Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:
Á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins um liðna helgi rifjaði ég upp nokkurra ára gamla blaðagrein eftir þjóðþekkta konu úr gamla Alþýðuflokknum, sem skrifaði um hvernig sá flokkur hefði barist fyrir kosningarétti fátækra – þeirra sem þá þáðu félagslegan stuðning.
Árið 1934 fékk fátækasta fólkið á Íslandi loks ótakmarkaðan kosningarétt. Þegar kjördagur rann upp og fólkið í Pólunum í Reykjavík klæddi sig í sparifötin fór það í kjörklefann til að kjósa.
Fólkið kaus, í stórum stíl, Sjálfstæðisflokkinn. Forystukonan gat með engu móti skilið af hverju fólkið sem Alþýðuflokkurinn barðist fyrir að fengi kosningarétt hefði ekki launað þeim greiðann og kosið til vinstri.
Af hverju rifjaði ég upp þessa grein? Veruleikinn var að á þessum tíma áttaði þetta skynsama fólk sig á því að flokkurinn sem barðist fyrir jöfnum tækifærum, stétt með stétt og blómlegu atvinnulífi var Sjálfstæðisflokkurinn. Flokkurinn sem vildi hjálpa fólki út úr fátækt.
Við viljum hjálpa fólki til að hjálpa sér sjálft. En við vitum líka að það verður alltaf einhver hópur sem þarf áframhaldandi stuðning og velferðarkerfið á að vera það sterkt að fólk fái þann stuðning sem það þarf. Til þess þarf þó skýra forgangsröðun. Velferðarkerfið verður ekki sterkt nema við ýtum undir og styðjum við framtak einstaklinga og árangur fyrirtækja. Samhengi verðmætasköpunar og velferðar verður ekki rofið.
Því miður hefur fennt yfir þessi grundvallarskilaboð sjálfstæðisstefnunnar. Okkur er legið á hálsi fyrir að vinna aðeins fyrir ákveðna þjóðfélagshópa og pólitískir andstæðingar hafa reynt að skilgreina okkur með þeim hætti. Sjálfstæðisflokknum hefur ekki tekist nægjanlega vel að koma sínum skilaboðum á framfæri. Þar þarf flokkurinn, og kjörnir fulltrúar hans, að gera betur og ég er þar ekki undanskilin.
Þótt það séu komin ansi mörg ár frá því að fólkið í Pólunum fékk kosningarétt hefur sumt ekki breyst. Sjálfstæðisstefnan er enn stefna þeirra sem vilja skapa eigin tækifæri, byggja upp sterkt samfélag og tryggja að allir fái notið ávaxta erfiðisins. Stefna þeirra sem vita að blómlegt atvinnulíf og öflugt velferðarkerfi eru ekki andstæður. Sjálfstæðisflokkurinn er sá flokkur sem hefur stuðlað að því að fólk geti hjálpað sér sjálft. Við þurfum ekki að skipta um stefnu heldur ætlum við að vinna áfram á grundvelli okkar hugmyndafræði. Standa með einstaklingnum, með fjölskyldunum. Sjálfstæðisstefnan er ekki stefna hinna fáu, heldur stefna fyrir alla.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. september 2024.