Óli Björn Kárason alþingismaður:
Alþingi kemur saman að nýju eftir þrjár vikur – þriðjudaginn 10. september næstkomandi. Þingmenn allra flokka mæta til leiks, hver með sínum hætti, staðráðnir í að styrkja stöðu sína á síðasta þingi fyrir kosningar. Vinstri-grænir hafa þegar slegið tóninn með ályktunum á flokksráðsfundi um liðna helgi. Þar kom lítið á óvart. Gömul vinstriheit voru strengd.
Sanntrúaðir vinstrimenn leggja meiri áherslu á að stækka sneið hins opinbera af þjóðarkökunni en að stækka kökuna með skynsamlegri nýtingu auðlinda landsins. Þeir allra hörðustu eru á móti því að kakan stækki enda líta þeir svo á að hagvöxtur sé af hinu vonda. Ekki síst þess vegna er ekki ástæða til þess að auka græna orkuframleiðslu, ekki aðeins til að tryggja orkuskipti heldur einnig nýja verðmætasköpun til að standa undir betri lífskjörum almennings. Í huga þeirra er núverandi orkuframleiðsla nægjanleg en hún nýtt með vitlausum hætti af fyrirtækjum sem eiga engan tilverurétt.
Þegar hugmyndafræði vinstrimanna er höfð í huga eru ályktanir flokksráðsfundar VG betur skiljanlegar og engin ástæða er fyrir tímabundna samverkamenn í ríkisstjórn að hafa sérstakar áhyggjur. VG er í harðri samkeppni við Samfylkinguna, Pírata og Flokk fólksins, auk Sósíalistaflokksins sem virðist hafa gert töluvert strandhögg í raðir Vinstri-grænna síðustu mánuði.
Fjölbreytileg loforð
Á kosningavetri verður uppboðsmarkaður stjórnmálanna líflegur. Loforðin verða fjölbreytileg og keppnin milli þeirra sem vilja vera „góðir“ fyrir annarra manna fé verður óhjákvæmilega hörð. Hækka á námsstyrki og tryggja framhaldsskólanemum fríar máltíðir. Ungt fólk á að fá ókeypis getnaðarvarnir. Byggja á upp opinber húsnæðisleigufélög, hækka ellilífeyri og byggja upp „hágæða“ almenningssamgöngur um land allt. Og loforðin verða fleiri og stærri eftir því sem nær dregur kosningum.
Minna fer fyrir tillögum, öðrum en gamaldags og úreltum, um hvernig skynsamlegast sé að fjármagna öll góðverkin. Aukin verðmætasköpun hefur og verður aldrei áhugamál vinstrimanna (enda þyrfti þá að virkja markaðsöflin og auka orkuframleiðslu). Þess vegna er svarið alltaf einfalt: Við stækkum sneið hins opinbera af kökunni góðu. Skattar verða hækkaðir á fólk og fyrirtæki. Virðingin fyrir sjálfsaflafé og eignum einstaklinga er takmörkuð þegar gengið er út frá því að ríkið sé að „afsala“ sér tekjum með því að hækka ekki skatta. Skattahækkunar-mantran verður hávær, þótt einhverjir stjórnmálaflokkar reyni að þegja fram yfir komandi kosningar.
Í minnihluta
Þeir þingmenn sem vilja draga úr umsvifum ríkisins, lækka skatta á launafólk og fyrirtæki og ýta undir fjárfestingu verða í minnihluta á þingi á komandi vetri líkt og mörg undanfarin ár. Engu að síður hefur Sjálfstæðisflokknum tekist að lækka skatta hressilega frá 2013. Almenn vörugjöld hafa verið felld niður, tollar aflagðir fyrir utan á landbúnaðarvörur, tekjuskattur einstaklinga lækkaður, skattfrelsi séreignarsparnaðar sem nýttur er til íbúðakaupa verið tryggt, efsta þrep virðisaukaskatts lækkað sem og tryggingagjald. Uppsöfnuð nettó skattalækkun einstaklinga og fyrirtækja er áætluð yfir 300 milljarðar króna!
Þrátt fyrir lækkun skatta hafa tekjur ríkissjóðs aukist verulega. Þessi staðreynd breytir í engu hugmyndafræði vinstriflokkanna um hækkun skatta samhliða stórauknum ríkisútgjöldum. Og það er ekki við því að búast að þeir sem sannfærðir eru um að hægt sé að leysa flest vandamál með auknum útgjöldum sýni því skilning að skynsamlegt sé fyrir samfélagið allt að lofa einstaklingum að halda sem mestu eftir af sjálfsaflafé. Að auka ráðstöfunartekjur launafólks með meiri hófsemd í skattheimtu og álagningu opinberra gjalda er jafn fjarlæg hugsun og að nýta kosti og krafta einkaframtaksins í opinberri þjónustu.
Skýr skilaboð
Sjálfstæðisflokkurinn einn hefur burði til þess að vinna að því að stokka upp rekstur ríkisins. Fækka stofnunum, útvista verkefnum og selja fyrirtæki sem eiga ekki að vera í höndum ríkisins. Í þessu hefur nokkur árangur náðst síðustu ár en ekki nægjanlegur.
Markmiðið er að gera ríkisreksturinn hagkvæmari og þjónustuna betri. Eitt mesta hagsmunamál launafólks, sem ber uppi rekstur ríkisins með sköttum og gjöldum, er að innleiddir verði árangursmælikvarðar á öllum málasviðum ríkisútgjalda. Fjárveitingavaldið – Alþingi – verður að gera skýrar og auknar kröfur til allrar opinberrar þjónustu – ekki síst á sviði menntunar og heilbrigðisþjónustu.
Það er nauðsynlegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að marka skýra langtímastefnu í ríkisfjármálum þar sem stærsti hluti hagvaxtarauka komandi ára verði eftir í launaumslagi launafólks. Þannig er hægt að koma í veg fyrir að launahækkanir séu étnar upp með hækkun skatta og gjalda, líkt og vinstrimenn dreymir um.
Reynslan hefur sýnt að ekki er hægt að treysta á stuðning lýðhyggju-, foringja- og einsmálsflokka við að tryggja framgang hugmynda um uppstokkun í ríkisrekstri, hófsemd í skattheimtu, aukna orkuöflun og meiri verðmætasköpun með því að byggja undir framtaksfólkið um allt land. Sjálfstæðisflokkurinn verður að treysta á stuðning kjósenda. Grunninn að þeim stuðningi þarf að leggja á komandi vikum og mánuðum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. ágúst 2024.