Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:
Fyrir ári skrifaði ég grein í Morgunblaðið um regluverkið sem enginn bað um en hún fjallaði um gullhúðun við innleiðingu á regluverki Evrópusambandsins. Of oft hefur það gerst að við innleiðingu regluverks hefur verið gengið lengra en lágmarkskröfur gera ráð fyrir, oft án vitneskju löggjafarvaldsins.
Flókið regluverk eykur skriffinnsku, afgreiðslutíma og kostnað samfélagsins. Fámenn þjóð á að leggja áherslu á einfalt regluverk.
Í vikunni kynnti ég vinnu við greiningu á gullhúðun á EES-gerðum á málefnasviði ráðuneytisins sem snýst um að nota gervigreind til að greina gullhúðun á gildandi löggjöf og forgangsraða eftir áhrifum án þess að kosta til fjölda vinnustunda starfsmanna. Það þarf ekki að vera dýrt að spara mikið og mikilvægt að skoða núverandi lagabálka en ekki bara gæta að gullhúðun í nýrri löggjöf.
Það er mikið framfaraskref að nýta gervigreind með markvissum hætti hjá hinu opinbera. Þetta sparar bæði tíma og fjármuni.
Ráðuneyti mitt hefur þegar hafið þessa endurskoðun innan ráðuneytisins og má þar sem dæmi nefna laga- og regluumhverfi fjarskiptafyrirtækja. Aðgerðin er hluti af fyrstu aðgerðaáætlun Íslands í málefnum gervigreindar sem ég mun kynna síðar í haust.
Við þurfum ekki að finna upp hjólið. Fyrirmyndin er að einhverju leyti sótt til Ohio-ríkis þar sem gervigreind var notuð til þess að greina óþarfar og úreltar reglur í gildandi löggjöf. Áætlað er að Ohio-ríki eigi eftir að spara um 58 þúsund vinnustundir á næsta áratug einungis með því að taka út íþyngjandi kröfur í regluverki sínu.
Þar er á ábyrgð okkar stjórnmálamanna að hugsa hvernig við förum sem best með fjármuni. Við eigum að hugsa í lausnum, ekki bara vandamálum – og alls ekki í sífelldum auknum útgjöldum. Ég er bjartsýn á vinnuna fram undan og bind vonir við að fleiri ráðuneyti geti notfært sér þessa lausn, sem skapar grundvöll fyrir einfaldara og skilvirkara regluverki og leysir krafta úr læðingi í íslensku samfélagi.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. ágúst 2024.