Friðjón R. Friðjónsson borgarfulltrúi og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Um komandi helgi lýkur Hinsegin dögum í Reykjavík með gleðigöngunni. Nú sem fyrr er mikilvægt að minna á rétt fólks til að elska og vera þeir sem þeir eru og kjósa að vera. Það er líka mikilvægt að minna á að heimurinn er ekki að farast þótt hann breytist. Vegna þess að heimurinn er alltaf að breytast, alla daga, allar stundir. Ég skil að fólki finnst erfitt að þurfa alltaf að vera að læra eitthvað nýtt. Það Ísland sem ég fæddist inn í fyrir rúmri hálfri öld var einfaldara, einsleitara og ábyggilega auðveldara fyrir marga. Hommar og lesbíur var eitthvað sem hvíslað var um eða notað sem skammaryrði. Fólk af öðru litarhafti en náfölu hlaut að vera erlent. Sem betur fer er Ísland fjölbreyttara, opnara og umburðarlyndara en það var þá.
Fyrir tæpum tveimur árum ályktaði Sjálfstæðisflokkurinn á landsfundi, að Ísland sé, og eigi ávallt að vera, í fararbroddi þegar kemur að réttindum hinsegin fólks. Eins ályktuðum við að fólki eigi að vera frjálst að skilgreina kyn sitt að vild. Þannig ítrekaði landsfundur Sjálfstæðisflokksins stuðning við frelsi einstaklinga til að vera þeir sem þeir eru og vilja vera. Það er fátt eins mikilvægt og að fólk fái að vera það sjálft og það kemur engum öðrum við hvernig það er.
Ósanngirni og býsnanir
Undanfarið hafa margir býsnast á því að stórgerð og karlmannleg kona frá Alsír keppi í hnefaleikum kvenna á Ólympíuleikunum í París. Eins og það sé ótrúlegt og jafnvel ósanngjarnt að kraftaleg kona nái árangri í hnefaleikum. Ég var ekki gamall þegar ég áttaði mig á því að hástökk eða langstökk myndi ekki liggja fyrir mér í framtíðinni. Háfættari skólasystkin mín voru líklegri til að ná hærra og lengra. En mér hefur aldrei þótt það sérstaklega ósanngjarnt. Þannig vinnur kraftalegt fólk keppni í kröftum, háfætt fólk er betur til þess fallið að keppa í stökkum og fallegt fólk keppir frekar en ég í fegurð. Ég bíð spenntur eftir upphrópunum úr sömu átt og býsnast yfir Imane Khelif, yfir ósanngirninni yfir því að hávaxnir nái árangri í körfubolta.
Það skiptir ekki máli
Imane Khelif er kona samkvæmt öllum skilgreiningum okkar og hennar sjálfrar. Hún hefur ekki smyglað sér í keppnina með því að segjast vera kona. Hún er fædd, uppalin og lifir sem kona, hún hefur eingöngu keppt í kvennaflokki, unnið þar sigra en líka upplifað ósigra. Þótt hún falli ekki að stöðlum einhverra yfir kvenleika þá skiptir það engu máli. Hvað okkur öllum finnst skiptir ekki máli og þótt Khelif væri á óræðu bili yfir hvað teljist karl og hvað teljist kona, þá skipta upphrópanir okkar engu máli. Nema þær senda skilaboð til stúlkna sem passa ekki inn í staðalmyndina um kvenleika að þær þurfi að passa sig. Þær megi ekki hafa metnað til að nýta það sem færir þeim mögulegt forskot. Þær eiga að reyna að troða sér í glerskóinn sama hvað. Það er glatað að senda svoleiðis skilaboð.
Hlutfallslegir yfirburðir
Við erum öll ólík hvert á sinn hátt. Við erum ekki jöfn eða eins. Við eigum að fagna fjölbreytileikanum og hjálpa fólki að nýta sér það sem gerir það einstakt. Hlutfallslegir yfirburðir er lykilþáttur í að gera Ísland að einu ríkasta landi í heimi. Hlutfallslegir yfirburðir einstaklinga hjálpa þeim að skara fram úr þar sem þeir reyna fyrir sér. Þess vegna er dæmið um Imane Khelif mikilvægur lærdómur um hvernig það er mikilvægt að gefa fólki tækifæri til að skara fram úr frekar en að draga það niður í dróma meðalmennskunnar.
Það er sjálfstæðisstefnan í hnotskurn.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 9. ágúst 2024.