Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins í dag er ætlað að leggja drög að áherslum á komandi þingvetri og fram að kosningum. Fundurinn er haldinn í skugga þess að flokkurinn mælist með minna fylgi í skoðanakönnunum en áður hefur þekkst. Því er brýnt að flokksráðsfulltrúar stingi ekki höfðinu í sandinn, heldur líti á fundinn sem kærkomið tækifæri til að horfast í augu við stöðu flokksins. Ræða þarf leiðir til úrbóta af hreinskilni og hispursleysi.
Ein helsta ástæða þess að Sjálfstæðisflokknum auðnaðist að verða stærsta stjórnmálahreyfing þjóðarinnar er sú grundvallarstefna að fara eigi vel með skattfé og að álögum á almenning skuli haldið í lágmarki. Flokkurinn ávann sér þannig trúverðugleika sem brjóstvörn skattgreiðenda gegn vinstriflokkum, sem börðust fyrir útþenslu hins opinbera og stóraukinni skattheimtu.
Vikið frá meginstefnu
Viðurkenna verður að flokknum hefur ekki gengið nógu vel að fylgja þessari grundvallarstefnu eftir á undanförnum árum og áratugum. Undanfarin tvö kjörtímabil hefur flokkurinn átt aðild að ríkisstjórn, sem staðið hefur að útþenslu ríkisbáknsins og gegndarlausri opinberri fjárfestingu. Skattgreiðendur eru því að sligast undan kostnaði við að reka of dýrt og flókið stofnanakerfi með allt of mörgum starfsmönnum.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur þurft að gera margar málamiðlanir í núverandi stjórnarsamstarfi. Ekki er launungarmál að flestir aðrir stjórnmálaflokkar, t.d. Vinstri-græn og Framsóknarflokkurinn, vilja auka opinber útgjöld enn frekar og hækka þannig skatta. Þessi stefna verður hvað mest áberandi í aðdraganda kosninga, þegar ráðherrar í fallhættu koma með nýjar en ófjármagnaðar útgjaldahugmyndir á færibandi.
Stjórnarsamstarfið er ekki án fórna en halda verður þeirri staðreynd til haga að það hefur að mörgu leyti verið nauðsynlegt í því skyni að forða landsmönnum frá pólitískri upplausn. Eftir tvennar undanfarnar alþingiskosningar stóð valið á milli þriggja flokka stjórnar með aðild Sjálfstæðisflokks eða fimm til sex flokka vinstristjórnar. Sjálfstæðisflokkurinn kaus að axla ábyrgð og leggja sitt af mörkum til að unnt væri að mynda starfhæfa ríkisstjórn.
Áðurnefndar málamiðlanir eiga sinn þátt í því að flokkurinn hefur misst mikið fylgi í skoðanakönnunum. Aðrir flokkar skynja að vegna þess er geysimikið tómarúm á hægri vængnum, sem þeir leitast nú við að fylla.
Ekki má heldur gleyma því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur náð ýmsum árangri við að létta skattbyrði. Án margvíslegra skattalækkana og afnáms tolla undanfarinn áratug hefðu landsmenn greitt um 700 milljörðum króna hærri skatta en ella undanfarinn áratug.
Skattastöðvun er skynsamleg
Staðan er samt sú að skattbyrði Íslendinga er orðin afar þung og hin næstmesta meðal OECD-ríkja. Þá hafa heildarútgjöld hins opinbera vaxið mjög hérlendis og eru nú sennilega hæst innan OECD, þegar varnarmál og lífeyrismál eru undanskilin.
Nú þarf Sjálfstæðisflokkurinn að setja fram skýra og trúverðuga stefnu um hvernig lífskjör landsmanna verði sem best tryggð og bætt á komandi árum. Koma þarf í veg fyrir þær skattahækkanir, sem óhjákvæmilegar verða, ef yfirgengilegar útgjaldahugmyndir vinstriflokkanna verða að veruleika. Sjálfstæðisflokkurinn á því að gefa skýrt loforð um að skattar muni ekki hækka frekar undir hans stjórn. Fyrirmynd í þessu efni gæti verið svonefnt skattastopp, sem borgaraflokkarnir í Danmörku beittu sér fyrir á árunum 2001-2009, með góðum árangri.
Eltum ekki eyðslumálin
Í komandi kosningabaráttu dugir ekki að Sjálfstæðisflokkurinn haldi áfram að elta vinstriflokkana og gera eyðslumál þeirra að sínum. Dæmi um þetta er svonefndur samgöngusáttmáli, sem er ófjármagnaður en hugmyndin er þó sú að leggja viðbótarskatta á Reykvíkinga vegna hans. Sáttmálinn felur í sér enn frekari tafir á úrbótum í samgöngumálum í Reykjavík og ljóst er að mörg verkefni hans eru of flókin og verða skattgreiðendum dýr.
Fyrir komandi kosningar á Sjálfstæðisflokkurinn að setja fram skýrt erindi um hvernig hann hyggst auðvelda og bæta daglegt líf fólks. Það verður ekki gert með ábyrgðarlausum loforðum um stóraukin opinber útgjöld, sem velt verður yfir á almenning.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 31. ágúst 2024.