Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri í Kópavogi:
Eitt brýnasta hagsmunamál heimila í dag er að verðbólga hjaðni og vextir lækki. Það tekst ekki nema jafnvægi náist á húsnæðismarkaði. Öll gögn benda til þess að íbúðaskortur á höfuðborgarsvæðinu sé enn að aukast, sem eykur á vanda sem er ærinn fyrir. Í dag hefur það verið metið að byggja þurfi 5.000 nýjar íbúðir á ári en til samanburðar hafa árlega verið byggðar ríflega 1.280 nýjar íbúðir á síðustu fimmtán árum. Því miður hafa endurtekin áform um metnaðarfulla íbúðauppbyggingu ekki orðið að veruleika.
Íbúðaskorturinn er að valda fimmfalt meiri raunhækkun á verði fasteigna hér á landi en í nágrannalöndum okkar með miklum ruðningsáhrifum á efnahag þjóðarinnar, stóraukinni verðbólgu og viðvarandi háum vöxtum. Ungt barnafólk með meðaltekjur á margt hvert ekki möguleika á að eignast þak yfir höfuðið, fólk á miðjum aldri nær jafnvel ekki að stækka við sig og eldra fólk situr fast í of stórum eignum því úrræði sem hentar því eru ekki í boði. Þetta eru aðstæður sem enginn vill sjá.
Árið 2015 voru hin svokölluðu vaxtarmörk höfuðborgarsvæðisins sett, en þá var pólitísk samstaða meðal sveitarfélaga um að heimila eingöngu uppbyggingu innan þessara marka fram til ársins 2040. Á þeim tíma var gert ráð fyrir að árleg fólksfjölgun yrði 1,1% en raunin er að árleg fjölgun hefur verið að meðaltali 1,9%. Á sama tíma var ekki gert ráð fyrir breyttri aldurssamsetningu þjóðar en hlutfall barnafjölskyldna hefur farið úr því að vera 39% í 27% frá árinu 2015.
Til að mæta vaxandi íbúðaþörf á höfuðborgarsvæðinu þarf Kópavogur að byggja 15 þúsund íbúðir á næstu 15 árum. Innan núverandi vaxtarmarka getur Kópavogur einungis byggt 5.000 íbúðir fram til ársins 2040. Þetta er sorgleg staðreynd, einkum þegar horft er til þess að Kópavogur hefur bæði innviði og burði til að vaxa sem sveitarfélag byggt á sterkum tekjugrunni sveitarfélagsins.
Á þessum forsendum hef ég bent á að ef jafnvægi á að nást á húsnæðismarkaði þarf að endurskoða vaxtarmörk höfuðborgarsvæðisins þannig að unnt sé að byggja á stærra svæði hraðar og hagkvæmar. Öll sveitarfélög þurfa hins vegar að samþykkja slíka endurskoðun, en Reykjavík hefur staðið fast við þéttingarstefnu sína undanfarin ár. Kjósendur gera þó kröfur til pólitískra fulltrúa um að koma fram með lausnir til að mæta áskorunum. Ábyrgð okkar sveitarfélaganna er mikil og við blasir að forsendur frá 2015 eru margbrostnar. Við húsnæðisvandanum þarf að bregðast og ljóst er að áframhaldandi þétting innan núverandi vaxtarmarka mun ekki leysa þann vanda, þó að einhverjir kunni að hafa talið sér trú um slíkt.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. september 2024.