Jón Gunnarsson alþingismaður:
Það er ekki ofsögum sagt að innviðir samgangna séu í miklum ólestri. Ellefu banaslys það sem af er þessu ári segja sína sögu. Tafir á mikilvægum framkvæmdum eru óásættanlegar og öryggi okkar allra er ógnað.
Það er á ábyrgð ríkisstjórnar og Alþingis að bregðast við þessu ástandi og verkefnið þolir enga bið. Einhver arðsamasta fjárfesting samfélagsins er fjárfesting í samgönguinnviðum. Tíma- og orkusparnaður er augljós ávinningur fyrir alla í umferðinni. Kostnaður samfélagsins vegna hárrar slysatíðni er óásættanlegur. Því verður ekki mætt nema með skilvirkara og betra vegakerfi. Uppbygging samgöngukerfisins um allt land verður að vera í forgangi á næstu árum, ef ekki þá blasir við algjört öngþveiti.
En hvað er til ráða þegar svigrúm ríkissjóðs er ekki mikið til stórátaka? Útgjöld ríkisins hafa vaxið verulega á undanförnum árum og þar munar mest um gríðarlega aukningu til félagslega kerfisins og heilbrigðismála. Sannarlega var þörfin til staðar og nú er verkefnið þar að ná fram meiri framlegð og hagræðingu þannig að þessi mikla aukning útgjalda nýtist sem best. Löggæslan hefur einnig fengið góða viðbót, en betur má ef duga skal.
Hugsa verður kerfið upp á nýtt
Árið 2017 var ég í samgönguráðuneytinu og rýndi þessi mál vel. Þá þegar lá í augum uppi að það stefndi í algjört óefni í samgöngumálum þrátt fyrir að fjármagn yrði aukið til málaflokksins. Þá eins og nú er augljóst að hugsa verði kerfið upp á nýtt. Hugmyndir sem ég setti fram voru umdeildar en svo hafa árin liðið og í dag finn ég fyrir miklu meiri skilningi á mikilvægi verkefnisins en áður.
Lausnirnar eru að mínu mati ekki flóknar og eiga sér fordæmi í fjölmörgum löndum.
Ég tel rétt að stofna opinbert fyrirtæki sem taki yfir uppbyggingu og mögulega rekstur á stofnleiðakerfinu, auk allra jarðganga og valinna vegarkafla víða um land. Með sambærilegum hætti og Landsnet sér um meginflutningskerfi raforku.
Ferðamenn myndu greiða 35-40%
Á þessum vegarköflum þarf að koma upp nútímagjaldtökukerfi af umferð þar sem þeir sem reglulega fara um gjaldtökuhlið myndu greiða hóflegt gjald. Einskiptisnotendur myndu greiða hærra gjald, en þar verður eðlilega um ferðamenn að ræða. Þegar þetta var reiknað út 2017 af starfshópi sem ég skipaði vegna þessa var gengið út frá um 150 kr. grunngjaldi. Til viðmiðunar má rifja upp að ódýrasta gjald í Hvalfjarðargöng þegar innheimtu lauk þar 2018 var 238 kr. Á þeim tíma greiddu einskiptisgreiðendur um 37% af heildargjöldum sem má heimfæra á það að ferðamenn myndu greiða 35-40% af uppbyggingu vegakerfis sem sætti gjaldtöku.
Rétt er að halda því til haga að hugmyndir fyrrverandi innviðaráðherra um „samvinnuverkefni“, þ.e. samfjármögnun einkaaðila og ríkisins á samgönguframkvæmdum hafa reynst erfiðar í framkvæmd, eins og reynslan af fjármögnun framkvæmda við Hornafjarðarfljót og Öxi, þar sem þessa leið átti að fara, hafa sýnt. Sú leið verður alltaf óhagkvæmari þar sem einstaka verkefni eru undir. Með heildarnálgun á verkefnið er ljóst að nokkrar leiðir verða mjólkurkýr verkefnisins sem mun gefa miklu meiri möguleika á heildstæðri nálgun í stórverkefnum hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli.
Gæta hófs í gjöldum, lækka vörugjöld
Samhliða nútímalegri gjaldtöku þarf að huga sölu ríkiseigna á borð við Flugstöð Leifs Eiríkssonar og þeim breytt í mikilvægari eignir í innviðum samfélagsins. Samhliða gjaldtöku þarf að huga að samræmi við aðra gjaldtöku af umferð og ökutækjum. Gæta þarf hófs við breytingar á gjöldum af eldsneyti yfir í kílómetragjald og mikilvægt er að lækka vörugjöld af bifreiðum. Það mun leiða til frekari endurnýjunar bílaflota landsmanna og þar með nýrri og öruggari bifreiða. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið hefur yfir tíma farið meira til samgöngumála en þau gjöld sem lögð voru á sérstaklega vegna þeirra. Það dugar einfaldlega ekki til ef við ætlum að koma okkur inn í nútímann í samgöngumálum.
Hagkvæmari verk í stað bútasaums
Við slíka breytingu gefst tækifæri til þess að gera áreiðanlegri áætlanir um uppbyggingu vegakerfisins í þéttbýli og dreifbýli. Hægt verður að bjóða út stærri og hagkvæmari verk í stað þess bútasaums sem er staðreyndin í dag og nýlegur Suðurlandsvegur á milli Hveragerðis og Selfoss er sorglegt dæmi um. Samræma þarf hönnun og framkvæmd um leið og leitað er eftir einföldustu lausnum til að nýta fjármagn með sem bestum hætti. Sem dæmi má nefna að ef þessi leið hefði verið farin, hefði vegur frá Kambarótum við Hveragerði verið boðinn út í einni framkvæmd austur fyrir Þjórsá með mislægum gatnamótum í stað hringtorga og skynsamlegri brú yfir Ölfusá sem líklega myndi kosta þriðjung af því sem fyrirhugað „listaverk“ á að kosta.
Við þessa breytingu myndi samgönguáætlun jafnframt fjalla um heildarmyndina; viðhald og uppbyggingu tengivega, héraðsvega, hafnarmál og flugvelli, svo mikilvægir þættir séu nefndir. Meira fjármagn mun verða til ráðstöfunar í þessa mikilvægu en vanræktu þátta í áætluninni.
Afturhaldsöfl í vegi framfara
Að efla og styrkja samgöngukerfið er þjóðhagslega mjög hagkvæmt. Það á bæði við í þéttbýli og í dreifbýli. Í dreifbýli snýst þetta um breiðari og öruggari vegi og aðskildar akstursleiðir þar sem við á. Í þéttbýli má nefna t.d. mislæg gatnamót. Slysamestu gatnamót landsins eru ljósastýrð gatnamót í höfuðborginni. Umferðarþyngstu gatnamót landsins eru mislæg gatnamót neðan Ártúnsbrekku og þar eru slys mjög fátíð. Að setja mislæg gatnamót víðar á höfuðborgarsvæðinu mun draga mikið úr slysum og greiða mjög fyrir umferð. Ekki er líðandi lengur að láta afturhaldsöfl í borgarstjórn standa í vegi fyrir slíkum framförum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. ágúst 2024.