Frjálsir valkostir í samgöngum

Hildur Björnsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:

Það er lífs­gæðamál að bæta sam­göng­ur á höfuðborg­ar­svæðinu. Það var því fagnaðarefni þegar sam­göngusátt­máli höfuðborg­ar­svæðis­ins var und­ir­ritaður árið 2019, en hann tryggði stór­auk­in fram­lög til nauðsyn­legra sam­göngu­fram­kvæmda á svæðinu.

Sátt­mál­inn átti að tryggja breiða fjár­fest­ingu í fjöl­breytt­um sam­göng­um. Stærst­um hluta fjár­magns­ins skyldi varið til stofn­vega­fram­kvæmda, því næst skyldi fjár­fest í öfl­ug­um al­menn­ings­sam­göng­um og loks bætt­um innviðum fyr­ir gang­andi og hjólandi. Unnið yrði út frá því mark­miði að fjölga not­end­um al­menn­ings­sam­gangna en þó gengið út frá þeirri for­sendu að áfram færu flest­ir leiðar sinn­ar á bíl.

Það sem ber að fagna

Sátt­mál­inn tók ný­verið nokkr­um breyt­ing­um eft­ir 17 mánaða end­ur­skoðun­ar­vinnu. Í kjöl­farið var tryggð stór­auk­in fjár­fest­ing
í upp­bygg­ingu
göngu- og hjóla­stíga og öfl­ug­ur stuðning­ur rík­is við rekst­ur al­menn­ings­sam­gangna. Því ber að fagna.

Sátt­mál­inn er jafn­framt fyrsta skrefið í jarðganga­gerð á höfuðborg­ar­svæðinu, en ákveðið hef­ur verið að Mikla­braut fari í göng. Næsta skref verður hugs­an­lega Sunda­braut í göng­um og í fram­hald­inu mætti skoða fleiri tæki­færi til jarðganga­gerðar á Reykja­vík­ur­svæðinu.

Það sem miður fór

Það er ljóst að sátt­mál­inn er fram­fara­skref fyr­ir ná­granna­sveit­ar­fé­lög. Hann fel­ur jafn­framt vissu­lega í sér mörg fram­fara­mál fyr­ir sam­göngu­kerfi borg­ar­inn­ar en ým­is­legt hefði bet­ur mátt fara.

Sam­göngu­vandi borg­ar­inn­ar
er viðvar­andi og vex ár frá ári. Í því ljósi hefði farið bet­ur á því að tryggja for­gangs­röðun verk­efna sem unnið gætu hratt á þeim bráðavanda sem mikl­ar og vax­andi um­ferðartaf­ir valda.

Enn rík­ir jafn­framt tölu­verð óvissa um fjár­mögn­un sátt­mál­ans. Gert er ráð fyr­ir því að alþingi lög­festi heim­ild­ir til álagn­ing­ar flýtigjalda í um­ferðinni eða að tryggð verði önn­ur fjár­mögn­un í tengsl­um við breyt­ing­ar á op­in­berri álagn­ingu á öku­tæki og um­ferð. Eng­in slík lög­gjöf hef­ur litið dags­ins ljós frá inn­leiðingu sátt­mál­ans og virðist samþykkt slíkr­ar lög­gjaf­ar ekki vera í aug­sýn. Má ætla að út­færsla fjár­mögn­un­ar lendi í hönd­um næstu rík­is­stjórna og er óviss­an því gríðarleg.

Ekki tæm­andi lausn

Ekki má líta á sátt­mál­ann sem tæm­andi lausn á sam­göngu­vanda borg­ar­inn­ar. Enn verður mik­il­vægt að hefja sam­tal við at­vinnu­líf og mennta­stofn­an­ir á miðsvæði um breyti­legt upp­haf vinnu­dags og kennslu­dags. Eins mætti nýta bet­ur tæki­fær­in sem fel­ast í fjar­vinnu og fjar­kennslu. Hvort tveggja get­ur haft tölu­verð áhrif við dreif­ingu um­ferðarálags í Reykja­vík.

Enn verður nauðsyn­legt að jafna skipu­lags­halla borg­ar­inn­ar. Um­ferðar­straum­ar liggja til vest­urs að morgni og aust­urs að kvöldi. Með fjölg­un vinnustaða í eystri hverf­um borg­ar­inn­ar mætti ná auknu jafn­vægi á um­ferðar­strauma.

Loks geta mik­il tæki­færi fal­ist í hóf­legri jarðganga­gerð á höfuðborg­ar­svæðinu, en með því að greiða fyr­ir um­ferð neðanj­arðar mætti tryggja mann­vænna og ör­ugg­ara um­hverfi of­anj­arðar. Að auki þarf ávallt að nýta gervi­greind og tækni­fram­far­ir eft­ir fremsta megni við lausn sam­göngu­vand­ans í Reykja­vík.

Val­frelsi og sveigj­an­leiki

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn vill tryggja frelsi og val um fjöl­breytt­ar sam­göng­ur. Einn far­ar­máti á ekki að úti­loka ann­an – framtíðin á að fela í sér val­frelsi og sveigj­an­leika.

Við alla stefnu­mót­un og ákv­arðana­töku um sam­göngu­kerfi borg­ar­inn­ar verður nauðsyn­legt að horfa til framtíðar og tryggja lausn­ir sem þjóna framtíðarkyn­slóðum. En á þeirri veg­ferð má ekki gleyma að ráðast að fyr­ir­liggj­andi bráðavanda – enda eru betri sam­göng­ur lífs­gæðamál þvert á kyn­slóðir.

Reykja­vík­ur­borg þarf að byggja á framtíðar­sýn sem er aðlaðandi fyr­ir fjöl­breytta ald­urs­hópa. Við þurf­um að varðveita sér­kenni okk­ar en gæta þess að þró­ast í takt við aðrar vest­ræn­ar borg­ir – að öðrum kosti verðum við und­ir í sam­keppni um ungt fólk og at­gervi. Reykja­vík þarf að skapa ákjós­an­leg skil­yrði fyr­ir fólk að hefja bú­skap, stofna fjöl­skyldu og leita tæki­færa. Við þurf­um að bjóða lif­andi borg­ar­um­hverfi og fjöl­breytta val­kosti í frjálsu sam­fé­lagi. Það er lífs­gæðamál fyr­ir okk­ur öll.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 5. september 2024.