Skattpíndir Reykvíkingar

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis:

Morgunblaðið fjallaði á dögunum um þróun fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði, en kveikjan var ný greining Samtaka iðnaðarins. Í leiðara blaðsins var bent á að þótt þessir skattar snertu almenning ekki með beinum hætti hefðu þeir auðvitað áhrif á hann, enda greiddu einstaklingar á endanum þessa skatta eins og aðra. Álögurnar birtast þeim einfaldlega með öðrum hætti.

Framangreind greining SI beinir sjónum að mikilli hækkun fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði. Með sjálftöku sveitarfélaga taki þau til sín sífellt stærri hluta af verðmætasköpuninni. Sveitarfélögin ákveða enda sjálf fjárhæð skattsins innan ákveðins ramma og nær helmingur sveitarfélaga nýtir þar lögbundið hámark til skattheimtu, m.a. Reykjavíkurborg sem lætur auðvitað slík tækifæri til skattpíningar ekki fram hjá sér fara.

Fasteignaskattur er auðvitað sérlega ófyrirsjáanlegur og ósanngjarn skattur sem reiknast af fasteignamati lögum samkvæmt. Hann leggst þannig á atvinnuhúsnæði óháð afkomu fyrirtækja og kemur sérstaklega illa við þau á tímum stórfelldra hækkana fasteignamats.

Þar sem álagningarstofn fasteignaskatts er lögbundinn lagði ég fram fyrirspurn á liðnum vetri til innviðaráðherra um stofninn og hvort til stæði að endurskoða hann. Það voru vonbrigði að fá þau svör frá ráðherranum að ekki stæði til að endurskoða þessa ósanngjörnu og ófyrirsjáanlegu skattheimtu.

Hækkun fasteignamats hefur engan aukinn kostnað í för með sér fyrir sveitarfélög. Því hafa nokkur sveitarfélög mætt hækkun fasteignamats með lækkun álagningarprósentunnar, m.a. Kópavogur og Hafnarfjörður. Það hefur Reykjavíkurborg hins vegar ekki gert og er það í takt við hvernig Samfylkingin hefur stýrt borginni. Þrátt fyrir stórauknar tekjur Reykjavíkurborgar ár eftir ár, aðallega skatttekjur, versnar fjárhagsstaða borgarinnar jafnt og þétt. Áætlanir standast ekki og afkoman iðulega mun verri. Þetta er raunveruleikinn í stærsta sveitarfélaginu. Það er mikilvægt að halda þeirri skattpíningu og óráðsíu sem Reykjavíkurborg ber glöggt merki um frá ríkisfjármálunum.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. ágúst 2024