Halldór Blöndal fyrrverandi samgöngu- og landbúnaðarráðherra, forseti Alþingis og formaður Samtaka eldri sjálfstæðismanna er gestur Ingvars P. Guðbjörnssonar í sautjándan þætti hlaðvarpsþáttaraðar um samofna 95 ára sögu Sjálfstæðisflokksins og 80 ára sögu lýðveldis. Hljóðútgáfu af þættinum má nálgast hér.
Halldór Blöndal á langan og farsælan ferli að baki í stjórnmálum. Hann sat sinn fyrsta þingflokksfund árið 1960 sem þingfréttaritari Morgunblaðsins og sat síðasta fund í þingflokknum í mars 2024 sem formaður Samtaka eldri sjálfstæðismanna (SES). Hann sat á Alþingi frá 1979-2007 eða óslitið í 28 ár. Hann var landbúnaðar- og samgönguráðherra 1991-1995 og samgönguráðherra 1995-1999. Hann var forseti Alþingis 1999-2005 og formaður SES 2009-2024.
Í viðtalinu ræðir Halldór aðdragandann að því að hann settist á Alþingi 1979. Hann ræðir helstu málin á þinginu fyrstu árin og tímann í landbúnaðarráðuneytinu og samgönguráðuneytinu. Eins árin sem hann var forseti Alþingis og formaður SES. Hann rifjar ýmislegt upp á löngum ferli í stjórnmálum, kynni við fyrrum forystumenn, breytingar í stjórnmálum á þessum tíma, helsta árangur flokksins í gegnum árin og fjölmargt annað. Þá ræddi hann ástandið um 1980 þegar Gunnar Thoroddsen og fleiri klufu sig frá flokknum og mynduðu ríkisstjórn.
Finnst Þorsteinn Pálsson hafa brugðist
„Þetta reyndi auðvitað mikið á okkur. Maður var ekki ánægður með þróun mála. Við Pálmi Jónsson vorum miklir vinir. Þarna hljóp snuðra á þráðinn en við náðum saman aftur og þetta lagaðist. Flokkurinn stóð þetta af sér,“ segir hann um þetta tímabil þegar varaformaður flokksins var forsætisráðherra í andstöðu við þingflokk Sjálfstæðisflokksins frá 1980-1983.
„Hins vegar hef ég oft verið undrandi á því að maður eins og Þorsteinn Pálsson hafi gengið úr flokknum og yfir í Viðreisn. Mér finnst hann hafa brugðist með því að yfirgefa Sjálfstæðisflokksins og fara í klofning,“ segir Halldór.
Sagði hann að á sínum fyrstu árum á þingi hafi efnahagsmálin og baráttan við verðbólguna verið í brennidepli en einnig hafi utanríkismálin verið mjög til umræðu.
Héðinsfjarðargöng merkileg
„Þegar ég varð samgönguráðherra þá hugsðum við ekki í jarðgöngum. Þá vilja menn fara yfir fjöllin. En á mínum tíma þá breyttist þetta og jarðgöng urðu aðal reglan. Það má segja að Héðinsfjarðargöng séu mjög merkileg vegna þess að þau opna alveg Eyjafjörð frá Siglufirði til Akureyrar og Ólafsfjarðarmúli verður úr sögunni sem var nú mjög hrikalegur vegur satt að segja,“ segir Halldór um tímann í samgönguráðuneytinu.
Ræddi hann um Hvalfarjarðgöng sem komu til í hans tíð í samgönguráðuneytinu.
„Við vorum sjálfstæðismenn þeirrar skoðunar að það ætti að reyna að nýta alla möguleika til þess að flýta jarðgöngum. Við gerðum okkur grein fyrir því að ef við ekki létum greiða fyrir að fara um göngin þá myndi gangavæðingin ganga hægar. Þetta var aðferð til þess að flýta framkvæmdum,“ segir hann um Hvalfjarðargöng.
„Þetta hefur reynst mjög vel. En nú þarf ekki að borga neitt í Hvalfarjarðargöng.“
Hann segir að það hafi reynst sér vel að ráða Sigurgeir Þorgeirsson sem aðstoðarmann sinn enda var hann vel tengdur við landbúnaðinn.
„Okkur tókst að vinna mjög vel að þeim málum, enda voru verkefni brýn og margvísleg menn höfðu satt að segja staðið á móti eðlilegum framförum fram að þeim tíma. Ég held að okkur Sigurgeir hafi gengið mjög vel saman,“ segir hann.
