Gervigreind gegn gullhúðun
'}}

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Fyr­ir ári skrifaði ég grein í Morg­un­blaðið um reglu­verkið sem eng­inn bað um en hún fjallaði um gull­húðun við inn­leiðingu á reglu­verki Evr­ópu­sam­bands­ins. Of oft hef­ur það gerst að við inn­leiðingu reglu­verks hef­ur verið gengið lengra en lág­marks­kröf­ur gera ráð fyr­ir, oft án vitn­eskju lög­gjaf­ar­valds­ins.

Flókið reglu­verk eyk­ur skriffinnsku, af­greiðslu­tíma og kostnað sam­fé­lags­ins. Fá­menn þjóð á að leggja áherslu á ein­falt reglu­verk.

Í vik­unni kynnti ég vinnu við grein­ingu á gull­húðun á EES-gerðum á mál­efna­sviði ráðuneyt­is­ins sem snýst um að nota gervi­greind til að greina gull­húðun á gild­andi lög­gjöf og for­gangsraða eft­ir áhrif­um án þess að kosta til fjölda vinnu­stunda starfs­manna. Það þarf ekki að vera dýrt að spara mikið og mik­il­vægt að skoða nú­ver­andi laga­bálka en ekki bara gæta að gull­húðun í nýrri lög­gjöf.

Það er mikið fram­fara­skref að nýta gervi­greind með mark­viss­um hætti hjá hinu op­in­bera. Þetta spar­ar bæði tíma og fjár­muni.

Ráðuneyti mitt hef­ur þegar hafið þessa end­ur­skoðun inn­an ráðuneyt­is­ins og má þar sem dæmi nefna laga- og reglu­um­hverfi fjar­skipta­fyr­ir­tækja. Aðgerðin er hluti af fyrstu aðgerðaáætl­un Íslands í mál­efn­um gervi­greind­ar sem ég mun kynna síðar í haust.

Við þurf­um ekki að finna upp hjólið. Fyr­ir­mynd­in er að ein­hverju leyti sótt til Ohio-rík­is þar sem gervi­greind var notuð til þess að greina óþarfar og úr­elt­ar regl­ur í gild­andi lög­gjöf. Áætlað er að Ohio-ríki eigi eft­ir að spara um 58 þúsund vinnu­stund­ir á næsta ára­tug ein­ung­is með því að taka út íþyngj­andi kröf­ur í reglu­verki sínu.

Þar er á ábyrgð okk­ar stjórn­mála­manna að hugsa hvernig við för­um sem best með fjár­muni. Við eig­um að hugsa í lausn­um, ekki bara vanda­mál­um – og alls ekki í sí­felld­um aukn­um út­gjöld­um. Ég er bjart­sýn á vinn­una fram und­an og bind von­ir við að fleiri ráðuneyti geti not­fært sér þessa lausn, sem skap­ar grund­völl fyr­ir ein­fald­ara og skil­virk­ara reglu­verki og leys­ir krafta úr læðingi í ís­lensku sam­fé­lagi.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. ágúst 2024.