Stjórnmálaályktun flokksráðsfundar
'}}

Stjórnmálaályktun flokksráðsfundar Sjálfstæðisflokksins 2024 sem haldinn var á Hilton Reykjavík Nordica 31. ágúst 2024:

Við endurnýjun ríkisstjórnarsamstarfsins undir forsæti Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, voru sameiginlegar áherslur stjórnarflokkanna til loka kjörtímabilsins áréttaðar. Mikilvægt er að ráðherrar og þingmenn flokksins nýti þau tækifæri sem felast í  því að ríkisstjórnin sé undir verkstjórn Sjálfstæðisflokksins.

Verulegur árangur hefur náðst í mikilvægum málum. Þýðingarmiklar breytingar á útlendingalögum voru samþykktar, ný lög um tryggingakerfi öryrkja náðu fram að ganga, almannaöryggi var styrkt með breytingum á lögreglulögum, sókn hófst í orkumálum, fæðingarorlofsgreiðslur hækkaðar, sköpuð hagstæð umgjörð fyrir fjölbreytta nýsköpun í atvinnulífinu og ákveðið að selja eignarhluti ríkisins í Íslandsbanka að fullu.

Forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar er að stuðla að lægri  verðbólgu og lækkun vaxta. Það verður aðeins gert með auknu aðhaldi í opinberum fjármálum, hóflegum kjarasamningum á vinnumarkaði og jafnvægi á húsnæðismarkaði. Fátt skiptir meira máli fyrir heimili og fyrirtæki á komandi misserum. Bregðast verður hratt og örugglega við framboðsskorti á húsnæðismarkaði með því að stuðla að auknu framboði lóða, m.a. með stækkun á vaxtarmörkum höfuðborgarsvæðisins og einföldun laga og reglna um byggingar.

Hlutverk Sjálfstæðisflokksins er að auka frelsi en ekki opinber umsvif. Flokksráð ætlast til að kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins vinni með skipulegum hætti að hagkvæmari nýtingu sameiginlegra fjármuna með aðhaldi, útvistun verkefna, fækkun stofnana og opinberra starfsmanna, sparnaði í stjórnsýslu, sölu opinberra fyrirtækja og fjárfestingu í stafrænni stjórnsýslu og aukinni notkun gervigreindar.

Mikilvæg skref hafa verið stigin til að ná betri stjórn á landamærunum og koma böndum á kostnað vegna hælisleitenda. Flokksráð fagnar því að dómsmálaráðherra boði enn frekari breytingar á útlendingalögum og ítrekar nauðsyn þess að löggjöfin sé endurskoðuð frá grunni og að felldar verði úr gildi allar íslenskar sérreglur. Í því felst meðal annars að koma upp búsetuúrræðum með takmörkunum og afturköllunverndar við brot gegn hegningarlögum. Styrkja þarf almannaöryggi með frekari breytingum á lögreglulögum og eflingu löggæslu.

Ísland er og á að vera í fremstu röð þjóða í umhverfismálum,orkuskiptum og baráttu gegn loftslagsvá. Þar skiptir sköpum að virkja hugvit, nýsköpun og framtak einstaklinga svo ná megi árangri. Hlutfall endurnýjanlegrar orku af orkunotkun er með því hæsta í heimi og því þarf að endurskoða  skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum og verja íslenska hagsmuni.

Án tryggrar orku er grafið undan lífskjörum. Raforkuöryggi er forsenda atvinnu- og verðmætasköpunar. Vinna verður markvisst að aukinni orkuframleiðslu í sátt við nærsamfélagið, einfalda þarf leyfisferla, ryðja úr vegi hindrunum og fjölga kostum við græna orkuöflun. Regluverk stjórnsýslunnar, umgjörð skipulagsmála og aðgerðir í skjóli rammaáætlunar mega ekki koma í veg fyrir framkvæmdir við virkjanakosti í nýtingarflokki.

