Óli Björn Kárason alþingismaður:
Stjórnmálaflokkar koma og fara. Sumir deyja drottni sínum eftir misheppnaðar tilraunir til að ná mönnum inn á þing. Aðrir hafa ekki haft úthald nema í eitt, tvö eða þrjú kjörtímabil. Fæstir hafa markað djúp spor í stjórnmálasöguna.
Fjórir flokkar náðu kjöri til Alþingis í kosningum 1963. Aðeins tveir þeirra eru enn starfandi; Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur. Alþýðuflokkur og Alþýðubandalagið buðu fram í síðasta skipti 1995. Eftir umbrot á vinstri væng stjórnmálanna náðu Samfylking og Vinstrihreyfingin – grænt framboð árangri í kosningunum 1999.
Eftir kosningar 2021 eru átta stjórnmálaflokkar með fulltrúa á þinginu. Fjórir komu fram á sjónarsviðið 2013 eða síðar en það ár fengu Píratar kjörna þingmenn. Í kosningunum 2016 bauð Viðreisn fram í fyrsta skipti. Flokkur fólksins og Miðflokkurinn voru fyrst með framboð í kosningunum 2017. Hvort þessir fjórir stjórnmálaflokkar verða langlífir á sagan eftir að leiða í ljós. Þá sögu skrifa kjósendur.
Borgaraflokkurinn, Borgarahreyfingin, Björt framtíð, Frjálslyndi flokkurinn, Þjóðvaki, Samtök um kvennalista, Bandalag jafnaðarmanna og Samtök frjálslyndra og vinstri manna eru dæmi um stjórnmálaflokka sem náðu mönnum inn á þing. Fæstir lifðu mörg kjörtímabil, sumir aðeins eitt. Og svo eru þau samtök sem buðu fram en náðu ekki að heilla kjósendur; Verkamannaflokkur Íslands, Heimastjórnarsamtökin, Þjóðarflokkurinn, Flokkur mannsins, Fylkingin, Lýðræðishreyfingin, Íslandshreyfingin, Hægri grænir, Dögun, Alþýðufylkingin, Flokkur heimilanna, Regnboginn, Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn, að ógleymdum Sósíalistaflokki Íslands sem náði ekki kjörnum þingmanni 2021 en boðar framboð við komandi kosningar. Sósíalistar fengu einn borgarfulltrúa kjörinn árið 2018 og bættu við sig einum í sveitarstjórnarkosningum 2022. Flokkar sem höfðu ekki erindi eru fleiri frá 1963.
Á framfæri hins opinbera
Frá kosningunum 2016 hefur ekki verið hægt að mynda meirihlutastjórn tveggja flokka á Alþingi. Og án þátttöku Sjálfstæðisflokksins hefur verið útilokað að tryggja ríkisstjórn meirihluta nema með þátttöku fjögurra eða fleiri flokka.
Fræðimenn greinir á um ástæður þess að flokkum á þingi hefur fjölgað og þeir eru líklega ekki sammála um hvort þróunin sé af hinu góða eða ávísun á pólitískan óstöðugleika. Auðvitað skipta persónur og leikendur máli. Uppgangur samfélagsmiðla spilar án nokkurs efa stórt hlutverk. Pólun samfélagsins hefur aukist og ríkisrekin fjölmiðlun hefur ýtt undir hana. En fleira kemur til. Kjördæmaskipan með misvægi atkvæða og fáum kjördæmum auðveldar fleiri flokkum en ella að ná kjöri. Fá og fjölmenn kjördæmi auðvelda flokkum að ná kjöri. En kannski skiptir mestu að íslenskir stjórnmálaflokkar eru að stórum hluta á framfæri hins opinbera, jafnvel þeir sem ná engum árangri í kosningum. Á verðlagi í júlí síðastliðnum hefur ríkissjóður styrkt stjórnmálaflokkana um 7,5 milljarða króna frá árinu 2013.
