Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis:
Staðan í málefnum útlendinga er bæði flókin og erfið. Við þurfum að hafa góðar upplýsingar og tölfræði um hana svo við getum tekið raunhæfar og rökréttar ákvarðanir í málaflokknum.
Í kjölfar ítarlegrar umfjöllunar Viðskiptablaðsins um gögn frá dönsku hagstofunni og fjármálaráðuneytinu, m.a. varðandi stöðu innflytjenda á vinnumarkaði, lagði ég fram fyrirspurn á Alþingi til fjármála- og efnahagsráðherra. Viðskiptablaðið vakti athygli á því að opinber gögn um innflytjendur í Danmörku væru bæði ítarleg og gæfu greinargóðar upplýsingar um viðfangsefnið. Danska fjármálaráðuneytið hefur árlega gefið út skýrslur frá árinu 2015 þar sem hreint framlag innflytjenda til hins opinbera er borið saman við íbúa af dönskum uppruna. Dönsk stjórnvöld leggja áherslu á að fylgjast með og meta árangur af aðlögun innflytjenda að dönsku samfélagi. Markmiðið er að fylgjast m.a. með atvinnuþátttöku innflytjenda, opinberri framfærslu þeirra og glæpatíðni. Ég óskaði því eftir upplýsingum um það hvort íslenska ríkið héldi sambærilega tölfræði og það danska.
Ráðherrann svaraði fyrirspurn minni á dögunum og stutta svarið er: nei. Þá stæði ekki til að safna umfangsmeiri tölfræði um stöðu hópa eftir þjóðerni. Þar sem fjármála- og efnahagsráðuneytið býr yfir gögnum úr álagningarskrá skattsins frá árinu 2004, sem geyma m.a. upplýsingar um ríkisfang, fylgdu þó með svarinu samanburðarlínurit sem gefa einhverja en þó óljósa mynd af stöðunni. Þar hefur ráðuneytið skipt framteljendum í Íslendinga, fólk frá EES- og EFTA-löndum og svo fólk með annað ríkisfang. Þar má m.a. sjá að hrein framlög til hins opinbera (skattgreiðslur að frádregnum tilfærslum) eru langhæst meðal fólks með íslenskt ríkisfang. Þar ber að hafa í huga að þúsundir einstaklinga af erlendum uppruna hafa fengið íslenskan ríkisborgararétt. Þá er erfitt að skipta útlendingum í hópa og skoða þannig tilfærslur til þeirra hópa, enda á mikill minnihluti erlendra ríkisborgara sem hér dvelur, einkum til að vinna, rétt á tilfærslum frá hinu opinbera.
Það eru vonbrigði að heyra að fjármála- og efnahagsráðherra hafi ekki áhuga á því að safna saman upplýsingum með sama hætti og dönsk stjórnvöld hafa gert í því skyni að meta árangur af innflytjendastefndu á danskt samfélag. Ráðherrann ber það að vísu fyrir sig að hann fari hvorki með opinbera hagskýrslugerð né málefni innflytjenda. Það er því ekki öll von úti um að kveikja áhuga íslenskra stjórnvalda á að safna saman betri upplýsingum um innflytjendur á Íslandi. Undirrituð gerir ráð fyrir að skoða fleiri möguleika til þess, enda eru greinargóðar upplýsingar forsenda upplýstrar ákvarðanatöku. Í þessu eins og öðru eigum við að líta til nágrannalanda okkar. Við getum ekki áfram stungið höfðinu í sandinn þegar kemur að málefnum útlendinga á Íslandi.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. ágúst 2024