Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Viðvarandi lóðaskortur vinstri flokkanna í borgarstjórn Reykjavíkur hefur marga ókosti í för með sér. Lóðaskorturinn hefur leitt af sér mjög hátt húsnæðisverð, sem gerir mörgum erfitt um vik að eignast íbúð eða kemur jafnvel í veg fyrir það. Margt ungt fólk býr lengur í foreldrahúsum en það kærir sig um þar sem það hefur ekki efni á að kaupa eigin íbúð. Margir búa í leiguíbúð nauðugir viljugir þótt þeir hafi varla efni á því og vildu helst búa í eigin íbúð.
Hækkanir á húsnæðisverði vega þungt í verðbólgumælingum og ljóst er að þær eru einn helsti drifkraftur hárrar verðbólgu sem geisað hefur undanfarin ár. Síðast en ekki síst leiðir hækkandi húsnæðisverð af sér auknar álögur á almenning með hækkun fasteignaskatta og fasteignagjalda.
Vaxandi vandi
Vandinn á húsnæðismarkaði virðist síður en svo fara minnkandi samkvæmt nýlegri skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Fullbúnum íbúðum hefur fjölgað hægar á síðustu tólf mánuðum en á jafn löngu tímabili í febrúar sl. 15% samdráttur hefur orðið á fjölda nýrra fullbúinna íbúða á höfuðborgarsvæðinu á sama tíma og þeim fjölgaði um 7% á landsbyggðinni, miðað við stöðuna í febrúar.
Ójafnvægi á húsnæðismarkaði
Skortur á lóðum hefur dregið úr uppbyggingu íbúða undanfarna tólf mánuði að því er fram kemur í könnun, sem gerð var í júní sl. meðal stjórnenda verktakafyrirtækja fyrir Samtök iðnaðarins. Lóðaskortur er ein helsta ástæða þess að ekki hefur tekist að mæta þörfum almennings og áformum stjórnvalda í húsnæðismálum.
Áðurnefndir stjórnendur segja einnig að mikil hækkun á lóðaverði hafi haft mjög neikvæð áhrif á uppbyggingu íbúða. Lóðakaup vega þungt í heildarkostnaði húsnæðisuppbyggingar þar sem lóðaverð er hátt og greiða þarf fyrir lóðirnar löngu áður en hægt er að hefjast handa við uppbyggingu.
Aðeins 61% kostnaðar við íbúðaruppbyggingu er framkvæmdakostnaður (efni og vinna) samkvæmt áðurnefndri könnun. Lóðaverð er 18% og fjármagnskostnaður 11%.
Eign fyrir alla
Þegar Sjálfstæðisflokkurinn hafði hreinan meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur 1982-1994 var mörg þúsund byggingarlóðum úthlutað milliliðalaust til einstaklinga og samtaka þeirra. Á þessum tíma var algengt að lóðaverðið (gatnagerðargjald) næmi um 4% af byggingarkostnaði. Stefna Sjálfstæðisflokkurinn var sú að gera sem flestum kleift að eignast eigið húsnæði. Borgin lagði sitt af mörkum með því að selja lóðir á svokölluðu kostnaðarverði. Þessi stefna reyndist vel og þá var alsiða að fólk fjárfesti í sinni fyrstu íbúð í um tvítugt, jafnvel á meðan það var enn í framhaldsskóla eða háskóla.
Vinstri lausnir virka ekki
Nú er öldin önnur. Gífurlegar hækkanir á húsnæðisverði í borginni undanfarna áratugi má rekja til húsnæðisstefnu vinstri flokkanna undir forystu Samfylkingarinnar, sem fylgt hefur verið frá aldamótum. Stórfelldar hækkanir á húsnæðisverði hafa verið knúnar fram með ýmsum ráðum: með lóðaskortstefnu, lóðauppboði, auknu flækjustigi í stjórnsýslu, hækkun gjalda og álagningu nýrra, t.d. hárra innviðagjalda.
Húsnæðisskortur er viðvarandi þar sem íbúðauppbygging í borginni hefur að mestu takmarkast við dýr og þröng þéttingarsvæði á undanförnum árum. Íbúðir á þessum svæðum eru dýrar og varla á færi fólks með meðaltekjur, hvað þá efnalítils fólks.
Lausn húsnæðisvandans
Besta leiðin til að leysa húsnæðisvandann er að stórauka lóðaframboð í Reykjavík. Úthluta þarf lóðum víðar en á þéttingarreitum þar sem uppbygging er seinleg og kostnaðarsöm. Hægt væri að úthluta þúsundum lóða í Úlfarsárdal, Keldnalandi og á Kjalarnesi með skömmum fyrirvara. Einnig þarf að hefja undirbúning að íbúðabyggð í Geldinganesi vegna mikillar uppsafnaðrar byggingarþarfar. Unnt væri að hafa lóðirnar á þessum stöðum ódýrar og tryggja þannig verulega lækkun á íbúðaverði til almennings.
Tillögur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um stóraukið lóðaframboð hafa hlotið litlar undirtektir hjá fulltrúum vinstri meirihlutans í borgarstjórn. Tillaga um að hefja skipulagningu íbúðasvæðis í Geldinganesi var felld. Tillögu um nýtt íbúðarhverfi í Úlfarsárdal var vísað til frekari vinnslu í borgarkerfinu í mars sl., en um leið tók Einar Þorsteinsson borgarstjóri skýrt fram að málið yrði ekki í forgangi.
Húsnæðisvandinn í borginni verður aðeins leystur með stórauknu lóðaframboði og lækkun á íbúðaverði til almennings.