Nýr vetur – ný þingmál
'}}

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis:

Í dag verður Alþingi sett í 155. sinn og síðasti þingvetur kjörtímabilsins gengur í garð. Það er óhætt að segja að tilfinningarnar séu blendnar. Ég hef reynt að nýta tímann minn í þinginu vel og komandi vetur verður þar engin undantekning. Ég notaði sumarið til undirbúnings að vanda og átti fjölmarga góða fundi. Þá auglýsti ég enn á ný eftir ábendingum og umkvörtunum kjósenda og beindi nú sjónum sérstaklega að eldra fólki. Gagnlegir fundir með fulltrúum þeirra nýtast til framlagningar þingmála í þeirra þágu.

Í dag mun ég leggja fram nokkur þingmál sem ég hef unnið að – nokkur ný, en önnur eru lögð fram að nýju. Ég mun fara betur í saumana á þeim í frekari greinaskrifum því að mér hafa borist fjölmargar góðar ábendingar frá kjósendum að undanförnu. Meðal mála sem ég mun leggja fram á ný eru frumvörp og tillögur er varða áminningu ríkisstarfsmanna, gullhúðun, jafnlaunavottun og opinber fjárframlög til stjórnmálaflokka. Auk þess mun ég enn og aftur leggja fram tillögu um viðhlítandi þjónustu vegna vímuefnavandans. Vandi fólks með vímuefnavanda er átakanlegur og herjar ekki síst á ungt fólk í blóma lífsins. Fjölskyldan er hornsteinn hvers samfélags og fólksfjölgun er forsenda þess að viðhalda þeim. Fæðingartíðni hefur lengi verið áhyggjuefni á meginlandi Evrópu og nú er staðan orðin sú á Íslandi að fæðingartíðni er í sögulegu lágmarki. Niðurstöður rannsókna og hávær umræða um stöðu og erfiðleika barnafjölskyldna hefur leitt til vangaveltna og orðræðu um hvort barneignir séu orðnar forréttindi. Meðal nýrra þingmála sem ég legg fram er því frumvarp um skattafrádrátt fyrir barnafjölskyldur.

Það er grundvallarforsenda fyrir ákvarðanatöku um málefni innflytjenda að við búum yfir greinargóðum upplýsingum og tölfræði. Um það getum við m.a. litið til Norðurlandanna sem hafa aukið mjög upplýsingaöflun í málaflokknum á undanförnum árum. Ég mun því leggja það til að stjórnvöld komi upp mælaborði til að fylgjast með og meta árangur af aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi.

Samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins komst aftur á dagskrá við tímabæra endurskoðun hans. Ég hef tekið málið ítrekað upp – bæði í greinaskrifum og á Alþingi. Við efasemdarmenn um ágæti sáttmálans, ekki síst vegna vanefnda Reykjavíkurborgar, munum halda þeim málflutningi áfram í þinginu. Í þeim efnum gæti ég auðvitað sérstaklega hagsmuna Reykvíkinga.

Staðan í efnahagslífinu er áfram þung og stærsta áskorun og viðfangsefni vetrarins. Ríkisfjármálin gegna þar auðvitað stóru hlutverki og við þingmenn þurfum því að sameinast um fjármálastefnu sem stuðlar að verðstöðugleika. Það verður fróðlegt að fylgjast með framgangi þingmanna strax í byrjun þings þegar við tökum fjárlögin fyrir á Alþingi.

Ég hvet fólk og fyrirtæki til þess að halda áfram að leita til mín og hlakka til samstarfsins við að leysa verkefni vetrarins á Alþingi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. september 2024