Hvað verður frítt næst?
'}}

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Virðing­in fyr­ir skóla­dót­inu er orðin eng­in,“ sagði grunn­skóla­kenn­ari við mig í sum­ar þegar við rædd­um um gjald­frjáls náms­gögn í grunn­skól­um lands­ins. „Ég skil hugs­un­ina og hug­mynd­in er fal­leg, en þegar þau eiga hlut­ina ekki sjálf hverf­ur til­finn­ing­in fyr­ir ábyrgð,“ bætti hún við.

Æ oft­ar heyr­ir maður efa­semd­ir meðal kenn­ara, starfs­manna skól­anna og sveit­ar­stjórn­ar­fólks um það hvort við séum á réttri leið með gjald­frjáls náms­gögn sveit­ar­fé­lag­anna. Það er mik­il­vægt að stuðla að jöfn­um tæki­fær­um óháð stöðu, en er besta leiðin að því mark­miði að hafa allt frítt fyr­ir alla?

Nú hef­ur Hafn­ar­fjörður ákveðið að falla frá ókeyp­is náms­gögn­um. Skól­arn­ir safna of miklu magni af ónotuðum náms­gögn­um og börn koma heim með full­ar tösk­ur úr skól­an­um af rit­föng­um og öðru sem þau hafa ekki notað. Þessi saga end­ur­tek­ur sig á hverju ári með til­heyr­andi kostnaði og sóun.

Eign­ar­rétt­ur snýst ekki aðeins um laga­leg­an rétt til að eiga eitt­hvað, held­ur einnig um til­finn­ingu fyr­ir ábyrgð og um­hyggju fyr­ir því sem maður á og er grund­völl­ur ein­stak­lings­frels­is og sjálf­stæðis. Þegar ein­stak­ling­ar eiga hluti bera þeir ábyrgð á þeim, sjá um að viðhalda þeim og ganga vel um þá. Þegar öll náms­gögn eru ókeyp­is er hætta á að til­finn­ing­in fyr­ir því að passa dótið sitt og fara vel með hverfi. Börn­in læra ekki að hlúa að því sem þau eiga, því þau eiga það ekki í raun. Í stað þess að efla ábyrgðar­til­finn­ingu skap­ar kerfið um­hverfi þar sem virðing­ar­leysi rík­ir og eign­ir missa verðgildi sitt.

Þrátt fyr­ir að þessi stefna hafi leitt til fleiri skemmdra bóka, fleiri týndra stíla­bóka og illa far­inna rit­fanga hef­ur verið tek­in ákvörðun um gjald­frjáls­ar skóla­máltíðir. Sú aðgerð mun kosta ríki og sveit­ar­fé­lög, þ.e. skatt­greiðend­ur, millj­arða á ári hverju. Meg­in­mark­miðið er ekki að stuðla að holl­ari eða nær­ing­ar­rík­ari máltíðum fyr­ir grunn­skóla­börn lands­ins, held­ur að tryggja að máltíðirn­ar skuli vera ókeyp­is fyr­ir öll börn, óháð efna­hag fjöl­skyldna þeirra.

Of mik­il orka hef­ur farið í það hjá stjórn­mála­mönn­um að karpa sín á milli um hvernig best sé að fram­kvæma þess­ar aðgerðir, en of lítið rætt um það hvort þessi stefna sé yfir höfuð skyn­sam­leg. Fæst­ir for­eldr­ar þurfa á ókeyp­is skóla­gögn­um eða skóla­máltíðum að halda. Við eig­um að ein­beita okk­ur að því að aðstoða þá sem þurfa aðstoð. Það er vel hægt að stuðla að jöfn­um tæki­fær­um án þess að fórna öll­um prinsipp­um um ábyrgð og eign­ar­rétt.

Þetta er slæm meðferð á al­manna­fé og kem­ur niður á öðrum mik­il­væg­um verk­efn­um inn­an mennta­kerf­is­ins. Við þurf­um að hafa komp­ás­inn rétt stillt­an til að tryggja sjálf­bæra framtíð mennta­kerf­is­ins og koma í veg fyr­ir óþarfa sóun á skatt­fé. Hvað verður ann­ars frítt næst sem eng­inn kann að meta?

Greinin birtist í Morgunblaðinu 9. ágúst 2024.