Fannst 8 ár sem ráðherra nóg
Halldór verður forseti Alþingis árið 1999.
„Ég var búinn að vera ráðherra í 8 ár sem mér fannst alveg nóg. Það voru menn sem vildu auðvitað taka við og koma sínum hugmyndum áleiðis. Það freistaði mín svolítið að verða forseti Alþingis. Ég átti mjög góð ár þar. Ég man ekki eftir að það hafi komið upp nein sérstök vandamál, en auðvitað er það svo í pólitík að það er alltaf eitthvað,“ segir hann um aðdragandann að því að hann varð forseti Alþingis og tímann þar.
Stóð fyrir fjölsóttu starfi innan SES í 15 ár
Hann lætur af þingmennsku árið 2007 en tekur við formennsku í Samtökum eldri sjálfstæðismanna árið 2009.
„Það var mjög gaman að gera það. Það tóku mér allir mjög vel. Við héldum vikulega fundi á miðvikudögum. Það voru tekin til meðferðar hin ólíkustu mál og þau brýnu mál sem brunnu á þjóðfélaginu á hverjum tíma. Ég var ekki var við annað en að því væri mjög vel tekið. Þessir fundir voru fjölsóttir og gaman að vinna að þeim,“ segir Halldór um þau 15 ár sem hann var formaður Samtaka eldri sjálfstæðismanna.
Hann segir það skipta miklu máli að eldri sjálfstæðismenn hafi vettvang innan flokksins því þá skýrist málin með þessum hætti og lausnir verða knýjandi. Segir hann Sjálfstæðisflokkinn verða að vera reiðubúinn að skýra afstöðu sína til hinna ýmsu mála og það hafi verið gert á vettvangi SES.
„Með því að ræða málin efnislega og alvarlega þá finnast oft lausnir sem ellegar hefðu ekki fundist,“ segir hann.
„Maður sem hugsar vitlaust hann skrifar vitlaust“
„Ólafur Thors var alveg ógleymanlegur maður. Hress og kátur. Ég einu sinni eftir honum í umræðum í þinginu. Ólafur var þá í deilum við þingmann og segir: „Háttvirtur þingmaður hafði eftir mér ummæli hér áðan, en þau voru rangt höfð eftir.“ Þá sagði þingmaðurinn: „Ég hef nú skrifað þetta hérna niður hjá mér.“ „Það er ekki að sökum að spyrja – maður sem hugsar vitlaust hann skrifar vitlaust,“ sagði Ólafur. Ólafur hafði alveg leiftrandi húmor,“ sagði Halldór um Ólaf Thors en Halldór hitti alla fyrrum formenn Sjálfstæðisflokksins að Jóni Þorlákssyni undanskildum.
„Ólafur er eftirminnilegastur. Bjarni (Benediktsson eldri) er mér mjög eftirminnilegur því hann er móðurbróðir minn og þegar ég var lítill á bolludaginn þá fór ég og rasskellti Bjarna og fékk bollur hjá Sigríði. Jóhann Hafstein var glæsilegur ræðumaður og gat sópað að honum. Geir (Hallgrímsson) var náttúrulega mjög málefnalegur og vandaður,“ segir Halldór um fyrrum formenn flokksins.
Gunnars og Geirdeilan reyndi á
„Það reyndi auðvitað á þolrifin hjá okkur sjálfstæðismönnum. Það voru deildar meiningar um það hvor þeirra skyldi vera forystumaðurinn. Það er nú löngum þannig í ýmsum flokkum að það eru fleiri en einn sem koma til greina til allrar hamingju. Við værum heldur fátæk ef það væri bara einn maður,“ segir Halldór um svokallaða Gunnars og Geirsdeilu sem var áberandi á áttunda áratugnum og fram á þann níunda.
Línurnar voru skýrari með flokksblöðin
„Ég held að Viðreisnarstjórnin sé sú stjórn sem sem ég man eftir sem skildi eftir sem djúp sporn. Nýsköpunarstjórnin var einnig mjög merkileg. Uppbygging togaraflotans. Síðan þurftum við að brjóta niður margvísleg höft og bönn. Það skipti okkur miklu máli að hafa meirihlutann í Reykjavík. Það má ekki gleyma því að Framsóknarflokkurinn á þessum tíma honum var fjarstýrt af Samvinnuhreyfingunni svo það voru auðvitað mjög sterk sem unnu á móti okkur,“ segir Halldór spurður að því hvenær flokkurinn hafi haft hvað mestu áhrifin á Íslandi.