Ein af frumskyldum stjórnvalda er að verja og styrkja samkeppnishæfni landsins og tryggja stöðu íslenskra fyrirtækja og launafólks, m.a. með hagstæðu skattaumhverfi og einföldu regluverki. Aðeins þannig er hægt að auka verðmætasköpun, bæta lífskjör og standa undir öfluguvelferðarsamfélagi.

Ráðast verður í stórátak til að bæta samgöngur og auka öryggi um land allt með skilvirkni og hagkvæmni að leiðarljósi. Gjöld af umferð til að fjármagna samgöngumannvirki skulu miðast við notkun, samhliða niðurfellingu vörugjalda af bifreiðum og eldsneyti. Flokksráð undirstrikar mikilvægi þess að við framkvæmd samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins verði verkefnum forgangsraðað til að vinna hratt á þeim bráðavanda sem miklar og vaxandi umferðatafir valda og tryggja að arðsemi ráði forgangsröðun. Setja skal lagningu Sundabrautar í forgang.

Jöfn tækifæri eru best tryggð með öflugu menntakerfi þar sem allir hafa jafnt aðgengi óháð efnahag, búsetu eða bakgrunni. Mikilvægt er að endurskoða skipulag grunnskólans sem grunnstoð menntunar. Flokksráð skorar á þingmenn að tryggja samræmdar, skýrar og gagnsæjar reglur um próf, námsmat og aðgang að gögnum sem sýna stöðu einstakra skóla innan heildarinnar. Góður árangur við sameiningu og breyttafjármögnun háskóla hefur náðst og skal haldið áfram á þeirri vegferð.

Flokksráð fagnar þeim breytingum sem sveitarfélög undir forystu Sjálfstæðisflokksins hafa gert á skipulagi leikskóla til að fullmanna leikskóla og tryggja fleiri börnum leikskólapláss. Þjónusta leikskóla er jafnréttismál og ein grunnstoð jafnræðis á vinnumarkaði. Borgarstjórn Reykjavíkur er hvött til að taka önnur sveitarfélög sér til fyrirmyndar við lausn á alvarlegum mönnunarvanda sem skapast hefur vegna fyrirhyggjuleysis á síðustu áratugum.

Sjúkratryggingum skal gert skylt að semja við einkareknar heilsugæslustöðvar á sömu forsendum og samið er við opinberar heilsugæslustöðvar. Opinber kaup á sérhæfðri heilbrigðisþjónustu eiga að taka mið af hagkvæmni og gæðum fyrir notendur, óháð rekstrarformi þjónustuveitenda. Mikilvægt er að tryggja velferð þeirra sem búa við langvinna sjúkdóma og fötlun.

Virða á sjálfsákvörðunarrétt eldra fólks og tryggja fjárhagslegt sjálfstæði. Öldrunarþjónusta á að miðast við þarfir hvers og eins. Fjölga þarf hjúkrunarrýmum og þjónustuíbúðum og auka  fjölbreytileika í búsetuformum. Flokksráð ítrekar stefnu Sjálfstæðisflokksins um að innleiða nýtt fyrirkomulag ellilífeyris almannatrygginga og aðskilja að fullu málefni aldraðra og öryrkja. Auka verður svigrúm til atvinnuþátttöku án skerðinga ellilífeyris Tryggingastofnunar.

***

Á þessu ári eru 80 ár liðin frá því að lýðveldið var stofnað. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið máttarstoð í þjóðlífinu og leiðandi í að móta gróskumikið samfélag þar sem atvinnustarfsemi, nýsköpun, mennta- og menningarlíf blómstra samhliða góðum efnahag, öflugri heilbrigðisþjónustu og félagslegu öryggi borgaranna.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft forystu um mótun þeirrar stefnu í utanríkis- og varnarmálum sem tryggt hefur öryggi og sess Íslands meðal lýðræðisþjóða.

Sjálfstæðisflokkurinn stendur nú sem áður vörð um þau grunngildi sem lágu að baki stofnun hans; frelsi og framtakieinstaklinga, eignarrétti, jöfnum tækifærum og velferð fyrir alla samhliða virðingu fyrir lögum og rétti, bæði innan ríkis og í samskiptum ríkja.