Römm er sú taug
'}}

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra:

Ég naut þess heiðurs í byrj­un mánaðar­ins að vera heiðurs­gest­ur á Íslend­inga­hátíðum í Mountain í Norður-Dakóta í Banda­ríkj­un­um og í Gimli í Manitoba­fylki í Kan­ada.

Ég, eins og marg­ir aðrir Íslend­ing­ar, hef átt mér þann draum að heim­sækja þess­ar slóðir og kynn­ast af eig­in raun þeim staðhátt­um og sam­fé­lagi sem Íslend­ing­ar völdu sér sem ný heim­kynni eft­ir að hafa flust frá Íslandi á erfiðum tím­um hér á landi.

Ég held ég geti talað fyr­ir munn flestra sem heim­sótt hafa þess­ar slóðir að það er lífs­reynsla sem aldrei gleym­ist. Það er ólýs­an­legt að finna gest­risn­ina, þjóðrækn­ina og þrána eft­ir að halda í hina ís­lensku taug.

Seinni hluta nítj­ándu ald­ar lögðust kuldi, haf­ís og ösku­fall úr iðrum jarðar af mikl­um þunga á ís­lenska þjóð. Svo illa vildi til að fólks­fjölg­un var á þess­um sama tíma um­fram það sem landið gat borið og þegar nátt­úru­ham­far­ir bætt­ust ofan á neyðina skapaðist svo mikið upp­lausn­ar­ástand að áður en yfir lauk stigu um 20% þjóðar­inn­ar um borð í ókunn­ugt skip og sigldu til ókunnr­ar heims­álfu í leit að betra lífi.

Aðeins hluti ís­lensku land­nem­anna komst óskaddaður á leiðar­enda og land­tak­an reynd­ist sum­um gríðarlega erfið. Við tók strembið verk­efni að læra á nýja landið, skapa nytj­ar með nýju lagi og skilja veðrið.

Það var búið að slíta upp ræt­urn­ar og reið nú á að finna nýj­an svörð til að binda sig við. Á öll­um tím­um skipt­ir það mestu máli að mann­eskj­ur al­heims­ins upp­lifi að þær séu ekki ey­land. Það er göm­ul saga og ný.

Þessi reynsla lif­ir kyn­slóð fram af kyn­slóð.

Á hverju ári kem­ur fólk sam­an til að fagna Íslend­inga­deg­in­um í Vest­ur­heimi. Fólk kem­ur sam­an til að fagna rót­un­um, upp­run­an­um og sam­eig­in­legri sögu sem hef­ur snú­ist úr níst­andi fá­tækt og harmi yfir í gnægð og gleði.

„Þjóðrækni snýst um umb­urðarlyndi, víðsýni og ná­ungakær­leik,“ sagði Guðni Th. Jó­hann­es­son, fyrr­ver­andi for­seti Íslands, í ræðu eitt sinn sem hann flutti í Kan­ada. Hann minnti á að frænd­rækni er að vilja vita um hagi ætt­fólks síns, sinn­ar eig­in fjöl­skyldu. Frænd­rækni er lofs­verð. Þjóðrækni snýst um umb­urðarlyndi, víðsýni og ná­ungakær­leik.

Fyr­ir smáríki eins og úfnu eld­fjalla­eyj­una Ísland sem skag­ar upp úr Norður­sjón­um má segja það eins og það er að okk­ur Íslend­ing­um finnst magnað að til sé hóp­ur ann­ars fólks á öðru svæði sem sam­sam­ar sig okk­ur og held­ur í heiðri ís­lenska arf­leifð í Norður-Ameriku. Það er mik­il­vægt að þessi tengsl rofni ekki og því eig­um að gera enn meira af því að byggja brýr á milli gamla og nýja Íslands.

Mig lang­ar að enda orð mín á nokkr­um ljóðlín­um eft­ir Kletta­fjalla­skáldið Steph­an G. Stephans­son sem ekki þarf að hafa mörg orð um en lýsa þó karakt­er­ein­kenn­um okk­ar Íslend­inga sem mér finnst góð áminn­ing um hvernig arf­leifð eyju elds og íss hef­ur mótað okk­ur Íslend­inga í gegn­um ald­irn­ar:

Þó þú lang­förull legðir

sér­hvert land und­ir fót,

bera hug­ur og hjarta

samt þíns heima­lands mót.

Á morg­un fagn­ar Þjóðrækn­is­fé­lagið 85 ára af­mæli en fé­lagið var stofnað árið 1939 með það að mark­miði að efla sam­skipti og sam­vinnu Íslend­inga og Vest­ur-Íslend­inga. Ég hvet sem flesta til að koma og fagna þess­um tíma­mót­um á Hót­el Natura kl. 14 á morg­un.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. ágúst 2024.