„Mesta breytingin er náttúrulega sú að flokksblöðin voru lögð niður. Línurnar voru miklu skýrari meðan flokksblöðin voru og menn vissu hvar hver flokkur stóð. Má segja að stjórnmálin hafi að því leyti verið einfaldari. En nú er þetta gjörbreytt og við finnum til dæmis í dag að Ríkisútvarpið er vinstri sinnað. Það leynir sér ekki að blaðamenn þar eru þeim megin. Morgunblaðið er aftur hægra megin. Morgunblaðið er á hinn bóginn ekki flokksblað. Það getur tekið afstöðu gegn Sjálfstæðisflokknum ef svo ber undir sem hefði verið óhugsandi hér áður fyrr,“ segir hann spurður að því hverjar hafi verið mestu breytingarnar í stjórnmálunum að hans mati og spurður um breytingarnar á Sjálfstæðisflokknum í gegnum árin segir hann:
„Hann hefur náttúrulega breyst mikið vegna þess að forystumenn flokksins þeir móta flokkinn á hverjum tíma. Flokkur Ólafs Thors og Bjarna Benediktssonar (eldri) var allt öðruvísi en Sjálfstæðisflokkurinn í dag. Samband flokksmanna við forystumennina var líka annað. Við vorum færri Íslendingar og persónuleg tengsl miklu nánari en nú er. Það munaði auðvitað miklu.“
Sjálfstæðisflokkurinn setti okkur í flokk með öðrum lýðræðisríkjum
Halldór var á Þingvöllum 17. júní 1944 þegar Lýðveldi Íslands var stofnað og man því alla lýðveldissöguna.
„Það er náttúrulega í fyrsta lagi þá setur Sjálfstæðisflokkurinn okkur í flokk með öðrum lýðræðisríkjum. Við göngum í Atlantshafsbandalagið og Sjálfstæðisflokkurinn lagði mikla áherslu á sjávarútveg og útflutning, togaraútgerð og annað. Hann hafði forystu í landhelgismálinu og beitti sér með þeim hætti að ná fram okkar markmiðum í friði án þess að fórna of miklu. Ég álit að það hafi skipt okkur mjög miklu máli,“ segir Halldór spurður að því hverjar hafi verið helstu breytingarnar á samfélaginu undir foryustu flokksins.
„Ég held að hann hafi orðið okkur til góðs. Slíkir viðskiptasamningar eru auðvitað til góðs. Greiðir fyrir viðskiptum og veldur því að það opnast markaðir fyrir okkar útflutningsvörur og við höfum betri möguleika á að ná hagstæðum innkaupum erlendis frá. Ég held að það sé enginn vafi á því. Frjáls viðskipti hafa alltaf verið grundvöllur okkar stefnu. Ég held að reynslan sýni að það var rétt stefna og við höfum náð þessum mikla árangri í því ljósi,“ segir Halldór um EES-samninginn.
„Þegar ég var ungur þá var Sjálfstæðisflokkurinn frjáls flokkur. Framsóknarflokknum var stjórnað af Samvinnuhreyfingunni og vitum auðvitað að sameiningaflokkur Alþýðu, Sósíalistaflokkurinn var undir áhrifum Moskvukommúnismans. Sjálfstæðisflokkurinn var frjáls og opinn flokkur þar sem hann var í öndvegi þar gekk okkur vel og best. Getum horft hingað til Reykjavíkur til þess að sannfærast um það og forystu sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði í orkumálum, rafvæðingu landsins, í hitaveitumálum og hverju sem er,“ segir Halldór spurður að því hvers vegna hann telji að flokkurinn hafi notið jafn mikils stuðnings í gegnum áratugina og raun ber vitni.
Flokkurinn á sama erindi við ungt fólk í dag og hann hefur alltaf átt
Spurður að því hvaða erindi Sjálfstæðisflokkurinn eigi við ungt fólk í dag segir hann:
„Sama erindi og hann hefur alltaf átt. Að opna möguleika fyrir unga fólkið, bæði að það geti aflað sér þeirrar menntunar sem því mögulega stendur til og jafnframt að búa þannig um að atvinnulífið það geti haslað sér völl þar sem hæfileikarnir njóta sín og hugur þeirra stendur til. Ég held að Sjálfstæðisflokkurinn eigi sama erindi við unga fólkið núna og hann hefur alltaf átt.“
Þáttinn á Spotify má nálgast hér.