Drífa Hjartardóttir fyrrverandi alþingismaður og sveitarstjóri Rangárþings ytra er Ingvars P. Guðbjörnssonar í 20. þætti hlaðvarpsþáttaraðar um samofna 95 ára sögu Sjálfstæðisflokksins og 80 ára sögu lýðveldis. Drífa hóf ung afskipti af stjórnmálum. Hún byrjaði sinn feril í sveitarstjórnarpólitíkinni í fræðslumálunum í Rangárvallahreppi og sat þar í sveitarstjórn í 16 ár. Hún var alþingismaður frá 1999-2007 og sveitarstjóri Rangárþings ytra frá 2012-2014. Drífa hefur í gegnum árin sinnt fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Átt sæti í miðstjórn, verið formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna og situr nú í stjórn Samtaka eldri sjálfstæðismanna svo fátt eitt sé nefnt. Í þættinum ræðir hún aðdragandann að því að hún hóf afskipti af stjórnmálum, árin á þingi, í sveitarstjórn og eins sem sveitarstjóri Rangárþings ytra þangað sem hún var ráðin á umbrotatímum í sveitarstjórnarmálunum þar sem meirihluti sprakk á miðju kjörtímabili og hún ráðin í kjölfarið. Hljóðútgáfu af þættinum má nálgast hér.
Drífa segir frá því að sem barn hafi hún hjálpað til við að sendast með bæklinga og fleira í kringum kosningar. En það var ekki fyrr en hún var flutt austur að Keldum á Rangárvöllum og elsti sonur hennar hóf skólagöngu sem hún fór að taka þátt í beinni pólitík.
„Ég var ekki ánægð með skólann þegar elsti strákurinn minn byrjaði í skóla. Ég fór og talaði við Jón Þorgilsson sem þá var sveitarstjóri. Ég var ekki ánægð því drengurinn átti ekki að fá leikfimistíma því hann bjó upp í sveit. Ég fór og barði í borðið og sagðist vilja fá akstur í leikfimi eins og aðrir. Það gekk eftir. Eftir það var ég beðin um að gefa kost á mér sem varamaður til sveitarstjórnar. Þannig byrjaði það. Ég var komin í skólanefnd áður en ég búin að telja upp á tíu. Ég var farin að skipta mér sjálf að skólamálunum. Það er alltaf betra að ganga hreint fram heldur en að vera að rífast við eldhúsbekkinn því þá gerist ekki neitt,“ segir Drífa um sín fyrstu afskipti af pólitíkinni í sinni heimsveit.
Hún tók svo sæti í sveitarstjórn árið 1986 og átti þar sæti allt til 2002 en þá hafði hún tekið sæti á Alþingi þremur árum áður.
Spurð út í sínar áherslur í sveitarstjórn á þessum árum segir hún: „Það voru aðallega skólamálin. Síðan var það hjúkrunarheimilið Lundur. Þar var ég stjórnarformaður í 25 ár. Hætti þegar við vorum búin að byggja við og náði því í gegn. Það gekk ekki þrautalaust en það hafðist. Það er mjög ánægjulegt að hafa komið að því verki. Þetta er einstaklega góð stofnun. Ég segi alltaf að þetta er eins og okkar verksmiðja. Það er aldrei lokað. Unglingarnir okkar hafa getað farið í vinnu á Lundi og farið svo og menntað sig í kjölfarið. Þessi stofnun skiptir okkar sveitarfélag afskaplega miklu máli.“
Hún segir að samstarfið hafi yfirleitt verið gott í sveitarstjórninni. En svo árið 1991 fer hún í prófkjör fyrir alþingiskosningar.
„Það var legið í mér að gefa kost á mér í prófkjör. Ég var þá stödd í Ungverjalandi. Var vakin upp um miðja nótt. Það voru tveir ágætir menn á Selfossi, Sigurður Jónsson og Guðmundur Sigurðsson sem sögðu: „Þú ert að fara í prófkjör Drífa.“ Ég sagðist gera það og þegar ég kom heim var ég komin í prófkjör. Þetta bara gekk vel,“ segir hún um aðdragandann að því að hún fór í prófkjör.
„Þegar ég er varaþingmaður þá var mjög gaman að koma inn. Ég var varaþingmaður fyrir Þorstein Pálsson, Árna Johnsen og Eggert Haukdal þannig að ég fór nokkuð oft inn á þing. Mér fannst mjög skemmtilegt að fara í nefndir. Til dæmis þegar var verið að ræða Hvalfjarðargöngin og hvað það var skemmtilegt að taka þátt í þeirri vinnu og hlusta á fólkið sem hélt að göngin myndu bara hrynja saman um leið. Ég man þegar ég keyrði fyrst í gegnum Hvalfjarðargöngin sagði ég bara: Húrra! Mér fannst þetta svo æðislegt verkefni,“ segir hún um sín fyrstu skref á Alþingi.
Átti gott samstarf við Guðna Ágústsson
Drífa er fyrsta og eina konan sem var formaður landbúnaðarnefndar Alþingis og jafnframt síðasti formaður nefndarinnar áður en nefndaskipan Alþingis var breytt. Af málum á Alþingi nefnir hún fæðingarorlofsmálin sem hafi verið mikið framfaramál.
Af málum úr landbúnaðarnefndinni segir hún: „Þá vorum við með lax- og silungsveiðilögin, jarðalögin og ábúðarlögin. Þetta var mjög skemmtilegt starf. Mér fannst mér takast mjög vel að taka stjórnarandstöðuna að mér í þessu nefndarstarfi. Yfirleitt voru öll mál afgreidd úr landbúnaðarnefnd samhljóða. Það var mjög lítið um að það væru minnihlutaálit.“
Hún segir samstarfið við Guðna Ágústsson hafa verið mjög gott meðan hann var landbúnaðarráðherra.
