Seinkunarsáttmálinn

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins:

Vanræksla í uppbyggingu samgöngumannvirkja í Reykjavík hefur leitt til óviðunandi ástands í umferðarmálum. Þetta ástand er til komið vegna baráttu vinstri borgarstjórnarmeirihluta, undir stjórn Samfylkingarinnar, gegn samgönguframkvæmdum.

Barist gegn samgöngubótum

Árið 2011 samdi vinstri meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur við þáverandi ríkisstjórn Samfylkingar og VG um svokallað samgöngustopp. Það fól í sér að engar meiri háttar samgöngubætur yrðu gerðar á stofnbrautum í Reykjavík í heilan áratug.

Samfylkingin og aðrir vinstri flokkar í borgarstjórn fylgdu samgöngustoppinu eftir árið 2014 með því að taka áform um ýmsar samgöngubætur af aðalskipulagi, t.d. mislæg gatnamót á fimm stöðum í borginni.

Endalaus seinkun Sundabrautar

Sundabraut er sérkapítuli. Í rúman áratug hafa vinstri meirihlutar undir forystu Samfylkingarinnar tafið framgang Sundabrautarverkefnisins og lagt steina í götu þess. Fjölbýlishús hafa verið byggð á veghelgunarsvæði Sundabrautar í Gufunesi og smáhýsi reist í fyrirhuguðu vegstæði hennar. Þá hafa fjölbýlishús einnig verið byggð við það vegstæði sem Vegagerðin taldi henta best fyrir tengingu Sundabrautar við Sæbraut. Það hefur því verið sérstakt metnaðarmál vinstri stjórna í borginni að koma í veg fyrir að Sundabraut verði að veruleika.

Margar nefndir – engar efndir

Eitt helsta markmið ríkisins með samgöngusáttmálanum 2019 var að freista þess að rjúfa þá kyrrstöðu sem þá hafði ríkt í áratug varðandi samgönguframkvæmdir í Reykjavík. Í sáttmálanum var kveðið á um framkvæmdir sem skyldu vera í sérstökum forgangi. Með bættri umferðarljósastýringu átti t.d. strax að greiða fyrir umferð og auka umferðaröryggi í borginni. Efndirnar hafa verið hverfandi.

Framkvæmdum við endurbætt gatnamót Bústaðavegar og Reykjanesbrautar átti að ljúka árið 2021. Þær hafa ekki enn orðið að veruleika vegna baráttu vinstri meirihlutans. Verkið verður tafið enn frekar með uppfærðum sáttmála og samkvæmt honum mun því ekki ljúka fyrr en árið 2030.

Ljúka átti Sæbrautarstokki milli Vesturlandsvegar og Holtavegar árið 2022, Miklubrautarstokki milli Snorrabrautar og Rauðarárstígs árið 2023 og hefjast átti handa við Miklubrautarstokk milli Rauðarárstígs og Kringlumýrarbrautar árið 2024. Ekkert þessara verkefna hefur orðið að veruleika og samkvæmt uppfærðum sáttmála verður þeim nú seinkað enn frekar. Flest bendir reyndar til að skynsamlegra sé að grafa göng undir þessar brautir en að leggja þar stokk.

Mikil skattahækkun

Fjármögnun samgöngusáttmálans er sveipuð óvissu og virðist eiga að vísa því vandamáli til framtíðarinnar. Þó er ljóst að til stendur að leggja háa viðbótarskatta á borgarbúa vegna hans. Samkvæmt uppfærslunni á nýr vegtollur að standa undir 143 milljörðum króna af framkvæmdakostnaðinum. Bilið verður brúað með lánum ef þessi upphæð skilar sér ekki öll á framkvæmdatímanum. Þarna fá stuðningsmenn skattahækkana því mikið fyrir sinn snúð.

Ábati af lóðasölu í Keldnalandi er ein forsenda fjármögnunar sáttmálans og er hann áætlaður um 50 milljarðar króna. Komið hefur fram að vinstri meirihlutinn hyggist áfram halda lóðaframboði í skefjum til að tryggja hámarksgróða af byggingarlóðum þar. Er sátt um að íbúðarkaupendur í Keldnalandi greiði óeðlilega hátt lóðaverð til að auðvelda fjármögnun samgöngusáttmálans?

Eflum strætó strax

Sjálfsagt er að halda áfram myndarlegri lagningu hjólastíga og efla almenningssamgöngur í borginni. Hugmyndir um svokallaða borgarlínu eru þó mjög stórkarlalegar og ljóst er að hægt er að ná markmiðum hennar miklu fyrr og með mun hagkvæmari hætti en þar er stefnt að. Leggja þarf forgangsakreinar fyrir strætó, veita honum forgang á umferðarljósum, bæta biðskýli og skiptistöðvar, hefja endurnýjun vagnaflotans og bæta leiðakerfið. Strax er hægt að ráðast í þessar aðgerðir með hagkvæmum hætti í stað þess að bíða í mörg ár eftir borgarlínunni.

Uppfærður „samgöngusáttmáli“ felur í sér enn frekari seinkanir og miklar kostnaðarhækkanir á mörgum mikilvægum samgönguframkvæmdum í Reykjavík. Hægt væri að ná ýmsum markmiðum sáttmálans með mun fljótvirkari og hagkvæmari hætti en nú er áformað.

Seinkunarsáttmáli er því réttnefni þess uppfærða samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins sem nú liggur fyrir.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. september 2024