Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri Seltjarnarneskaupstaðar:
Á fundi stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins (SHS), sem í sitja borgarstjóri sem er formaður og bæjarstjórar á svæðinu, í janúar 2023 var samþykkt að setja á fót starfshóp með fulltrúum sveitarfélaganna og SHS. Verkefni hópsins var að fara heildstætt yfir uppbyggingarþörf slökkviliðsins og leggja fram tillögur að staðsetningu útkallseininga með tilliti til viðbragðstíma. SHS sinnir bæði slökkvistarfi og sjúkraflutningum á svæðinu.
Eftir ítarlega skoðun komst hópurinn að þeirri niðurstöðu að fjölga þyrfti slökkvistöðvum um tvær á svæðinu og færa tvær núverandi stöðvar til að bæta viðbragðstíma þjónustu liðsins auk þess að fjölga akreinum fyrir neyðarakstur með tilkomu og uppbyggingu borgarlínunnar. Í dag eru fjórar stöðvar á svæðinu, en með hliðsjón af núverandi stærð þess og framtíðaruppbyggingu svæða er ljóst að þessar tilfærslur á stöðvum, sem og fjölgun þeirra, eru nauðsynlegar.
Ein af niðurstöðum hópsins var að viðbragðstími slökkviliðs og sjúkraflutninga í vestasta hluta borgarinnar og á Seltjarnarnesi er ekki innan þeirra viðmiða sem kveðið er á um í reglugerðum og samningum. Skilgreindur viðbragðstími í forgangsakstri fyrir slökkvilið er tíu mínútur frá því að boð berast, og sambærilegur tími fyrir sjúkraflutninga er sjö mínútur. Þetta ástand er óviðunandi þegar kemur að öryggi íbúa og vegfarenda í Vesturbænum og á Seltjarnarnesi.
Ein af ástæðunum fyrir þessu er umferð um Hringbraut, sem á álagstímum ræður ekki við þá miklu umferð sem um hana fer. Þetta seinkar verulega viðbragði neyðaraðila.
Undirritaður lagði fram tillögu á stjórnarfundi SHS um að kanna möguleika á staðsetningu sjúkrabifreiða á annatímum, annaðhvort á Seltjarnarnesi eða í Vesturbænum. Bæjarstjórn Seltjarnarness hefur einnig lýst yfir áhyggjum af þessu máli og óskað eftir varanlegri lausn.
Á vormánuðum var unnin ný úttekt, að beiðni stjórnar SHS, til að finna ásættanlega staðsetningu sjúkrabifreiðar vestan Hringbrautar og/eða á Seltjarnarnesi á álagstímum. Niðurstaðan var sú að best væri að staðsetja sjúkrabifreið við Eiðistorg eða Austurströnd. Með þessari staðsetningu aukast líkurnar á því að viðbragðstíminn verði innan skilgreindra tímamarka, eins og áður var nefnt.
Stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins hefur nú samþykkt að fela slökkviliðsstjóra og undirrituðum að finna hentugt húsnæði fyrir útkallseiningu sjúkrabifreiða á álagstímum. Það hefur því verið ákveðið að bregðast við kalli okkar og lýsir undirritaður ánægju sinni með þær málalyktir.
Höfuðborgarsvæðið er í örum vexti, íbúum fjölgar og byggðin þenst út. Því þarf alltaf að vera vakandi fyrir því að tryggja lífsgæði íbúa með því öryggi sem felst í stuttum viðbragðstíma neyðaraðila.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. ágúst 2024.