Torfþak varð að mýri – Úti er ævintýri

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Nýju húsnæði leikskólans Brákarborgar við Kleppsveg hefur verið lokað vegna byggingargalla, einu og hálfu ári eftir að framkvæmdum við endurbyggingu þess lauk. Starfsemi leikskólans hefur verið flutt í Ármúla meðan á viðgerðum stendur, sem veldur röskun og óhagræði fyrir leikskólabörn og foreldra þeirra.

Óviðunandi er að ráðast þurfi í gagngerar viðgerðir á svo nýrri byggingu og ljóst er að alvarleg mistök voru gerð við hönnun og/eða framkvæmdir við hana. Viðgerðir munu kosta mikið fé og bætast við endurbyggingarkostnað verksins, sem nam 1.466 milljónum króna m.v. byggingavísitölu í júní sl. Kaupverð hússins að Kleppsvegi 150-152 nam 826 milljónum króna. Heildarkostnaður verkefnisins var því kominn í 2.292 milljónir króna í júní sl. og mun hækka enn frekar vegna yfirstandandi viðgerða.

Við endurbygginguna var sett torfþak á húsið auk steypulags. Upplýst hefur verið að þakið sé of þungt miðað við gildandi staðla. Torfþakið virðist hafa breyst í hálfgerða mýri og þarf því að fjarlægja það og líklega einnig að styrkja burðarvirki hússins.

Nýi leikskólinn var opnaður haustið 2022, mörgum mánuðum áður en framkvæmdum lauk. Var þá gagnrýnt að leikskólastarf hæfist í byggingunni samhliða umfangsmiklum framkvæmdum við hana og þungri umferð stórvirkra vinnuvéla á lóðinni.

„Aldrei hætta að þora“

Dagur B. Eggertsson fyrrverandi borgarstjóri hreykti sér af endurbyggingu hússins og vel heppnaðri framkvæmd í færslu á samfélagsmiðlinum Twitter 2. október 2022. Tilefnið var að Reykjavíkurborg hafði fengið sérstök umhverfisverðlaun, „Grænu skófluna“, fyrir bygginguna frá samtökunum Grænni byggð, sem borgin er aðili að. Í færslunni kom fram að varað hefði verið við því að framkvæmdin yrði dýr og áhættusöm. „Aldrei hætta að þora!“ stóð í færslu Dags.

Reykjavíkurborg fékk verðlaunin „Grænu skófluna“ fyrir bygginguna áður en framkvæmdum við hana lauk. Samtökin veita verðlaunin fyrir mannvirki sem byggt hefur verið með framúrskarandi vistvænum og sjálfbærum áherslum. Við verðlaunaafhendinguna var sagt að byggingin væri verðug fyrirmynd fyrir endurbyggingar eldri mannvirkja í framtíðinni.

Kostnaðaraðhaldi ábótavant

Mörg dæmi sýna að pottur er brotinn í byggingarmálum Reykjavíkurborgar. Í mörgum nýbyggingum er of mikil áhersla lögð á íburð og jafnvel tilraunastarfsemi á kostnað skattgreiðenda. Mörg mannvirki borgarinnar eru of dýr, bæði í byggingu og rekstri. Oft virðast hönnuðir og/eða arkitektar líta á verkefni fyrir borgina sem tækifæri til að reisa sjálfum sér framúrstefnulegt minnismerki. Hagkvæmni skipti þá ekki máli, hvorki byggingarkostnaður viðkomandi húss né rekstrarkostnaður þess til framtíðar.

Braggamálið afhjúpaði á sínum tíma mikla veikleika í kerfinu og algeran skort á eðlilegu kostnaðaraðhaldi. Sú spurning vaknar hvort menn hafi ekkert lært af því slæma máli.

Brýnt er að rannsakað verði hvað fór úrskeiðis við hönnun og framkvæmdir við Brákarborg. Draga þarf lærdóm af þeirri rannsókn og tryggja að slíkt endurtaki sig ekki.

Almennt verður hið opinbera að leggja meiri áherslu á hagkvæmni í byggingarmálum en nú er og á það ekki síst við um skólabyggingar. Þær eiga að vera vandaðar en jafnframt hagkvæmar í rekstri. Forðast ber óþarfa íburð eða tilraunastarfsemi á kostnað skattgreiðenda.

Greinin birtist í  Morgunblaðinu 15. ágúst 2024.