Alþingi samþykkti árið 2006 lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda. Með lögunum voru stjórnmálaflokkar í raun settir á jötu ríkisins, þótt þeir hafi fram að þeim tíma fengið töluverðan stuðning frá ríkinu. Lögin takmarka mjög möguleika stjórnmálaflokkanna til að afla sér fjár til starfseminnar frá einstaklingum og lögaðilum. Flokkarnir geta illa staðið fjárhagslega á eigin fótum.
Samkvæmt lögunum skal árlega „úthluta fé úr ríkissjóði til starfsemi stjórnmálasamtaka sem fengið hafa a.m.k. einn mann kjörinn á Alþingi eða hlotið hafa a.m.k. 2,5% atkvæða í næstliðnum alþingiskosningum samkvæmt ákvörðun á fjárlögum hverju sinni“. Hver stjórnmálaflokkur fær greitt í hlutfalli við atkvæðamagn. Því meira fylgi því hærri er ríkisstyrkurinn. Þá geta stjórnmálasamtök sem bjóða fram í öllum kjördæmum sótt um sérstakan styrk úr ríkissjóði. Þessu til viðbótar er veitt fé til starfsemi þingflokka á Alþingi. Greidd er jöfn fjárhæð fyrir hvern þingmann. Flokkar í stjórnarandstöðu fá sérstaka greiðslu.
Lögin setja stjórnmálaflokkum miklar skorður. Komið er í veg fyrir að flokkar afli sér fjárhagsstuðnings með sama hætti og áður, en þeim er tryggður aðgangur að sameiginlegum sjóði landsmanna – ríkiskassanum og sveitarsjóðum. Hér skal því haldið fram að með ríkisvæðingunni hafi stjórnmálaflokkarnir orðið óháðari eigin flokksmönnum. Þannig verða áhrif almennra flokksmanna minni en ella.
Gegn skoðanafrelsi
Ég hef áður bent á að lögin gangi gegn hugmyndum um skoðanafrelsi. Kjósandi sem berst gegn Sjálfstæðisflokknum er skyldaður til að greiða til flokksins og fjármagna starfsemi hans. Kjósandi Sjálfstæðisflokksins, sem telur hugmyndafræði róttæklinga hættulega, er neyddur til að styrkja starfsemi þeirra. Það er eitthvað öfugsnúið og rangt við að neyða einstakling til að styrkja félagsskap sem berst gegn því sem hann trúir á.
Diljá Mist Einarsdóttir hefur, ásamt nokkrum öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka, þar sem dregið er úr ríkisstuðningi og svigrúm flokkanna til að afla sér fjár er aukið. Frumvarpið hefur ekki náð fram að ganga en í greinargerð er því haldið fram að með lögunum hafi „flokkarnir í raun verið gerðir að ríkisstofnunum“. Minnt er á að forsenda þess að stjórnmálaflokkar séu „hornsteinn lýðræðis í landinu“ sé að þar fari fram virk starfsemi og þjóðmálaumræða, en „ríkiskostunin hefur dregið úr hvata flokkanna til að sinna því hlutverki“. Þetta sé öfugþróun enda stjórnmálaflokkar skipulögð lýðræðisleg samtök fólks: „Í framkvæmd hefur fjárstyrkur hins opinbera því hamlað starfsemi og sjálfstæði stjórnmálaflokka, sem gengur þvert á upphaflegt markmið með setningu laganna. Þá hefur fjáraustur hins opinbera til stjórnmálaflokka síst dregið úr umfangsmikilli kosningabaráttu, eins og vonast var til með setningu laganna, og er miklum fjármunum skattgreiðenda varið í auglýsingaherferðir stjórnmálaflokka.“
Þegar ríkisstjórn Vinstri-grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokksins var mynduð árið 2017 var það ekki síst gert undir þeim formerkjum að koma á pólitískum stöðugleika. Þess vegna væri nauðsynlegt að pólitískir andstæðingar tækju höndum saman þvert yfir litróf stjórnmálanna. Á síðasta þingvetri fyrir kosningar er skynsamlegt að flokkarnir þrír hnýti endahnútinn með því að tryggja framgang lagabreytinga um fjármál stjórnmálasamtaka. Annars heldur pólitískt sundurlyndi áfram að fá súrefni sem greitt er úr vasa skattgreiðenda.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 14. ágúst 2024.