Hvað kaus fólkið í Pólunum?

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Á flokks­ráðsfundi Sjálf­stæðis­flokks­ins um liðna helgi rifjaði ég upp nokk­urra ára gamla blaðagrein eft­ir þjóðþekkta konu úr gamla Alþýðuflokkn­um, sem skrifaði um hvernig sá flokk­ur hefði bar­ist fyr­ir kosn­inga­rétti fá­tækra – þeirra sem þá þáðu fé­lags­leg­an stuðning.

Árið 1934 fékk fá­tæk­asta fólkið á Íslandi loks ótak­markaðan kosn­inga­rétt. Þegar kjör­dag­ur rann upp og fólkið í Pól­un­um í Reykja­vík klæddi sig í spari­föt­in fór það í kjör­klef­ann til að kjósa.

Fólkið kaus, í stór­um stíl, Sjálf­stæðis­flokk­inn. For­ystu­kon­an gat með engu móti skilið af hverju fólkið sem Alþýðuflokk­ur­inn barðist fyr­ir að fengi kosn­inga­rétt hefði ekki launað þeim greiðann og kosið til vinstri.

Af hverju rifjaði ég upp þessa grein? Veru­leik­inn var að á þess­um tíma áttaði þetta skyn­sama fólk sig á því að flokk­ur­inn sem barðist fyr­ir jöfn­um tæki­fær­um, stétt með stétt og blóm­legu at­vinnu­lífi var Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn. Flokk­ur­inn sem vildi hjálpa fólki út úr fá­tækt.

Við vilj­um hjálpa fólki til að hjálpa sér sjálft. En við vit­um líka að það verður alltaf ein­hver hóp­ur sem þarf áfram­hald­andi stuðning og vel­ferðar­kerfið á að vera það sterkt að fólk fái þann stuðning sem það þarf. Til þess þarf þó skýra for­gangs­röðun. Vel­ferðar­kerfið verður ekki sterkt nema við ýtum und­ir og styðjum við fram­tak ein­stak­linga og ár­ang­ur fyr­ir­tækja. Sam­hengi verðmæta­sköp­un­ar og vel­ferðar verður ekki rofið.

Því miður hef­ur fennt yfir þessi grund­vall­ar­skila­boð sjálf­stæðis­stefn­unn­ar. Okk­ur er legið á hálsi fyr­ir að vinna aðeins fyr­ir ákveðna þjóðfé­lags­hópa og póli­tísk­ir and­stæðing­ar hafa reynt að skil­greina okk­ur með þeim hætti. Sjálf­stæðis­flokkn­um hef­ur ekki tek­ist nægj­an­lega vel að koma sín­um skila­boðum á fram­færi. Þar þarf flokk­ur­inn, og kjörn­ir full­trú­ar hans, að gera bet­ur og ég er þar ekki und­an­skil­in.

Þótt það séu kom­in ansi mörg ár frá því að fólkið í Pól­un­um fékk kosn­inga­rétt hef­ur sumt ekki breyst. Sjálf­stæðis­stefn­an er enn stefna þeirra sem vilja skapa eig­in tæki­færi, byggja upp sterkt sam­fé­lag og tryggja að all­ir fái notið ávaxta erfiðis­ins. Stefna þeirra sem vita að blóm­legt at­vinnu­líf og öfl­ugt vel­ferðar­kerfi eru ekki and­stæður. Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn er sá flokk­ur sem hef­ur stuðlað að því að fólk geti hjálpað sér sjálft. Við þurf­um ekki að skipta um stefnu held­ur ætl­um við að vinna áfram á grund­velli okk­ar hug­mynda­fræði. Standa með ein­stak­lingn­um, með fjöl­skyld­un­um. Sjálf­stæðis­stefn­an er ekki stefna hinna fáu, held­ur stefna fyr­ir alla.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. september 2024.