Óli Björn Kárason alþingismaður:
„Hlutverk Sjálfstæðisflokksins er að auka frelsi en ekki opinber umsvif,“ segir í stjórnmálaályktun flokksráðsfundar Sjálfstæðisflokksins sem haldinn var síðastliðinn laugardag. Tæplega 400 sjálfstæðismenn frá landinu öllu voru með skýr skilaboð: „Flokksráð ætlast til að kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins vinni með skipulegum hætti að hagkvæmari nýtingu sameiginlegra fjármuna með aðhaldi, útvistun verkefna, fækkun stofnana og opinberra starfsmanna, sparnaði í stjórnsýslu, sölu opinberra fyrirtækja og fjárfestingu í stafrænni stjórnsýslu og aukinni notkun gervigreindar.“
Flokksráð undirstrikaði mikilvægi þess að ráðherrar og þingmenn flokksins nýti þau tækifæri sem felast í því að ríkisstjórnin sé undir verkstjórn og forsæti Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins. Forgangsverkefnið er að stuðla að lægri verðbólgu og lækkun vaxta: „Það verður aðeins gert með auknu aðhaldi í opinberum fjármálum, hóflegum kjarasamningum á vinnumarkaði og jafnvægi á húsnæðismarkaði. Fátt skiptir meira máli fyrir heimili og fyrirtæki á komandi misserum.“
Aðeins Sjálfstæðisflokkurinn
Í setningarræðu flokksráðsfundarins minnti Bjarni Benediktsson á að enginn annar flokkur en Sjálfstæðisflokkurinn legði áherslu á lækkun skatta. „Skattalækkanir okkar hafa skilið eftir 300 milljarða hjá heimilum og fyrirtækjum. Yfir 60 skattalækkanir á áratug.“
Í hvert skipti sem rætt væri um skattalækkanir væri það viðkvæði vinstriflokka að slíkt væri óábyrgt, verið væri að vannýta skattstofna og afsala sér tekjum. Hófsemd í skattheimtu er ekki til í orðabók vinstrimanna, eins og sá er þetta skrifar hefur ítrekað haldið fram.
Vinstriflokkarnir eru við sama, gamla þreytta heygarðshornið. Fátt breytist, eins og Bjarni Benediktsson benti á: „Samfylkingin boðar, að helstu verkefni stjórnvalda á komandi árum felist í að stórauka útgjöldin og til þess þurfi að hækka skatta. Þau kalla það að fjármagna aðgerðir. Á tyllidögum er rætt um vannýtta tekjustofna. Við skulum hins vegar kalla þetta réttu nafni: skattahækkanir. Gamla góða Samfylkingin – nýtt andlit, sama hugmyndafræði. Þau boða sérstaka aukningu útgjalda um 80 milljarða á ári, varanlega.“
En þarf að auka útgjöld ríkisins? Þarf að hækka skatta? Ættu kjósendur ekki miklu fremur að velta því fyrir sér hvort ríkið hafi ekki nægar tekjur en þurfi að fara betur með þær? Formaður Sjálfstæðisflokksins vill að verkefnin verði hugsuð upp á nýtt. Sumu hætt, annað endurskoðað, tæknin nýtt, afköstin aukin og þjónustan bætt.
Sex sinnum of oft
Skilaboð Bjarna Benediktssonar eru skýr og afdráttarlaus. Sjálfstæðisflokkurinn á að standa fast gegn hugmyndum um aukin ríkisútgjöld og hærri skatta. Það er „einfaldlega sanngjörn krafa að samfélagið allt fái betri þjónustu fyrir þá skatta, sem nú þegar renna til ríkis og sveitarfélaga“.
„Sjálfstæðisflokkurinn mun ávallt leggja áherslu á að atvinnulífið þrífist og dafni og skapi,“ sagði Bjarni í ræðunni en bað alla að muna að vinstrimenn hefðu horn í síðu einkarekstrar – „fólksins úti í samfélaginu sem ekki vinnur hjá ríkinu. Fólksins sem þó á að fjármagna öll ósköpin.“
Málflutningur formanns Sjálfstæðisflokksins er í samræmi við stjórnmálaályktun flokksráðsins, þar sem segir: „Ein af frumskyldum stjórnvalda er að verja og styrkja samkeppnishæfni landsins og tryggja stöðu íslenskra fyrirtækja og launafólks, m.a. með hagstæðu skattaumhverfi og einföldu regluverki. Aðeins þannig er hægt að auka verðmætasköpun, bæta lífskjör og standa undir öflugu velferðarsamfélagi.“
Bjarni bætti við: „Sex sinnum hafa vinstristjórnir verið við völd á Íslandi, frá stofnun lýðveldisins, sem er sex sinnum of mikið. Slíkum stjórnum fylgir að gegndarlaust er gengið á fólk og fyrirtæki, skattlagning, einokun og ríkisafskipti draga mátt úr hagkerfinu og þannig úr tækifærum fólks til að bjarga sér sjálft.“
Sjálfstraust og sjálfsmörk
Forsenda pólitískra landvinninga er pólitískt og hugmyndafræðilegt sjálfstraust. Stjórnmálaflokkur sem byggir á hugmyndafræði og neitar að feykjast líkt og lauf í vindi í leit að stundarvinsældum getur aldrei látið andstæðinga sína eða hælbíta skilgreina stefnuna eða pólitískan árangur.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hélt því fram að allt of lengi „höfum við látið það eftir að leyfa vinstrimönnum að skilgreina okkur. Hver við erum og fyrir hvað við stöndum. Sumir segja að við eigum að vera meiri Viðreisn. Aðrir segja að við eigum að vera meiri Miðflokkur. Ég segi að við eigum að vera miklu meiri Sjálfstæðisflokkur.“
Þótt það sé orðað með öðrum hætti og með fleiri orðum eru skilaboð stjórnmálaályktunar flokksráðsfundarins einföld og í anda Áslaugar Örnu: Við eigum að vera miklu meiri Sjálfstæðisflokkur.
En til að svo megi verða er nauðsynlegt fyrir okkur sem erum kjörnir fulltrúar og annað forystufólk um allt land að taka á málum, hefja öfluga málefnabaráttu og þora að svara pólitískum andstæðingum. Bregðast við hvatningu flokksráðs og formanns um að taka til hendinni með öðrum hætti en að keppast við að skora sjálfsmark, eins og Björn Bjarnason bendir á í dagbókarfærslu.