Hildur Björnsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:
Það er lífsgæðamál að bæta samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Það var því fagnaðarefni þegar samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins var undirritaður árið 2019, en hann tryggði stóraukin framlög til nauðsynlegra samgönguframkvæmda á svæðinu.
Sáttmálinn átti að tryggja breiða fjárfestingu í fjölbreyttum samgöngum. Stærstum hluta fjármagnsins skyldi varið til stofnvegaframkvæmda, því næst skyldi fjárfest í öflugum almenningssamgöngum og loks bættum innviðum fyrir gangandi og hjólandi. Unnið yrði út frá því markmiði að fjölga notendum almenningssamgangna en þó gengið út frá þeirri forsendu að áfram færu flestir leiðar sinnar á bíl.
Það sem ber að fagna
Sáttmálinn tók nýverið nokkrum breytingum eftir 17 mánaða endurskoðunarvinnu. Í kjölfarið var tryggð stóraukin fjárfesting
í uppbyggingu
göngu- og hjólastíga og öflugur stuðningur ríkis við rekstur almenningssamgangna. Því ber að fagna.
Sáttmálinn er jafnframt fyrsta skrefið í jarðgangagerð á höfuðborgarsvæðinu, en ákveðið hefur verið að Miklabraut fari í göng. Næsta skref verður hugsanlega Sundabraut í göngum og í framhaldinu mætti skoða fleiri tækifæri til jarðgangagerðar á Reykjavíkursvæðinu.
Það sem miður fór
Það er ljóst að sáttmálinn er framfaraskref fyrir nágrannasveitarfélög. Hann felur jafnframt vissulega í sér mörg framfaramál fyrir samgöngukerfi borgarinnar en ýmislegt hefði betur mátt fara.
Samgönguvandi borgarinnar
er viðvarandi og vex ár frá ári. Í því ljósi hefði farið betur á því að tryggja forgangsröðun verkefna sem unnið gætu hratt á þeim bráðavanda sem miklar og vaxandi umferðartafir valda.
Enn ríkir jafnframt töluverð óvissa um fjármögnun sáttmálans. Gert er ráð fyrir því að alþingi lögfesti heimildir til álagningar flýtigjalda í umferðinni eða að tryggð verði önnur fjármögnun í tengslum við breytingar á opinberri álagningu á ökutæki og umferð. Engin slík löggjöf hefur litið dagsins ljós frá innleiðingu sáttmálans og virðist samþykkt slíkrar löggjafar ekki vera í augsýn. Má ætla að útfærsla fjármögnunar lendi í höndum næstu ríkisstjórna og er óvissan því gríðarleg.
Ekki tæmandi lausn
Ekki má líta á sáttmálann sem tæmandi lausn á samgönguvanda borgarinnar. Enn verður mikilvægt að hefja samtal við atvinnulíf og menntastofnanir á miðsvæði um breytilegt upphaf vinnudags og kennsludags. Eins mætti nýta betur tækifærin sem felast í fjarvinnu og fjarkennslu. Hvort tveggja getur haft töluverð áhrif við dreifingu umferðarálags í Reykjavík.
Enn verður nauðsynlegt að jafna skipulagshalla borgarinnar. Umferðarstraumar liggja til vesturs að morgni og austurs að kvöldi. Með fjölgun vinnustaða í eystri hverfum borgarinnar mætti ná auknu jafnvægi á umferðarstrauma.
Loks geta mikil tækifæri falist í hóflegri jarðgangagerð á höfuðborgarsvæðinu, en með því að greiða fyrir umferð neðanjarðar mætti tryggja mannvænna og öruggara umhverfi ofanjarðar. Að auki þarf ávallt að nýta gervigreind og tækniframfarir eftir fremsta megni við lausn samgönguvandans í Reykjavík.
Valfrelsi og sveigjanleiki
Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja frelsi og val um fjölbreyttar samgöngur. Einn fararmáti á ekki að útiloka annan – framtíðin á að fela í sér valfrelsi og sveigjanleika.
Við alla stefnumótun og ákvarðanatöku um samgöngukerfi borgarinnar verður nauðsynlegt að horfa til framtíðar og tryggja lausnir sem þjóna framtíðarkynslóðum. En á þeirri vegferð má ekki gleyma að ráðast að fyrirliggjandi bráðavanda – enda eru betri samgöngur lífsgæðamál þvert á kynslóðir.
Reykjavíkurborg þarf að byggja á framtíðarsýn sem er aðlaðandi fyrir fjölbreytta aldurshópa. Við þurfum að varðveita sérkenni okkar en gæta þess að þróast í takt við aðrar vestrænar borgir – að öðrum kosti verðum við undir í samkeppni um ungt fólk og atgervi. Reykjavík þarf að skapa ákjósanleg skilyrði fyrir fólk að hefja búskap, stofna fjölskyldu og leita tækifæra. Við þurfum að bjóða lifandi borgarumhverfi og fjölbreytta valkosti í frjálsu samfélagi. Það er lífsgæðamál fyrir okkur öll.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 5. september 2024.