„Ég hafði mikinn og góðan stuðning af Davíð Oddssyni sem var þá forsætisráðherra og formaður flokksins. Hann studdi mig alltaf í því sem ég var að gera í landbúnaðarnefnd,“ segir hún.
Hún átti einnig sæti í fjárlaganefnd.
„Það var skemmtilegt og lærdómsríkt. Þar er unnið svo mikið og það verður svo náin vinátta. Að vera í fjárlaganefnd þá kynnist þú öllum sveitarstjórnum á landinu, öllum félagasamtökum og öllum ríkisbatteríum. Þetta er einstakur skóli að sitja í fjárlaganefnd,“ segir Drífa.
Spurð út í átakamál í þinginu nefnir hún fjölmiðlalögin og eins Kárahnjúkavirkjun.
Hún segist ánægð með hversu miklum árangri konur hafi náð innan flokksins síðan hún átti sæti á Alþingi.
Drífa lenti í tvígang í því að verða 1. þingmaður Suðurlandskjördæmis og Suðurkjördæmis á miðju kjörtímabili. Í fyrra skiptið þegar Árni Johnsen hætti þingmennsku árið 2001 og aftur þegar Árni Ragnar Árnason féll frá árið 2004.
Eftir þingmennsku varð Drífa formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna árið 2007 og fór að starfa á skrifstofu flokksins í Valhöll.
Hún rifjar upp árin þar og m.a. á tímum Búsáhaldabyltingarinnar.
„Það var þvílíkur atgangur hér. Það var hent málningu upp á gluggann á skrifstofunni minni á 2. hæð. Það var að koma fólk hérna inn alveg snarbrjálað. Við tókum bara vel á móti því, buðum því kaffi og reyndum að róa fólkið. En þetta voru erfiðir tímar og það mæddi mikið á Geir Haarde sem var þá okkar formaður og forsætisráðherra. Hann stóð sig alveg afburða vel,“ segir hún.
Vakin upp um miðjan nótt og ráðin sveitarstjóri
Síðan er það 8. nóvember 2012 sem Drífa fær símtal um miðja nótt og boðið starf sveitarstjóra Rangárþings ytra þegar slitnað hafði upp úr samstarfi Á-listans í Rangárþingi ytra og D-listi sjálfstæðismanna myndaði nýjan meirihluta með einum af fulltrúum Á-listans.
„Ég var vakin upp um miðja nótt af viðmælanda mínum hér,“ segir Drífa og hlær en sá sem tók viðtalið við hana hafði fengið það hlutverk að kanna hvort Drífa væri til í að ráða sig til starfans.
„Það var engin undankoma. Ég fór til framkvæmdastjóra flokksins og sagði að nú yrði ég að fá mig lausa. Hann spurði hvenær og ég sagði bara núna strax. Þetta var að sjálfsögðu auðstótt mál,“ segir hún og í framhaldinu hóf hún störf sem sveitarstjóri.
„Það var rosalega erfitt af því þau voru svo hatröm. Ég hef aldrei kynnst eins mikilli mannvonsku. Ég verð bara að segja það, eins og var hjá þessu fólki sem missti meirihlutann. Þau kunnu ekki að tapa með reisn. Það verður maður alltaf að búa sig undir. Maður sigrar ekki allar orustur og ef maður tapar þá tapar maður með reisn. Ég fékk heldur betur að finna fyrir því,“ rifjar hún upp um tímann sem hún var sveitarstjóri.
„Þetta voru miklir átakatímar. Maður fékk engan frið. Það var verið að hringja í mig af þessu fólki hvenær sem var. Ég var að fá tölvupósta fram að miðnætti. Það var endalaust,“ segir hún.
Rætt var um fjárhag sveitarfélagsins sem var erfiður á þessum tíma.
„Hann var náttúrulega alveg í klessu þegar við tökum við. Við unnum úr því. Ég og meirihlutinn. Við settum á ráðningabann. Síðan var boðið út allt sem hægt var að bjóða út og reynt að spara eins og hægt var. Við náðum jafnvægi sem var til góða þegar næsta sveitarstjórn tók við,“ segir hún.
Aldrei getað þetta nema vegna stuðnings eiginmannsins
Spurð að því að hverju hún sé stoltust segir hún: „Ég er kannski stoltust af verkunum mínum heima. Það er skólinn og það er Lundur. Það er það sem mér þykir einna vænst um. Síðan bara að kynnast öllu þessu góða fólki í Sjálfstæðisflokknum. Fara á landsfundi og finna að þetta er ein stór fjölskylda, mörg þúsund manna fjölskylda. Maður á vini um allt land. Þessi vinátta og kærleikur skiptir miklu máli.“
Þá segist Drífa aldrei hafa getað gert allt það sem hún hefur áorkað nema af því að hún átti góðan eiginmann sem alltaf stóð við bakið á henni og hvatti hana áfram. Drífa var gift Skúla Lýðssyni bónda á Keldum á Rangárvöllum sem féll frá árið 2021.
Drífa var spurð að því hvaða ráð hún myndi gefa ungum konum sem væru að hugsa um að taka þátt í stjórnmálum og sagði: „Vera óhræddar. Gefa kost á sér og ekkert vera hræddar við að taka þátt í prófkjöri eða neinu því annar hvort vinnur þú eða tapar – en þú hefur allt að vinna. Bara gera það á þínum eigin verðleikum og þinni eigin hugsjón. Láta hjartað ráða, það skiptir miklu máli.“
Þáttinn á Spotify má finna hér.