Verst af öllu að þvælast fyrir

Ásmundur Friðriksson alþingismaður:

Har­ald­ur Þór Jóns­son odd­viti Skeiða- og Gnúp­verja­hrepps skrif­ar í Skoðun á Vísi um orku­mál og skarðan hlut sveit­ar­fé­laga þegar kem­ur að hlut­deild þeirra af tekj­um í orku­starf­semi. Þar er ég al­gjör­lega sam­mála Har­aldi Þór og það er skamm­ar­legt að sveit­ar­fé­lög­in fái litl­ar sem eng­ar tekj­ur af orku­starf­semi og mann­virkj­um tengd­um orku­öfl­un og -flutn­ingi. Þar er við ráðuneyti og Alþingi að sak­ast og reyni ég ekki að verja ára­tuga­langa þögn okk­ar sem ber­um ábyrgð á því, eða þann seina­gang sem á síðustu mánuðum hef­ur verið á því að koma mál­inu í höfn. Nú er mál að linni og að ljúka því á næsta þingi.

Byrjuðu að moka

En það er ann­ar hlut­ur sem okk­ar góði sveit­ar­stjóri bend­ir ít­rekað á, en það er hvar ork­an er fram­leidd og hver nýt­ir hana og skap­ar af henni verðmæti fyr­ir þjóðarbúið. Hann tel­ur jafn­vel að fólkið hans og sveit­ung­ar í ná­grenn­inu viti ekki hvað verður um ork­una sem fram­leidd er í hans sveit­ar­fé­lagi eða næsta ná­grenni. Á 12 ára þing­ferli hef ég á fjölda funda, í blaðagrein­um og á ráðstefnu sem ég var for­svarsmaður fyr­ir ásamt Vil­hjálmi Árna­syni alþing­is­manni bent á mögu­leik­ana á nýt­ingu ork­unn­ar í héraði. Fjöl­menn ráðstefna á Hót­el Sel­fossi var ein­mitt brýn­ing fyr­ir sveit­ar­stjórn­ar­menn og at­vinnu­lífið á Suður­landi að vinna sam­an að verk­efn­um til að nýta ork­una í héraði. Skipu­leggja sam­eig­in­leg at­vinnusvæði, þar sem byggja mætti upp orku­freka græna starf­semi og skipta tekj­um af henni á milli sveit­ar­fé­laga, t.d. eft­ir íbúa­fjölda. Það er eins og eng­ir hafi hlustað á ábend­ing­ar sem komu fram á ráðstefn­unni, nema sveit­ar­stjórn­ar­menn í Ölfusi. Þeir voru alla vega þeir einu á Suður­landi sem voru klár­ir með skipu­lag og vilja til að taka á móti tæki­fær­un­um þegar þau komu. Það hef­ur verið æv­in­týri að fylgj­ast með þeirri upp­bygg­ingu og hafa fengið að leggja því lið, en þó aðallega með því að koma í veg fyr­ir að lög­gjaf­inn þvæl­ist fyr­ir. Árvekni þeirra og áhugi í Ölfusi fyr­ir tæki­fær­inu kom í veg fyr­ir umkvört­un­ar­hjal þeirra og bið eft­ir því að aðrir tækju upp skófl­una og byrjuðu að moka. Í því sam­bandi rifjast upp fund­ur með bænd­um, sem vildu reisa sam­eig­in­lega birgðastöð öll­um til hags­bóta. Það verk­efni þagnaði þegar fund­in­um lauk og kannski bíða fund­ar­menn enn eft­ir því að aðrir ljúki mál­inu fyr­ir þá. Það er ef til vill ósann­gjarnt að nefna þessi dæmi í sömu andrá, en skila­boðin eru að það þarf leiðtoga og dugnað til að hrinda verk­efn­um í höfn en ekki að bíða eft­ir öðrum að láta sína eig­in drauma ræt­ast. Verst af öllu er þó að þvæl­ast fyr­ir.

Straum­ur tæki­fær­anna renn­ur hjá glugg­an­um

Ég átti mér þann draum að verða sveit­ar­stjóri í fal­legri sveit þar sem ég fengi út­rás fyr­ir fram­kvæmdagleðina og auðlind­ir sam­fé­lags­ins yrðu drif­kraft­ur nýrra tæki­færa. Að skapa fjöl­breytt og vel launuð störf, sem alltaf vant­ar og kallað er eft­ir. Ég hefði ekki unnt mér hvíld­ar fyrr en slíkt verk­efni væri komið á kopp­inn, eins og land­eldi á laxi. Ég hefði ekki staðið í glugg­an­um og öf­undast út í þá í Eyj­um að nýta sam­eig­in­lega orku til upp­bygg­ing­ar á at­vinnu­lífi sem skap­ar hundrað störf og þre­fald­ar verðmæti sjáv­ar­út­vegs­ins í Vest­manna­eyj­um. Á því mun þjóðin græða og rík­iskass­inn fær aukna getu til að sinna þörf­um heil­brigðis- og vega­kerf­is um land allt. Er lík­legt að rif­ist verði um hvaðan pen­ing­arn­ir koma þegar þeim verður út­deilt af Alþingi, svo þeir nýt­ist þjóðinni sem best. Þá held ég að eng­inn standi í glugg­an­um og hafi samúð með Eyja­mönn­um sem fá jafn­an minna til baka en þeir leggja til í sam­eig­in­leg­an rík­is­sjóð.

Ég er sam­mála Har­aldi Þór um að fólkið í sveit­inni eigi að bera meira úr být­um af orku­starf­sem­inni, því eng­ar fram­kvæmd­ir verða án kostnaðar fyr­ir um­hverfið. Ég er líka þeirr­ar skoðunar að hann eigi að þvæl­ast sem minnst fyr­ir þeim lög­legu niður­stöðum sem liggja fyr­ir vegna um­sókna um upp­bygg­ingu orku­mann­virkja í öðrum sveit­ar­fé­lög­um. Straum­ur tæki­fær­anna renn­ur enn ónýtt­ur fram hjá glugg­an­um hans.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 26. ágúst 2024.