atvinnulífi.

Við getum þó gert betur. Ein forsenda þess að auka samkeppnishæfni okkar og fjölga tækifærum er að hér sé næg orka. Aðgengi að orku gegnir lykilhlutverki í framtíðartækifærum landsins. Umræða um þessar mikilvægu framfarir hefur verið föst í skotgröfum milli þeirra sem vilja afla meiri orku og þeirra sem telja að við framleiðum nóg. Það er þó nokkuð ljóst að ef við ætlum að sækja fram, byggja upp öflugt atvinnulíf áfram og auka enn frekar lífsgæði hér á landi munum við þurfa aukna orkuframleiðslu.

Meðal þeirra fyrirtækja sem falla undir hugverkaiðnað eru ýmiss konar tæknifyrirtæki. Bæði þar og í fyrirtækjum úr öllum geirum stöndum við frammi fyrir einstökum tækifærum til að nýta gervigreind hjá einkafyrirtækjum til að auka verðmætasköpun og ýta undir frekari hagvöxt. Þá getum við bætt og einfaldað opinbera þjónustu, minnkað kostnað og útgjöld hins opinbera, bætt heilbrigðis- og menntakerfið og þannig má áfram telja.

Forsenda þess að við getum nýtt tækifæri tækninnar til fulls er að við höfum öfluga reiknigetu. Hún verður til í gagnaverum sem þarfnast meðal annars orku. Fyrr í mánuðinum fengum við fréttir af öflugri uppbyggingu og fjárfestingum í sæstrengjum til landsins og gervigreindargagnaverum. Slík uppbygging byggist á því að reiknigeta sé fyrir hendi og því má segja að reiknigeta sé hluti af innviðum framtíðarinnar.

Ef við höfum ekki næga orku til að knýja framleiðslu og efla hugvit munu hugmyndirnar ekki rætast hér á landi. Fyrirtæki sem krefjast mikils reikniafls og öruggs fjarskiptaumhverfis, eins og þau sem nú horfa til Íslands, munu einfaldlega leita annað ef við getum ekki mætt orkuþörfum þeirra.

Við vitum að Ísland hefur alla burði til að verða leiðandi á þessu sviði. Hreina orkan okkar, strategísk lega, mannauðurinn og tæknikunnáttan eru samverkandi þættir sem gera Ísland að mjög aðlaðandi stað fyrir slíka uppbyggingu.

Ísland getur orðið miðstöð hugvits, orku og framfara á heimsmælikvarða. En það er undir okkur komið að nýta þessi tækifæri og tryggja að við sköpum það umhverfi sem fyrirtæki leita að þegar þau íhuga hvar þau byggja upp starfsemi sína.

Morgunblaðið, 16. september.