Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Upplýst hefur verið að áætlaður heildarkostnaður svonefnds samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins standi nú í 311 milljörðum króna. Þegar sáttmálinn var undirritaður árið 2019 var áætlað að heildarkostnaður við verkefnið yrði um 160 milljarðar. Þetta er gífurleg hækkun og komið er á daginn að kostnaðaráætlanir sáttmálans hafa flestar verið stórlega vanmetnar.
Mörg verkefni sáttmálans eru enn á frumstigi og því má gera ráð fyrir að kostnaðurinn verði enn hærri en nýjustu kostnaðaráætlanir sýna. Reynslan sýnir að slík verkefni hafa tilhneigingu til að fara langt fram úr upphaflegum áætlunum á síðari stigum hönnunar, sem og á framkvæmdatíma. Til dæmis var áætlað að Sæbrautarstokkur myndi kosta þrjá milljarða króna en sú kostnaðaráætlun hefur nífaldast og frumdrög hljóða upp á 27 milljarða.
Innan vébanda samgöngusáttmálans má vissulega finna arðbæra vegagerð og þarfar stígaframkvæmdir sem eiga fullan rétt á sér. Óviðunandi væri hins vegar að velta gífurlegum viðbótarkostnaði vegna samgöngusáttmálans sjálfkrafa yfir á herðar skattgreiðenda. Þess í stað verður að endurskoða verkefni sáttmálans og meta hvort þau séu öll nauðsynleg. Þá þarf að meta hvort einstökum markmiðum sáttmálans sé hægt að ná með einfaldari og hagkvæmari hætti en nú er stefnt að.
Mikilvæg verkefni tafin
Við undirritun sáttmálans árið 2019 var lagt upp með ákveðin forgangsverkefni, m.a. að sem fyrst yrði ráðist í markvissar aðgerðir til að bæta umferðarljósastýringu, sem og gerð mislægra gatnamóta við Reykjanesbraut og Bústaðaveg. Vinstri meirihlutinn í Reykjavík hefur hins vegar ekki staðið við þessa forgangsröðun og nú er útlit fyrir að þessi verkefni tefjist enn frekar.
Ljóst er að framkvæmdahluti borgarlínu mun ekki kosta undir 130 milljörðum króna og á þá eftir að reikna með rekstrarkostnaði, sem mun nema mörgum milljörðum árlega. Efla þarf almenningssamgöngur en allt bendir til þess að fyrirliggjandi útfærsla borgarlínu séu of flókin og dýr. Í stað þess að ráðast í gífurlegan kostnað við að miðjusetja forgangsakreinar strætisvagna væri mun hagkvæmara að byggja á því kerfi forgangsakreina, sem nú þegar er fyrir hendi, og hafa þær áfram hliðarsettar.
Almenningssamgöngur verði efldar strax
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað lagt til að ráðist verði í markvissar aðgerðir til að bæta almenningssamgöngur í Reykjavík. Flestar þessar aðgerðir kosta aðeins brot af fyrirhuguðum kostnaði við borgarlínu. Hægt er að ráðast í þessar aðgerðir án tafar og bæta þjónustuna þannig strax með hagkvæmum og skilvirkum hætti, óháð framvindu borgarlínu, sem óljóst er hvenær verður að veruleika. Aðgerðirnar felast m.a. í tafarlausri lagningu forgangsakreina fyrir strætisvagna, forgangi strætó á umferðarljósum, umbótum á biðstöðvum og skiptistöðvum, úrbótum á greiðslukerfi, endurnýjun vagnaflota og endurbótum á leiðakerfinu.
Skattgreiðendur gjalda
Horfast verður í augu við þann veruleika að svo dýrt opinbert verkefni verður ekki fjármagnað öðruvísi en með því að senda almenningi reikninginn með einhverjum hætti.
Milton Friedman, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, benti á að til að átta sig á raunverulegri skattheimtu væri best að líta á útgjöld hins opinbera. Það kæmi alltaf í hlut almennings að greiða þessi útgjöld, annaðhvort beint með sköttum eða óbeint í formi verðbólgu eða skuldasöfnunar hins opinbera.
Enn er óljóst hvernig mikil viðbótarútgjöld vegna „samgöngusáttmálans“ verða fjármögnuð. Áður en lengra er haldið þarf að upplýsa almenning um það með skýrum hætti hvernig að þeirri fjármögnun verður staðið.
Hugmyndir hafa verið uppi um að fjármagna framkvæmdir við borgarlínu með nýrri skattlagningu, sérstökum veggjöldum á höfuðborgarbúa, sem nú þegar greiða einhverja hæstu bensín- og bílaskatta í heimi. Ef þannig verður staðið að málum hefði sáttmálinn stóraukna skattbyrði í för með sér fyrir borgarbúa. Ljóst er að engin sátt næðist um slíka skattahækkun.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. ágúst 2024.